Fara í innihald

Alþjóðlegu kappsiglingareglurnar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bátar koma að bauju í siglingakeppni

Alþjóðlegu kappsiglingareglurnar eru reglur sem fylgt er í siglingakeppnum á farkosti sem knúinn er áfram af seglum. Reglurnar gilda þannig um keppni í kjölbátasiglingum, kænusiglingum, á seglbrettum, flugdrekabrettum og með fjarstýrðum seglbátum. Alþjóðasiglingasambandið gefur reglurnar út og endurskoðar þær á fjögurra ára fresti.

Reglurnar sem gilda frá 2017 til 2020 eru 92 talsins og skiptast í sjö kafla. Þær innihalda fjórar meginreglur um það hver á réttinn (2. kafli, A-hluti):

  • Bátur sem beitir á bakborða skal víkja fyrir bát sem beitir á stjórnborða (10. regla).
  • Þegar tveir bátar sem skarast beita báðir á sama borð skal sá bátur sem er kulborðs (vindmegin) víkja fyrir þeim sem er hléborðs (undan vindi) (11. regla).
  • Þegar tveir bátar beita á sama borð og skarast ekki skal aftari báturinn halda sig frá þeim fremri (12. regla).
  • Þegar bátur vendir skal hann halda sig frá bátum sem ekki eru að venda (13. regla).

Að auki eru fjórar almennar takmarkandi reglur (2. kafli, B-hluti):

  • Þótt bátur eigi réttinn skal hann koma í veg fyrir árekstur með öllum tiltækum ráðum (14. regla).
  • Þótt bátur eigi réttinn skal hann gefa öðrum bátum pláss til að víkja, nema hann hafi fengið réttinn vegna aðgerða hins bátsins (15. regla).
  • Bátur sem á réttinn sem breytir um stefnu skal gera það með þeim hætti að bátur í órétti eigi möguleika á því að víkja (16. regla).
  • Bátur sem hyggst taka fram úr öðrum bát hlémegin skal ekki sigla ofan við „rétta stefnu“, það er „lúffa“ hærra en hann hefði gert ef enginn bátur væri ofan við hann (17. regla).

Að auki fjalla reglurnar um það þegar farið er fyrir bauju, um hindranir, báta sem hvolfa, kappsiglingamerki, fyrirkomulag keppni og margt fleira. Í reglunum fyrir 2017-2020 eru 17 viðaukar sem fjalla meðal annars um sérreglur, mælingar, stigagjöf, tilkynningu um keppni, kærur og fleira.

Þótt reglurnar byggist á fáum meginreglum getur úrlausn þeirra oft orðið æði flókin þegar kemur að einstökum tilvikum. Alþjóðasiglingasambandið gefur því út tilvikabók (Case Book) með tilvikum fyrir hverja reglu fyrir sig og dæmabók (Call Book) með dæmum.

Þar sem siglingar eru sjálfdæmandi íþrótt er ætlast til að keppendur framkvæmi refsingar fyrir brot á reglunum sjálfir, til dæmis með því að taka refsihring (einn eða fleiri). Ef það er ekki gert geta aðrir keppendur mótmælt með kæru sem þá er tekin fyrir eftir keppni, eða samstundis ef keppnin gerir ráð fyrir dómara (á aðallega við um tvíliðakeppni). Ef kæran er samþykkt felst refsingin yfirleitt í því að dæma bátinn ógildan í þeirri umferð.