Fara í innihald

Austurstræti 14

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Austurstræti 14 er hús og lóð í miðborg Reykjavíkur við Austurstræti. Árið 1834 byggði Ole P.C. Möller verslunarhús þar. Tengdadóttir hans Guðný Möller eignaðist svo húsið og var þar með matsölu. Einar Benediktsson skáld eignaðist húsið og lóðina og lét rífa húsið árið 1907. Lóðin þótti mjög dýr og var kölluð Gulllóðin. Félag Einars The British North Western Syndicate byggði tvílyft timburhús á lóðinni árið 1910. Húsið var kallað Syndikatið eftir félaginu. Þar var vefnaðarvöruverslun Th. Thorsteinssonar og fleiri fyrirtæki. Syndikatið brann í Miðbæjarbrunanum í apríl 1915.

Lóðin var óbyggt til ársins 1928 en þá lét Jón Þorláksson reisa þar stórhýsi úr járnbentri steinsteypu og var það kjallari og fjórar hæðir auk þaklyftis. Á austurgafli hússins er lágmynd eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal. Húsið er teiknað af danska húsameistaranum Gerhard Rönne. Í húsinu var lyfta en á þeim tíma var ekki lyfta fyrir fólk í öðrum húsum en Eimskipafélagshúsinu.

Axel Ketilsson, kaupmaður og eigandi að Soffíubúð keypti árið 1936 allt húsið. Sonur hans Ketill Axelsson varð síðar eigandi hússins.

Í húsinu hefur verið ýmis konar rekstur. Á götuhæð var Soffíubúð þar sem verslað var með föt og vefnaðarvöru og smádót. Á götuhæð var einnig hárgreiðslustofa og úra- og skartgripaverslun sem Halldór Sigurðsson rak. Á annari hæð var lengi hattabúð og hattasaumastofa sem Anna Ásmundsdóttir átti. Einnig var í húsinu tannlæknastofa Halls Hallssonar. Á annarri hæð var skrifstofa sem sá um útflutning á saltfiski. Á þriðju hæð voru lögfræðistofur. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen var í húsinu og ljósmyndastofa Vignis og óskars. Í risinu var íþróttasalur Jóns Þorsteinssonar. Fyrirtækin Lýsissamlagið og Söfnunarsjóður Íslands voru einnig staðsett þar.

Þegar Soffíubúð hætti kom í staðinn Herradeild P&Ó en hana ráku Pétur og Ólafur, Pétur var tengdasonur Axels. Tóbaksverslunin London var í húsinu frá 1930. Á fyrstu hæð hússins var London dömudeild og á annarri hæð var Bára með dömufataverslun en hún flutti síðar verslun sína á Hverfisgötu.

Café París sem núna er á götuhæð hússins var stofnsett af Katli Axelssyni og sonum hans. Þar er kaffihús og veitingasala og borð höfð úti á stétt við Austurvöll á góðviðrisdögum.