Fara í innihald

Ahomríkið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Ahomkonungsríkið)
Rang Ghar, skáli sem konungur Ahomríkisins reisti um miðja 18. öld í höfuðborginni Rongpur (nú Sibsagar).

Ahomríkið (assamíska: আহোম ৰাজ্য) einnig kallað konungsríkið Assam, var konungsríki í árdal Brahmaputra í Assam, norðausturhluta Indlands. Leiðtoginn Sukaphaa, sem kom í dalinn frá Mong Mao þar sem nú er Júnnanhérað í Kína, stofnaði ríkið árið 1228. Stofnendur ríkisins töluðu taímál og fluttu með sér þá aðferð að rækta hrísgrjón á flæðiökrum. Undir stjórn Suhungmung á 16. öld þandist ríkið út og hafði mikil áhrif alls staðar í Brahmaputradalnum. Þetta varð þó til þess að Ahomar lentu í minnihluta í ríkinu og assamíska tók við af taí sem ríkjandi tungumál. Hindúatrú varð ríkjandi trúarbrögð í ríkinu. Ahomríkið stóð af sér árásir íslamskra ráðamanna í Bengal og Mógúlveldinu, þótt herir stórmógúlsins næðu að leggja höfuðborgina, Garhgaon, undir sig um stutt skeið. Eftir sigur gegn Mógúlveldinu í orrustunni um Saraighat 1671 stækkaði ríkið enn til vesturs. Ríkið byggðist á þegnskylduvinnu sem leiddi til sívaxandi innri átaka. Moamoria-uppreisnin hófst árið 1769 og leiddi til þess að þegnskylduvinnukerfið hrundi og fólksflótti brast á. Ahomríkið kom sér þá upp atvinnuher málaliða, en náði ekki að verjast innrásum frá Búrma í byrjun 19. aldar. Þegar Bretar og Konbaung-veldið í Búrma sömdu frið 1826 fengu þeir fyrrnefndu Ahomríkið í sinn hlut. Bretar gerðu Purandar Singha að konungi 1833, en vegna spillingar innan hirðarinnar og óvinsælda konungsins meðal almennings settu þeir hann af fimm árum síðar og innlimuðu landið í Breska Indland.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.