Fara í innihald

Þorsteinn Ingi Sigfússon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorsteinn Ingi Sigfússon, var fæddur 4.júní 1954 í Vestmannaeyjum og lést í Stokkhólmi 15.júlí 2019. Þorsteinn var eðlisfræðingur, þekktur fyrir störf sín að orkumálum, sjálfbærni og nýsköpun.

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

Þorsteinn varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1973, stundaði nám í eðlisfræði og stærðfræði við háskólann í Kaupmannahöfn 1973-1978 og útskrifaðist með doktorspróf frá Cavendish Laboratory við háskólann í Cambridge á Bretlandi 1983.

Störf[breyta | breyta frumkóða]

Þorsteinn Ingi tók við starfi fræðimanns við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands 1982 og varð prófessor í eðlisfræði við skólann árið 1989. Gegndi hann því starfi í þrjá áratugi.

Hann sinnti ýmsum trúnaðarstörfum innan og utan Háskóla Íslands og var m.a. formaður stjórnar Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands 1986-1990, formaður kynningarnefndar Háskóla Íslands 1990-1991, formaður stjórnar Háskólabókasafnsins 1993-1994 og fulltrúi Háskólans í stjórn Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns við stofnun þess 1994. Þorsteinn Ingi varð forstöðumaður Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands 1995. Árið 1996 varð hann formaður framkvæmdastjórnar Ólympíukeppninnar í eðlisfræði sem haldin var í Reykjavík 1998. Þorsteinn Ingi var formaður Rannsóknarráðs Íslands 1996-1999 og formaður Tækninefndar ráðsins 2008-2013. Hann var annar tveggja fulltrúa Háskóla Íslands í stjórn Keilis 2007-2010.

Þorsteinn var frumkvöðull og beitti sér fyrir tengingu fræðasamfélagsins við atvinnulífið. Fjöldi stúdenta, meistaranema og doktorsnema nutu handleiðslu hans á breiðu bili frá efnisfræði málma og orkumálum til vetnis. Hann hefur einnig skrifað fjölda greina í tímarit og bækur um efnið.

Þorsteinn Ingi var ráðinn forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands árið 2007 og gegndi því starfi til 2019.

Í starfi sínu hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands var hann ötull talsmaður nýsköpunar á öllum sviðum og um allt land. Hann beitti sér fyrir stofnun FabLab smiðja víðs vegar um landið og tók þátt í átaki um beislun orku í heimabyggð með námskeiðunum Orkubóndinn auk fjölda annarra leiða til að efla fólk jafnt í listum sem vísindum  og tækni með stofnun setra jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem á landsbyggðinni.

Þorsteinn Ingi tók þátt í alþjóðlegu samstarfi Íslands á sviði orkumála og var heimsþekktur fyrirlesari á sviði endurnýjanlegrar orku og vetnistækni.

Þorsteinn var fulltrúi Íslands þegar alþjóðlegu vetnisorkusamtökin IPHE (International Partnership for the Hydrogen Economy) voru stofnuð af helstu orkumálaráðherrum heims í Washington 2003. Var hann þá kjörinn annar af tveimur formönnum framkvæmdanefndar, ásamt Hanns-Joachim Neef og gegndi þeirri formennsku til 2007.

Þorsteinn og Prófessor Ralph Sims frá Nýja Sjálandi voru upphafsmenn veitingu sérstakra verðlauna, Renewable Energy Prize (Ali Sayigh Trophy) til þeirra landa sem mestum árangri hafa náð í innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa á gefnu tímabili og voru fyrstu Rnewable Energy Prize verðlaunin veitt af forseta Íslands á alheimsþingi World Renewable Energy Council í Flórens á Ítalíu (WREC 2006). https://www.wrenuk.co.uk/awards/

Þorsteinn Ingi tók þátt í stofnun ýmissa fyrirtækja, þ. á m. Vaka-fiskeldiskerfis, Als-álvinnslu og Íslenskrar NýOrku.

Þorsteinn Ingi kom að stofnun og sat í stjórn Íslenska Orkuklasans (áður Iceland Geothermal) frá 2009-2018.Hann var frumkvöðull á sviði orkurannsókna á Íslandi. Þorsteinn varð forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands frá stofnun hennar 2007-2019.

Ritstörf[breyta | breyta frumkóða]

Eftir Þorstein Inga liggja fjölmargar vísindagreinar auk annarra skrifa.

Þorsteinn ritstýrði  m.a. ,,Í hlutarins eðli” , afmælisriti til heiðurs Þorbirni Sigurgeirssyni professor og ritstýrði einnig riti Eðlisfræðifélags Íslands um árabil.

Hann var höfundur bókarinnar ,,Planet Hydrogen - The taming of the Proton” árið 2008. Bókin var upphaflega skrifuð og gefin út á ensku af Coxmoor Publishing Company í Englandi. Á sama tíma var íslenska útgáfan gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi sem ,,Dögun vetnisaldar – Róteindin tamin”. Baldur Arnarson þýddi og staðfærði íslensku útgáfuna ásamt höfundi.

Í tilefni af sextugsafmæli Þorsteins Inga árið 2014 var gefið út afmælisritið Þekkingin beisluð – nýsköpunarbók.

Verðlaun og viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

- British Council Fellowship, 1979

- Clerk-Maxwell award fellowship 1980 fyrir þróun nýrrar tækni í rannsóknum á seglum.

- Valinn Research Fellow við Darwin College, Cambridge 1981

- Sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands þann 1.janúar 2004

- Hlaut hin virtu Orkuverðlaun The International Global Energy Prize, í St. Petersburg,  fyrir störf sín að vetnismálum, 2007

- Heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands, maí 2019

- Viðurkenning IPHE, International Partnership for the Hydrogen Economy, á ráðstefnu Hringborðs norðurslóða, október 2019.

Eftir lát Þorsteins var stofnaður Nýsköpunarsjóður Þorsteins Inga Sigfússonar við Háskóla Íslands til að stuðla að auknum áhuga á nýsköpun. https://sjodir.hi.is/nyskopunarsjodur_dr_thorsteins_inga_sigfussonar

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]