Aukasól

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Aukasól á Suðurpólnum; skyggt er á alvöru sólina

Aukasól er ljósfyrirbæri, sem myndast við ljósbrot sólargeisla í ískristöllum í grábliku, gjarnan með rosabaugi. Aukasól, sem sést vestan við sólu nefnist gíll, en úlfur sú sem sést austan við. Ef gíll og úlfur sjást samtímis er sólin sögð í úlfakreppu. Munnmæli um veður segja að ekki sé gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni (og í fullu vestri sé).

Hugsanlegt er að líkingin við úlfa sé komin úr norrænni goðafræði. Í heimsmynd goðafræðinnar elta tveir úlfar, Skoll og Hati, sólina og mánann yfir himinhvolfið og munu klófesta bráð sína í ragnarökum. Talið er að hugmyndin um Skoll og Hata sé upprunnin sem skýring á eðli aukasóla, sem virðast elta sólina yfir himininn. Því sé talað um að sólin sé í kreppu þegar hún lendir á milli „úlfanna“ tveggja.[1][2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Hvað þýðir máltækið "Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni"? Er hér um yfirfærða merkingu að ræða?“. Vísindavefurinn.
  2. Jón Árnason (1862). „Teikn á himni“.