Fara í innihald

Landsbankafarganið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Bankafarganið)

Landsbankafarganið er nafn á deilum sem stóðu aðallega á milli tveggja manna, Björns Jónssonar og Tryggva Gunnarssonar á árunum 1909-1911 á Heimastjórnartímabilinu. Björn og Tryggvi höfðu áður fyrr verið hvorum innan handar og góðir vinir en urðu ósammála um ýmiss mikilvæg álitaefni eftir að þeir komust til valda og metorða.[1]

Atburðarás

[breyta | breyta frumkóða]

Veturinn 1909, var Tryggvi Gunnarsson bankastjóri Landsbanka Íslands og Björn var skipaður ráðherra Íslands 31. mars. Fljótlega eftir að hafa sest í ráðherrastól skipaði Björn þriggja manna nefnd til athugunar á hag Landsbankans. Byggt á niðurstöðum nefndarinnar vék Björn bankastjórn Landsbankans frá störfum í nóvember 1909 „sökum margvíslegrar, megnrar og óafsakanlegrar óreglu í starfsemi yðar í stjórn bankans og frámunarlega lélegs eftirlits með honum.“.[2]

Þann 20. febrúar 1911, þegar þing kom aftur saman, voru bornar fram vantrauststillögur gegn Birni í báðum deildum Alþingis. Auk þess að víkja bankastjórninni hafði Björn vikið þingkjörnum gæslustjórum Landsbankans sem hann hafði ekki heimild til að gera, en einnig var fundið að því hversu harkalega hann gekk fram í stjórnarathöfnum sínum. Eftir að vantrauststillaga gegn Birni hafði verið samþykkt voru skipaðar tvær fimm manna þingmannanefndir, ein í hvorri deild Alþingis, til þess að rannsaka Bankafarganið svonefnda.

Nefnd efri deildarinnar lauk rannsókn sinni 8. maí 1911 og hafði þá víkkað nokkuð út viðfangsefni sitt og skipt því niður í fimm mál tengd „afskiftum fyrverandi ráðherra Björns Jónssonar“.[3] Fyrst og fremst var það talið lögbrot að Björn skyldi hafa vikið gæslustjórum Landsbankans sem voru þingkjörnir („bankamálið“). Í niðurstöðunum var vísað í nefndarálit frá 7. mars um að Björn skyldi innsetja gæslustjórana á ný sem hann hafði vikið frá.[4] Því til viðbótar var til skoðunar trúnaðarbrestur varðandi símskeyti danskra skoðunarmanna Landsbankans („símamálið“), hvers vegna landssjóður tók ekki til sín hluta af andvirði sölu námaréttinda til erlends banka („Silfurbergsmálið“), hvernig viðskiptaráðunautur fékk ríflega greitt fyrir aðstoð sína („viðskiptaráðunauturinn“) og loks samningur Thore-félagsins, sem sá um póstflutning, við ríkið. Rannsóknarnefndin hélt 22 fundi alls, þar af 11 fyrst og fremst um bankamálið. Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar var í sem stystu máli sú að „tjón það er hann hefir bakað landinu með afskiftum sínum nemi í það minnsta kr. 35.894.“

Þegar rannsóknarnefndin lauk störfum hafði Björn Jónsson þegar sagt sig frá ráðherraembætti vegna vantrauststillagna. Afleiðingar skýrslu rannsóknarinnar voru því ekki aðrar en þær að á hinum opinbera, pólitíska vettvangi var kné látið fylgja kviði. Lárus H. Bjarnason sem var formaður rannsóknarnefndar efri deildar var pólitískur andstæðingur Björns. Að sögn var hann af mörgum þeim sem hann mætti á förnum vegi beðinn um að vera „ekki svona vondur við gamla manninn.“[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Bergsteinn Jónsson. (1986). Landsbankafarganið 1909. Í Heimir Þorleifsson (Ritstj.), Landshagir: þættir úr íslenskri atvinnusögu, gefnir út í tilefni af 100 ára afmæli Landsbanka Íslands (bls. 55-78). Reykjavík: Landsbanki Íslands.
  2. Alþingistíðindi 1911, 22. löggjafarþing B. umræður: 321-322.
  3. Ágripsskýrsla frá meiri hluta rannsóknarnefndar efri deildar aþingis um gerðir landsstjórnarinnar í Landsbankamálinu m.m., þingskjal 964. Alþingistíðindi 1911, 22. löggjafarþing. A. Þingskjöl, bls 1244-1389.
  4. Nefndarálit um innsetning gæzlustjóra Ed. við Landsbankann, þingskjal 134. Alþingistíðindi 1911, 22. löggjafarþing. A. Þingskjöl, bls 312-323.
  5. Þorsteinn Ó. Thorarensen. (1966). Í fótspor feðranna: myndir úr lífi og viðhorfum þeirra, sem voru uppi um aldamót. Reykjavík: Fjölvi. bls 384.