Fara í innihald

Amerískur fótbolti

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Amerískur Fótbolti)
Georgia Dome, heimavöllur Atlanta Falcons í NFL deildinni

Amerískur fótbolti, þekktur innan Bandaríkjanna og Kanada sem football sem þýðir fótbolti á íslensku, er hópíþrótt sem er þekkt fyrir mikla hörku þrátt fyrir að vera þaulskipulögð. Markmið leiksins er að skora sem flest stig með því að koma boltanum að marklínu andstæðingsins. Til þess að koma boltanum áfram má kasta honum, hlaupa með hann eða rétta hann öðrum liðsfélaga. Stig eru skoruð á marga vegu, m.a. með því að koma boltanum yfir marklínuna eða með því að sparka boltanum milli markstanganna. Sigurvegari leiksins er liðið sem skorað hefur flest stig að leik loknum. Stærsta deild í heimi sem spilar amerískan fótbolta er NFL-deildin í Bandaríkjunum.

Lögun hins ameríska fótbolta er afar frábrugðinn þeirri tegund knatta sem notaðir eru í knattspyrnu.

Mörgu fólki utan Bandaríkjanna og Kanada hefur þótt það skrýtið að íþrótt þar sem boltinn er aðallega snertur með höndunum skuli vera kölluð fótbolti. Einföld skýring er á því. Á seinni hluta 19. aldar var gerður greinarmunur á íþróttum sem spilaðar voru á hestum og þeim sem spilaðar voru á fótum. Fótbolti er spilaður á fótum, en ekki hestum, og orðið fótbolti festist við íþróttina.

Leikvöllur og leikmenn

[breyta | breyta frumkóða]
Völlur fyrir amerískan fótbolta

Amerískur fótbolti er spilaður á rétthyrndum velli sem er 109,7 m (360 fet) á lengd og 48,8 m (160 fet) á breidd. Hliðarlínur vallarins eru yfirleitt breiðar og á enda vallarins, hvoru megin, eru marklínur sem eru 91,4 m (100 yd) frá hvor annarri. Svæðið handan marklínunnar kallast markteigur og er hann 9,14 m (10 yd) á lengd, en handan markteigsins er endalínan.

Stiku línur eru á vellinum hverja 4,6 metra (5 yd). Línurnar ganga þvert yfir völlinn og eru merktar með tölu og segir sú tala til um hversu langt er til næstu marklínu. Á hverjum 0,914 metrum (1 yd) eru tvö sett af smáum línum á miðjum vellinum. Innan þeirra lína verða leikmenn að hefja hverja sókn.

Fyrir aftan markteiginn standa tvær markstangir og eru 5,6 metrar (18,5 fet) á milli þeirra. Markstangirnar eru tengdar saman með þverslá sem er í 3,05 metra (10 fet) hæð yfir jörðu.

Hvort lið má hafa 11 leikmenn inn á vellinum í einu. Lið má þó skipta út eins mörgum leikmönnum og það vill ef nægur tími er fyrir hendi, t.d. eftir að leikhlé hefur verið tekið eða þegar sókn tekur enda. Þetta leiðir af sér að hver og einn leikmaður hefur frekar sérhæft hlutverk og geta rúmlega 46 mismunandi leikmenn tekið þátt í einum og sama leiknum í NFL deildinni. Hvert lið skiptir leikmönnum sínum í þrjú „lið“: Sókn, vörn og sérhæft lið. Þetta sérhæfða lið sér m.a. um vallarmörk, upphafsspark og spyrnur úr höndum leikmanns (e.: punt).

Lengd leikja

[breyta | breyta frumkóða]

Leikur í amerískum fótbolta samanstendur af fjórum 15 mínútna leikhlutum með hálfleik eftir 2. leikhluta og stutt leikhlé á milli annarra fjórðunga. Klukkan er stöðvuð við ýmsar aðstæður í leiknum, svo sem þegar leikmaður sem heldur á boltanum fer útaf vellinum, þegar leikhlé er tekið og ef sending liðstjórnandans fellur í jörðina áður en einhver nær að grípa hana. Það er jafnframt kölluð ófullkomin sending. Þetta leiðir af sér lengri leik og geta leikir staðið yfir í meira en 3 klukkutíma. Ef liðin standa jöfn að stigum eftir fjóra leikhluta er leikurinn framlengdur. Í NFL-deildinni er framlengingin einn 15 mínútna leikhluti og vinnur það lið sem skorar fyrst stig, jafnvel þó að annað liðið snerti ekki boltann. Ef ekkert lið skorar í framlengingunni endar leikurinn sem jafntefli. Í deildarkeppni NFL geta leikir endað með jafntefli en þegar komið er fram í umspil þarf alltaf að úrskurða sigurvegara og eru teknar jafn margar framlengingar og nauðsyn krefur.

