Bank of America Tower (Miami)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bank of America Tower, mynd tekin árið 2008.

Bank of America Tower áður CenTrust Tower er 47 hæða skrifstofubygging í Miami í Flórídafylki. Byggingin var byggð fyrir CenTrust Savings and Loans árið 1987 og er þriðja hæsta byggingin í Miami og reyndar Flórída einnig. Húsið er um 190 metra hátt og er þekkt fyrir vandaða kvöldlýsingu og tilþrifamikið þriggja glera lag.

Byggingin var hönnuð af I.M. Pei og er fyrirtækið Pei Cobb Freed & Partners skráð fyrir arkitekúrnum. Turninn samanstendur af tveimur mannvirkjum. Fyrst má nefna 10 hæða bílskúr sem borgin sjálf á og síðan 37 hæða skrifstofuhús sem er byggt ofan á bílskúrinn. Teikningarnar af turninum voru gerðar í febrúar 1980 og byrjað var á byggingu bílskúrsins í nóvember sama ár. Byggingarframkvæmdum við bílskúrinn lauk í febrúar 1983 en ekki var þó byrjað á byggingu turnsins fyrr en ári seinna. Í ágúst 1984, meðan turninn var enn í byggingu, kviknaði eldur á 9. hæð sem gerði það að verkum að byggingu hússins seinkaði um nokkrar vikur.

Í febrúar 1987, var framkvæmdum lokið við bygginguna. Hún innihélt þá meðal annars einu upphækkuðu neðanjarðar–lestastöðina í heiminum sem byggð er inni í skýjakljúf. En byggingin er ekki einungis augnakonfekt utan frá séð. Hún er vel skreytt að innan og greinilegt að innanhúsarkitektinn hefur ekki verið að spara sig. Á fyrstu hæð hússins má sjá grænan marmara og ellefta hæðin er t.d. skreytt með marmara og gulli og risastórum svölum. Í byggingunni er einnig að finna fyrsta flokks líkamsræktar–aðstöðu þar sem skáparnir eru úr mahónitr. Turninn er tengdur við James L. Knight miðstöðina með gangbraut.

Til gamans má geta þess að þak hússins var notað sem tökustaður í myndbandi sem hin fræga söngkona, Gloria Estefan, tók upp árið 1994 fyrir lagið Turn the Beat around. Einnig hefur sést móta fyrir byggingunni í sviðsmynd hjá The Tonight Show sem Jay Leno stjórnar með prýði.