Þorbjörn bitra

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorbjörn bitra var landnámsmaður í Bitrufirði á Ströndum og segir Landnáma að hann hafi verið víkingur og illmenni. Hann „fór til Íslands með skuldalið sitt; hann nam fjörð þann, er nú heitir Bitra, og bjó þar“.

Nokkru eftir að Þorbjörn nam Bitrufjörð kom Guðlaugur, bróðir landnámsmannsins Gils skeiðarnefs í Gilsfirði, til Íslands á skipi sínu og strandaði við höfða þann sem síðan heitir Guðlaugshöfði. Hann komst sjálfur á land ásamt konu sinni og dóttur en aðrir menn fórust. Þorbjörn bitra kom þar að og drap hjónin en tók stúlkuna og ól upp. En þegar Gils bróðir Guðlaugs komst á snoðir um þetta fór hann og hefndi bróður síns með því að drepa Þorbjörn og fleiri menn.