Að færa boltann fram

[breyta | breyta frumkóða]
Seattle Seahawks á æfingu

Í upphafi hverrar sóknar fær sóknarliðið 4 tilraunir (e:downs) til að koma boltanum áfram 9,14 metra (10 yd). Ef sóknarliðið nær að færa boltann fram um 9,14 metra (10 yd) fær það aftur 4 tilraunir og þegar það gerist er talað um að sóknin fái 1. tilraun. Ef að sókninni tekst ekki að koma boltanum fram 9,14 metra (10 yd) missir það boltann til andstæðingsins. Yfirleitt reyna lið ekki að koma boltanum áfram á 4. tilraun heldur spyrna þau boltanum úr höndum sér (punt) til að koma boltanum eins langt frá markteig sínum og mögulegt er. Ef boltinn er hinsvegar nógu nálægt markstöngunum reynir liðið að skora vallarmark.

Boltinn er alltaf settur í leik með upphafskasti, nema í upphafi hvors hálfleiks eða eftir að lið fær stig. Framlínumenn (varnarmenn) stilla sér upp við ákveðna línu, línu þar sem að leikurinn stöðvaðist í síðustu hrinu, kölluð áflogalína, einn sóknarmaður, miðjumaðurinn, sendir (með upphafskasti) boltann til liðsfélaga, yfirleitt til liðstjórnandans. Þaðan geta menn valið um hvernig þeir vilja koma boltanum fram og eru tvær leiðir til þess:

  • Að hlaupa með boltann. Einn liðsmaður réttir öðrum boltann, eða hleypur sjálfur með boltann fram.
  • Að kasta boltanum. Einn liðsmaður, yfirleitt leikstjórnandinn, kastar boltanum fram völlinn í átt að liðsfélaga. Sóknin má aðeins kasta boltanum einu sinni fram á við og aðeins fyrir aftan áflogalínuna. Lið má hinsvegar kasta eða rétta boltann aftur á bak eins oft og það vill, og hvar sem það vill.

Tilraun endar og boltinn verður dauður ef að eitt af eftirfarandi gerist:

  • Leikmaðurinn er neyddur á jörðina (tæklaður) eða framgangur hans er hindraður af leikmönnum í vörn hins liðsins (dæmt sérstaklega af dómara).
  • Sending fram á við fer útaf vellinum eða lendir á jörðinni áður en hún er gripin. Það er kallað ófullkomin sending. Liðið byrjar leikinn á sömu áflogalínu og í hrinunni áður.
  • Leikmaður sem heldur á boltanum stígur útaf vellinum.
  • Annað liðið skorar.

Dómari flautar ávallt ef eitt af ofangreindu gerist og lætur vita að tilraun hefur lokið.

Í upphafi hverrar hrinu eru upplýsingar á stigatöflu sem að segja m.a. til um á hvaða tilraun liðið er. Til dæmis eru merkingar á sjónvarpsskjá svohljóðandi: „1st & 10“. Með þessu er átt við að liðið er á 1. tilraun og þarf að fara með boltann áfram um 10 yd (9,14 metra) til að fá aftur 1. tilraun. Ef að lengdin er meiri eða minni en 9,14 metrar (10 yd) er yfirleitt talað um „1st / 2nd / 3rd / 4th & long[1] eða „1st / 2nd / 3rd / 4th & short[2] eftir því hvað á við hvoru sinni. Ef það eru minna en 9,14 metrar (10 yd) að marklínununni er talað um „1st / 2nd / 3rd / 4th & Goal“. Stundum er talað um „2nd / 3rd / 4th & inches“ en það er þegar boltinn lendir rétt fyrir framan línuna sem hefði gefið liðinu fyrstu tilraun.

