Bárðardalshraun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Goðafoss fellur út af jaðri Bárðardalshrauns við Fosshól.
Aldeyjarfoss fellur fram af Bárðardalshrauni þar sem það leggst upp að eldra bergi. Stuðlarnir eru í neðri hluta hraunsins.

Bárðardalshraun þekur botn Bárðardals allt ofan frá svokölluðum Skafeyrum og niður að Ullarfossi. Flestir bæir í dalnum standa á hrauninu eða við jaðar þess. Eldvörp eða upptakagígar Bárðardalshrauns eru ekki þekktir með neinni vissu. Eitt sinn var talið að hraunið væru frá Trölladyngju en berggerðin sýnir að svo er ekki. Trölladyngja er yngri og hraun hennar hylja Bárðardalshraun á stóru svæði. Nú er talið að hraunið sé komið frá gígaröð við Jökulsá á Fjöllum austan við Trölladyngju sem Gígöldur nefnast.[1][2] Lítt ber þó á gíglögun á eldvörpunum sem öll eru upp brotin, sundurtætt og sandblásin. Gígöldur tilheyra goskerfi Bárðarbungu líkt og Tungnárhraunin og þar með Þjórsárhraunið mikla. Dílasamsetning og útlitseinkenni Bárðardalshrauns eru áþekk því sem er í Tungnárhraunum. Uppi á hálendinu er Bárðardalshraun víðast hulið yngri hraunum og gosmyndunum. Það kemur í ljós þar sem það kemur út undan svokölluðu Fellsendahrauni sunnan við Suðurárbotna í Ódáðahrauni. Frá nyrstu tungum Fellsendahrauns má rekja Bárðardalshraunið niður með Suðurá og það er kennt við hana á þessum slóðum og nefnist Suðurárhraun. Víða er það úfið á yfirborði en helluhraunsflákar eru hér og hvar. Það hefur flætt niður í Bárðardal á tveimur stöðum, sitt hvoru megin Skafhóla. Aðalstraumurinn kom norðan Skafhóla og rann upp að Hrafnabjörgum vestan Skjálfandafljóts. Þá sveigði hraunið niður dalinn og fyllti hann hlíða á milli. Stuðlabergsumgjörðin í kring um Aldeyjarfoss er gerð úr hrauninu og Goðafoss fellur út af hraunjaðrinum. Hrauntota teygir sig inn í mynni Ljósavatnsskarðs og við Ljósavatn hafa myndast gervigígar í því. Utan við Fosshól dregst hraunið saman enda mjókkar dalurinn þar. Þingey í Skjálfandafljóti, sem Þingeyjarsýslur eru kenndar við, er í ysta hluta hraunsins. Eyjan endar í samfelldri hraunbrún sem liggur á ská yfir dalinn frá gljúfrinu neðan við Barnafoss, um Ullarfoss og að undirhlíðum Fljótsheiðar þar utan við. Hraunbrúnin er 10–30 m há og er öll meira og minna vatnssorfin eftir fljótið.[3] Bárðardalshraun er í hópi 10 stærstu hrauna landsins. Það er talið 444 km² að flatarmáli og um 8 km³. Það er talið vera um 9000 ára.[4]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Guttormur Sigbjarnarson 1988. Krepputunga og Brúardalir. Lýsingar á korteiningum jarðfræðikorts. Orkustofnun, OS-88038/VOD-06.
  2. Guttormur Sigbjarnarson 1995. Norðan Vatnajökuls III. Eldstöðvar og hraun frá nútíma. Náttúrufræðingurinn 65. 199–212.
  3. Árni Hjartarson 2004. Hraunin í Bárðardal. Náttúrufræðingurinn 72. 155–163.
  4. Árni Hjartarson 2011. Víðáttumestu hraun Íslands. Náttúrufræðingurinn 81. 37-49.