Fara í innihald

Arsinóe 2.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Arsinóe 2.

Arsinóe 2. (gríska: Ἀρσινόη; 316 f.Kr. – óþekkt dagsetning frá júlí 270 til 260 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins. Hún var elsta dóttir Ptólemajosar 1. og eiginkonu hans Bereníku 1.

Fimmtán ára giftist hún bandamanni föður síns, Lýsimakkosi 1., sem þá var konungur yfir Þrakíu og síðar Makedóníu og stórum hluta Litlu-Asíu. Arsinóe átti með honum þrjá syni; Ptólemajos 1. Epigónos, Lýsimakkos yngri og Filippos. Hún stóð fyrir því að elsti sonur Lýsimakkosar og Níkaiu, Agaþókles, var kærður fyrir drottinsvik og myrtur í fangelsi af hálfbróður hennar, Ptólemajosi Kerános, árið 284 f.Kr. Eftir fall Lýsimakkosar í orrustunni við Kórupedíon flúði hún til Kassandreiu og giftist Ptólemajosi Kerános. Saman gerðu þau tilkall til konungdæmis í Makedóníu og Þrakíu. Í fjarveru Ptólemajosar gerði hún samsæri gegn honum ásamt sonum sínum. Vegna þessa lét Kerános drepa tvo eldri syni hennar en Filippos flúði norður til Dardaníu. Arsinóe fékk hæli hjá bróður sínum, Ptólemajosi 2., í Alexandríu.

Í Egyptalandi stóð hún enn fyrir samsæri þar sem eiginkona Ptólemajosar, Arsinóe 1., var kærð fyrir drottinsvik og rekin í útlegð. Arsinóe giftist þá bróður sínum og ríkti með honum til dauðadags. Hún var áhrifamikil og deildi öllum titlum með Ptólemajosi. Eftir dauða hennar var nafn hennar áfram notað á opinber skjöl. Ptólemajos ýtti undir dýrkun hennar sem gyðju (sem gerði hann um leið að guði).