Breytingar á yfirráði boltans

[breyta | breyta frumkóða]
Tækling í stjörnuleiknum 2006

Sóknarliðið heldur boltanum þar til eitt af neðangreindu gerist:

  • Liðið nær ekki að koma boltanum fram 9,14 metra (10 yd) í fjórum tilraunum. Vörnin fær boltann á þeim stað sem 4. tilraun sóknarliðsins lýkur.
  • Sóknin skorar snertimark eða vallarmark. Liðið sem skorar þarf þá að spyrna boltanum aftur til hins liðsins. Það spark er yfirleitt kallað upphafsspark.
  • Sóknin sparkar boltanum úr höndum sér (punt). Yfirleitt á þetta sér stað í 4. tilraun sóknar þegar sóknin vill koma boltanum eins langt frá sér og hún getur í stað þess að missa yfirráð af boltanum nálægt marklínu sinni.
  • Varnarmaður kemst inní sendingu sóknar með inngripi. Sá varnarmaður sem grípur boltann má hlaupa með hann þangað til að boltinn er dæmdur dauður af dómara, greint er frá ástæðum þess að bolti er dæmdur dauður eru hér að ofan.
  • Sóknarmaður missir boltann úr höndum sér, yfirleitt kallað klúður, og varnarmaður nær boltanum. Eins og þegar varnarmaður kemst inní sendingu sóknar má varnarmaður sem grípur klúðruðum bolta hlaupa með hann þar til boltinn er dæmdur dauður.
  • Sóknarliðið nær ekki að skora eftir tilraun til vallarmarks. Varnarliðið fær þá boltann á þeim stað sem spyrnan var tekin. Ef að spyrnan var tekin innan 18,3 metra (20 yd) við markstangirnar fær varnarliðið boltann á 18,3 metra (20 yd) línu sinni.
  • Sóknarmaður er tæklaður út af leikvellinum, missir boltann útaf vellinum eða brýtur ákveðnar reglur í eigin markteig en þetta gerist þó sjaldan. Þetta er yfirleitt kallað sjálfsmark (safety)
  • Sóknarmarður klúðrar og missir boltann úr höndum sér (e:fumble) og boltinn fer útaf vellinum í markteig sóknarmannsins. Þetta er næstum það sama og sjálfsmark, nema engin stig reiknast og varnarliðið fær boltann á 18,3 metra (20 yd) línunni þeirra.

Lið getur skorað á eftirfarandi hátt:

  • Snertimark: Snertimark gefur 6 stig. Það er skorað þegar leikmaður hleypur með boltann í markteig andstæðinganna[3].
    • Eftir snertimark má lið reyna að fá 1 eða 2 viðbótarstig. Boltinn er settur á 2,74 metra (3 yd) línu hins liðsins eftir snertimarkið kjósi liðið að reyna að komast aftur yfir snertimarklínuna og skora tveggja stiga mark eða á 15 yarda línuna kjósi liðið að sparka vallarmarki fyrir 1 stig, eða aukastig(extra point). Ef að liðið velur að skora vallarmark fæst 1 auka stig ef að það tekst, en ef að liðið velur að skora snertimark fær það 2 stig ef það tekst. Ef að vörnin tekst að komast inní sendingu sóknarliðsins með inngripi(interception) eða nær boltanum eftir að sóknarmaður klúðrar honum má vörnin reyna að skora snertimark en það snertimark gildir tvö stig. Sóknarlið fær ekkert stig ef því mistekst að skora snerti eða vallarmark.
Leikmenn reyna að skora vallarmark
  • Vallarmark: Vallarmark gefur 3 stig. Það er skorað þegar boltanum er spyrnt í gegnum markstangir varnarliðsins. Yfirleitt er reynt að skora vallarmark ef að lið er nógu nálægt markstöngunum í 4. tilraun, eða þegar að lítill tími er eftir af leiknum. Í NFL deildinni í Evrópu (NFL Europa) gefa þeir 4 stig fyrir vallarmörk yfir 45,7 metra (50 yd).
  • Sjálfsmark: Sjálfsmark gefur 2 stig. Vörnin ein getur látið sóknarliðið skora sjálfsmark[4]. Þá er leikmaðurinn sem að heldur á boltanum neyddur í eigin markteig og tæklaður þar af varnarmanni, ef að hann klúðrar boltanum útaf vellinum í sinn eigin markteig er það líka talið sem sjálfsmark og einnig ef að vörnin nær að verja spyrnu sóknarliðsins og boltinn rúllar útaf á markteig sóknarliðsins. Ef að leikmaður varnarliðsins grípur inní sendingu sóknarliðs í eigin markteig og er tæklaður þar er ekki litið á það sem sjálfsmark sem gefur 2 stig, heldur sjálfsmark þar sem ekkert stig er gefið eins og talað er um hér fyrir ofan.

