Anna í Grænuhlíð
Höfundur | Lucy Maud Montgomery |
---|---|
Upprunalegur titill | Anne of Green Gables |
Þýðandi | Axel Guðmundsson, 1933 Hildur Hermóðsdóttir, 1988 Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, 2012 |
Land | Kanada |
Tungumál | Enska |
Útgefandi | L.C. Page & Co. |
Útgáfudagur | 13. júní 1908 |
ISBN | ISBN 9979301163 |
Framhald | Anna í Avonlea |
Anna í Grænuhlíð er skáldsaga eftir Lucy Maud Montgomery sem kom fyrst út árið 1908 og fjallar um ævintýri Önnu Shirley, 11 ára munaðarlausrar stúlku, sem fyrir tilviljun eignast heimili hjá systkinunum Matthíasi og Marillu Cuthbert í Grænuhlíð og lífgar upp á tilveruna þar á bæ. Sagan gerist í lok 19. aldar í Kanada en bærinn Avonlea er sögustaður bókarinnar sem er skáldaður bær á Eyju Játvarðs prins. Sagan um Önnu varð strax gífurlega vinsæl frá fyrstu útgáfu og hefur síðan selst í yfir 50 milljónum eintaka og verið þýdd á a.m.k. 36 tungumál. Montgomery skrifaði síðar hátt í tuttugu framhaldsbækur og smásögur um Önnu í Grænuhlíð.
Anna í Grænuhlíð kom fyrst út í íslenskri þýðingu Axels Guðmundssonar árið 1933 og var endurútgefin þrisvar sinnum á 20. öldinni síðast árið 1988 þá í endurskoðun Hildar Hermóðsdóttur. Árið 2012 gaf bókaforlagið Ástríki út fyrstu bókina um Önnu í nýrri þýðingu Sigríðar Láru Sigurjónsdóttur.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Anna Shirley er munaðarlaus stúlka frá Nova Scotia sem hefur verið send til að búa með systkinunum Matthíasi og Marillu Cuthbert. Systkinin bjuggust við að fá dreng til að létta Matthíasi störfin á bænum en vegna misskilnings sendir munaðarleysingjahælið þeim stúlku. Anna er hvatvís og uppátækjasöm, en einnig greind, útsjónarsöm og ástúðleg. Leiðarvísir hennar í gegnum lífið er ímyndunaraflið sem hleypur oftar en ekki með hana í gönur. Anna er þá líka mjög upptekin af útliti sínu en þar eru rauðir lokkarnir heldur betur ekki í uppáhaldi.
Systkinin eru harðákveðin í að leiðrétta þennan misskilning en Anna er ekki lengi að heilla þau uppúr skónum og þannig fer að hún fær að vera um kyrr í Grænuhlíð. Sagan fjallar áfram haldandi um líf Önnu þar sem hún gengur í skóla og kynnist nýju fólki. Anna kynnist fljótlega Díönnu Barry sem verður hennar nánasta vinkona og lenda þær stöllur í hinum ýmsu ævintýrum. Hún vingast einnig við stúlkurnar Jane Andrews og Ruby Gillis en reynir að halda sig frá kvikyndislegu systrunum Gertie og Josie Pye. Anna stendur sig vel í skólanum og er fljótlega meðal hæstu í bekknum. Hennar helsti keppinautur er Gilbert Blythe sem verður hennar alversti óvinur eftir að hann gerir grín að rauðu lokkunum. Gilbert reynir þó hvað eftir annað að biðjast afsökunnar en Anna er lengi vel hörð á sínu og það tekur hana langan tíma að fyrirgefa Gilberti.
Þegar Anna er orðin 16 ára fer hún ásamt Gilbert, Josie, Jane og Ruby í Drottningarakademíuna (e. Queen's Academy) til að verða sér út um kennsluréttindi. Þar stendur hún sig áfram með prýði og klárar skólann á einu ári í stað tveggja auk þess sem hún hlýtur skólastyrk til þess að hefja bakkalor nám við Reddmond Háskóla.
Í síðari hluta bókarinnar deyr Matthías eftir að hafa fengið hjartaáfall. Þetta hörmulega áfall veldur því að Anna hættir við að fara til Reddmond og verður eftir í Grænuhlíð hjá Marillu. Hún fær starf sem kennslukona í öðrum bæ og ætlar sér að koma heim um helgar til að hjálpa Marillu. Gilbert hefur einnig fengið starf sem kennari en það í Avonlea. Eftir að hafa frétt af áætlun Önnu lætur hann eftir starfið sitt við Avonlea skóla svo að Anna geti tekið við því og eytt meiri tíma með Marillu. Anna verður svo snortin við þetta að hún fyrirgefur Gilberti allt sem áður hafði gengið og þau verða góðir vinir.
Persónur
[breyta | breyta frumkóða]- Anna Shirley: 11 ára munaðarlaus, málglöð stúlka með ríkt ímyndunarafl sem eignast fyrir tilviljun heimili í Grænuhlíð hjá systkinunum Marillu og Matthíasi. Anna er mjög viðkvæm fyrir útliti sínu en hún hefur algjöra ímugust á rauða hárinu sínu.
