Fara í innihald

Arnarstapi (Skagafjörður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Minnisvarði um Stephan G. Stephansson stendur á Arnarstapa í Skagafirði

Arnarstapi er smáhóll á austurbrún Vatnsskarðs í Skagafirði, hóllinn stendur norður af Víðimýrarseli, rétt við þjóðveginn. Af Arnarstapa er gott útsýni yfir meginhluta Skagafjarðar. Arnarstapa er getið í Þórðar sögu hreðu en í sögunni segir að þar börðust þeir Þórður og Eindriði stýrimaður. Barðist Þórður þar við sex menn og drap alla nema Eindriða sem hann særði þó nær til ólífis en flutti hann síðar til læknis og lét græða sár hans. Á Arnarstapa er minnisvarði um Stephan G. Stephansson, gerður úr hlöðnu grjóti. Minnisvarðann prýða þrjár lágmyndir eftir listamanninn, af Stephani ungum, miðaldra og öldruðum manni. Minnisvarðinn var reistur 1953. Skammt fyrir neðan Arnarstapa voru Brekkuhús, beitarhús frá Brekku. Þar bjó stundum húsmennskufólk og þar andaðist skáldið Hjálmar Jónsson frá Bólu árið 1875.