Astérix chez Rahàzade

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Astérix chez Rahàzade (íslenska: Ástríkur og töfrateppið) er belgísk teiknimyndasaga og 28. bókin í bókaflokknum um Ástrík gallvaska. Hún kom út árið 1987, en birtist einnig sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Pilote sama ár. Höfundur og teiknari bókarinnar var Albert Uderzo. Bókin hefur enn ekki komið út á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Sagan hefst skömmu eftir að ævintýrinu um Ástrík og son lýkur. Rómverskir hermenn hafa nýlokið endurbyggingu Gaulverjabæjar. Óðríkur algaula syngur hástöfum, með þeim afleiðingum að helliregn skellur á. Indverskur fakír birtist snögglega á fljúgandi töfrateppi. Hann segist kominn frá konungsveldi á Indlandi sem stríði við langvinna þurrka. Illur stórvesír hyggist nota úrkomuleysið til að fá konungsdótturina fögru Rahàzade líflátna og sölsa undir sig völdin.

Ástríkur, Steinríkur og Óðríkur halda ásamt fakírnum í austurveg með það fyrir augum að skáldið framkalli rigningu með söng sínum. Þeir lenda í ýmsum erfiðleikum á leiðinni en komast að lokum á áfangastað. Þar reynist Óðríkur hafa misst röddina og útsendarar stórvesírsins reyna að koma honum fyrir kattarnef. Rétt í þá mund sem til stendur að hálshöggva prinsessuna endurheimtir Óðríkur röddina og uns himnarnir gráta.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Þetta er fyrsta Ástríksbókin sem gerist á Indlandi. Margt í sögunni vísar þó í menningarheim Íslam, sem kom ekki til sögunnar fyrr en löngu eftir sögutíma bókanna.
  • Kiwoàlàh stórvesír hyggst steypa konunginum af stóli. Í bókinni segist hann vera frændi Fláráðs stórvesírs úr öðrum vinsælum bókaflokki eftir Coscinny.
  • Í bókarlok eru Ástríkur og félagar enn staddir á Indlandi. Þeir eru því fjarri góðu gamni í lokamynd bókarinnar, sem sýnir að venju íbúa Gaulverjabæjar halda átveislu í þorpinu.