- Marilla Cuthbert: Systir Matthíasar. Marilla er ströng en sanngjörn kona sem hefur lítinn skilning á ímyndunarafli Önnu. Því lengur sem Anna dvelur hjá systkinunum fer Marilla þó að mildast því þrátt fyrir kalt viðmót þykir henni afar vænt um stúlkuna.
- Matthías Cuthbert: Bróðir Marillu. Hlédrægur og ljúfur gamall maður sem Anna gjörsamlega heillar uppúr skónum. Marilla skammar Matthías gjarnar fyrir að dekra of mikið við Önnu.
- Díana Barry: Besta vinkona Önnu. Díana býr í nágrenni við Grænuhlíð og er eldri dóttir Barry hjónanann en litla systir Díönnu er Minnie May. Anna öfundar of Díönnu vegna útlits síns en hún hefur fallegt þykkt dökkt hár.
- Gilbert Blythe: Myndarlegur, klár og hrekkjóttur skólafélagi Önnu. Gilbert verður hrifinn af Önnu frá því að hann sér hana fyrst. Hann reynir að ná athygli hennar með því að toga í aðra fléttuna hennar og kalla hana gulrót. Anna, sem hefur alla tíð verið ákaflega viðkvæm fyrir hárinu sínu, verður öskuill og neitar lengi vel að fyrirgefa Gilberti þrátt fyrir margar afsökunarbeiðnir. Nokkrum árum síðar lætur Gilbert eftir starfið sitt við Avonlea barnaskólann svo að Anna geti fengið starfið.
- Ruby Gillis: Vinkona Önnu. Ruby á nokkrar eldri systur og nýtur þess jafnan að deila þekkingu sinni á strákum með hinum stelpunum í skólanum. Ruby hefur ljóst liðað hár.
- Jane Andrews: Vinkona Önnu. Jane er látlaus og skynsöm stúlka.
- Josie Pye: Skólafélagi Önnu. Josie er óvinkona Önnu og hinna stúlknana í bekknum en Josie getur verið afar hégómaleg og óheiðarleg. Hún er öfundsjúk út í Önnu vegna þess hversu vel hún er liðin meðal bekkjarfélaganna.
- Frú Rakel Lynde: Nágranni Matthíasar og Marillu. Rakel er dugnaðarforkur og vinnur t.d. góðgerðarstörf fyrir kirkjuna. Frú Lynde er samt aðallega þekkt fyrir að vera hnýsinn og yfirlætisleg. Samskipti Önnu og Frú Lynde byrja á afturfótunum þegar Anna tekur gagnrýni Frú Lynde afar illa. Þær verða þó síðar þokkalegar vinkonur.
- Herra Phillips: Kennari Önnu í skólanum. Herra Phillips er óvinsæll meðal barnanna. Hann skortir aga og leysir vandamál sem uppkoma á grófan hátt.
- Mauriel Stacy: Kennari sem tekur við af herra Phillips. Fröken Stacy er afar ljúf og heiðarlegur kennari. Hún verður ákveðinn mentor Önnu og hvetur hana til áfram haldandi náms.
- Séra og Frú Allan: Presturinn í Avonlea og kona hans sem vingast við Önnu.
- Herra og Frú Barry: Foreldrar Díönnu og Minnie May. Frú Barry neitar að leifa Díönnu að hitta Önnu eftir að Anna veldur því óvart að Díanna verður drukkin. Það breytist hins vegar eftir að Anna bjargar lífi Minnie May þegar hún veikist alvarlega.
- Minnie May Barry: litla systir Díönnu sem Anna bjargar þegar hún veikist alvarlega.
- Josephine Barry: eldri frænka Díönnu. Hún er yfirleitt heldur neikvæð og niðurlút en breytist öll eftir að hún hittir Önnu.
- Frú Hammond: Kona sem Anna bjó hjá áður en hún eignaðist heimili í Grænuhlíð. Frú Hammond hafði misst eiginmann sinn og var af þeim sökum afar úrill og kvikindisleg. Hún lýtur á Önnu frekar sem húshjálp og þjónustustúlku heldur en dóttur.
Kvikmyndir og þættir
[breyta | breyta frumkóða]Bækurnar um Önnu í Grænuhlíð hafa alla tíð notið gífurlegra vinsælda en gerðar hafa verið ótal kvikmyndir og þættir eftir bókunum. Sennilega er þekktasta kvikmyndin um Önnu fjögurra klukkustunda sjónvarpsmynd frá CBS, Anne of Green Gables sem kom út árið 1985 og skartar Megan Follows í aðalhlutverki. Framhöld af þeirri kvikmynd eru síðan Anne og Green Gables: The sequel (1987) og Anne of Green Gables: The Continuing Story (2000). RÚV sýndi á tímabili teiknimyndaþætti frá PBS um Önnu í Grænuhlíð. Nýjustu þættirnir sem byggðir eru á bókum L. M. Montgomery kallast Anne with an E og var þeim streymt inn á gagnaveituna Netflix árið 2017.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var „Anne of Green Gables“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt Febrúar 2018.