Alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó
Alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, oft kallaðar alþjóðasiglingareglurnar eða einfaldlega siglingareglurnar, eru reglur frá Alþjóðasiglingamálastofnuninni sem miða að því að koma í veg fyrir árekstra þegar skip mætast á sjó. Reglurnar eru efni alþjóðasamnings frá 1972 sem 155 ríki höfðu undirritað í júní 2013, þar á meðal Ísland sem staðfesti samninginn árið 1975.
Reglurnar skiptast í fimm kafla og fjóra viðauka. Þær fjalla um stjórn skipa og siglingu, hver á réttinn þegar skip mætast, skipaljós og merkjagjöf, meðal annars um neyðarmerki.
Í höfnum og á ám og vötnum kunna að gilda sérstakar reglur sem yfirvöld hvers ríkis setja, en ætlast er til að þau hafi hliðsjón af alþjóðareglunum. Í kappsiglingum gilda alþjóðlegar kappsiglingareglur sem Alþjóðasiglingasambandið setur og taka mið af alþjóðasiglingareglunum.