Upphafsspyrna og aukaspyrnur

[breyta | breyta frumkóða]

Hver hálfleikur hefst á upphafssparki. Lið þurfa líka að sparka upphafsspyrnum eftir að snertimark eða vallarmark er skorað. Í upphafssparki er boltanum sparkað frá 27,4 metra (30 yd) línu liðsins. Liðin mega nota sérstakan stall til að halda fótboltanum, en það mega þau hinsvegar hvorki í vallarmörkum né spyrnum úr höndum þeirra (punt). Hitt liðið fær þá að grípa boltann og reynir að koma honum eins langt fram og það getur. Ef að boltinn fer aftur fyrir endamörk, eða ef að leikmaður grípur boltann í eigin markteig og fer á hné, er litið á það sem sjálfsmark án stiga og fær liðið að hefja leik á 18,3 metra (20 yd) línunni sinni. Eftir sjálfsmark spyrnir liðið sem að gaf frá sér 2 stig boltanum frá 18,3 metra (20 yd) línu sinni.

Reglur/Brot

[breyta | breyta frumkóða]
Dómarar ásamt sjóliðum í sjóhernum á stjörnuleiknum 2005

Þó nokkuð er af reglum í ameríska fótboltanum og getur refsing liðsins sem braut af sér orðið mis hörð. Flestar refsingar fela það í sér að færa boltann nær eða fjær marklínu annars liðsins. Hörðustu refsingar geta falið í sér að liðinu sem brotið var á sé gefið snertimark. Í flestum tilvikum þarf að endurtaka tilraun liðs ef að brot á sér stað. Engin spjöld eru, eins og í fótbolta og engum leikmanni er vikið af velli nema um öfgatilfelli er að ræða.

Ef að lið brýtur á sér í miðri hrinu kastar einn eða fleiri dómarar gulum fána inná leikvöllinn nálægt staðnum sem brotið átti sér stað. Þegar að tilraunin endar kveður dómari upp dóm sinn. Dómarinn er með hljóðnema og heyrist í honum í hátalarakerfi vallarins þar sem að hann útskýrir fyrst hver braut af sér, hvað viðkomandi gerði og síðast hver refsingin er. Ef að varnarlið brýtur á sóknarliði getur sóknarliðið valið að hafna því að dæmt sé á brotið. Þetta er stundum notað ef að sóknarliðið hefur komist tugi metra fram á við. Dómarar notast einnig við myndbandsupptökur af atvikum og er sérstakur dómari sem að sér um það. Þjálfari má skora á dóm dómarans ef að mikið er í húfi með því að kasta rauðum fána inn á völlinn. Ef að dóm dómarans er ekki breytt er liðið rukkað um 1 leikhlé en ekkert ef dóminum er breytt.

Nokkur algeng brot eru:

  • Þjófstart: Sóknarmaður færir sig ólöglega eftir að hafa raðað sér upp fyrir upphafskast.
  • Rangstaða: Varnarmaður er vitlausu megin við áflogalínu þegar hrina hefst.
  • Halda: Ólöglegt hald, grip eða tog í sóknarmann annan en þann sem heldur á boltanum
  • Truflun á sendingu: Ólöglega komið við eða haldið í sóknarmann til þess að halda honum frá því að grípa boltann
  • Leiktöf: Upphafskast er ekki framkvæmt innan ákveðins tíma frá enda síðustu hrinu (yfirleitt 40 til 60 sekúndur)
  • Ólögleg hindrun í bak: Sóknarmaður ýtir aftan á bakið á varnarmanni.
  • Andlitsgríma: Leikmaður grípur í eða kemur við andlitsgrímu annars leikmanns þegar hann reynir að tækla leikmanninn.

Amerískur fótbolti á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Aðeins eitt félag er starfandi á Íslandi sem spilar Amerískan fótbolta en það er félagið Einherjar.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Ath. hér má tala um 1st & long því sóknarliðið getur brotið af sér og fengið 5 yd refsingu eða meira
  2. Ath. hér má tala um 1st & short því varnarliðið getur brotið af sér og fengið 5 yd refsingu eða meira, þó yfirleitt sé talað um 1st & 10 í upphafi 1. tilraunar.
  3. Tæknilega séð nægir það að láta boltann snerta marklínuna
  4. Sóknarlið getur það ef að boltanum er klúðrað (fumble) tvisvar í sömu sókn, og í seinna skipti klúðrar liðið sem upphaflega var varnarlið boltanum útaf í eigin markteig, en þetta er afar sjaldséð