Alícantehérað

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Alícantehérað er hérað í austurhluta Spánar í suðurhluta Valensía sjálfstjórnarsvæðisins. Alícantehérað heitir eftir höfuðborginni Alícante.

Helstu borgir í Alícante héraði
Helstu borgir í Alícante héraði

Stærstu borgir innan Alicantehéraðs eru Alícante, Elche, Torrevieja, Benidorm, Alcoy, Elda og San Vicente del Raspeig. Alícantehérað er það hérað á Spáni þar sem stærst hlutfall íbúa eru útlendingar eða um 23.6 % af heildarfólksfjölda.

Kort sem sýnir fjallendi og láglendi í Alícantehéraði

Norður- og miðvesturhluti Alícantehéraðs er fjalllendi. Suðurhluti er flatlendur, þar er svæðið Vega Baja del Segura. Strandlengjan nær frá tindinum Cap de la Nau í norðri næstum að Mar Menor í suðri.

Fáar stórar ár eru í Alícantehéraði en mikið af þurrum árfarvegum (ramblas) þar sem vatn eingöngu flæðir eftir í úrhellisrigningum. Einu markverðu árnar eru Vinalopó, Sepis og Segura. Saltvötn og fenjasvæði eru meðfram ströndinni eins og í El Fondo þjóðgarðinum og það sem áður var votlendi en nú salttjarnir í Santa Pola og Torrevieja. Þessi votlendissvæði eru mikilvægt búsvæði sjó- og vatnafugla og viðkomustaður farfugla.