Annað enska borgarastríðið
Annað enska borgarastríðið (1648 – 1649) var annar hluti þeirra átaka sem eru þekkt sem Enska borgarastyrjöldin. Eftir að Fyrsta enska borgarastríðinu lauk með sigri þinghersins var herinn orðinn að pólitísku afli sem þingið reyndi eftir megni að leysa upp, hætta að greiða hermönnum laun og senda herdeildir úr landi. Að lokum töldu öldungakirkjuflokkurinn og konungssinnar á enska þinginu, ásamt Skotum, sig vera í stöðu til að hefja nýtt borgarastríð. Uppreisnir gegn þinginu blossuðu upp um allt landið en brátt fengu konungssinnar yfirhöndina og borgarastríðið varð aftur aðeins milli konungssinna og þingsinna. Skotar gerðu innrás í Norður-England og konungssinnar í útlegð náðu skipum á sitt vald í The Downs.
Thomas Fairfax barði niður uppreisnirnar í Kent og sneri sér svo að Essex þar sem konungssinnar bjuggu um sig í Colchester sem Fairfax settist um. Oliver Cromwell var sendur til Wales til að kveða niður uppreisnina þar og í Cornwall. John Lambert snerist gegn norðurhéruðunum. Oliver Cromwell hélt með her sinn honum til stuðnings og saman mættu þeir her Skota og konungssinna undir stjórn James Hamilton 17. ágúst 1648 við Preston í Lancashire. Þingherinn vann þar afgerandi sigur gegn fjölmennara liði. Að lokum gáfust konungssinnar í Colchester upp fyrir Fairfax 28. ágúst.
Eftirmálar stríðsins urðu þeir að upphafsmenn uppreisnanna voru ýmist teknir af lífi eða settir í fangelsi. Í desember fór hreinsun Prides gegn andstæðingum hersins fram í enska þinginu. Afgangsþingið sem eftir var dæmdi Karl 1. til dauða fyrir landráð vegna þátttöku hans í að hvetja til uppreisna. Hann var hálshöggvinn 30. janúar 1649 sem markar endalok Annars enska borgarastríðsins. Nokkrum dögum síðar hylltu Skotar Karl 2. son hans sem konung Englands, Írlands og Skotlands, og hófu þar með Þriðja enska borgarastríðið.