Fara í innihald

Þórður J. Thoroddsen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Þórður Thoroddsen)

Þórður Jónas Thoroddsen (f. í Haga á Barðaströnd 14. nóvember 1856 - d. 19. október 1939) var íslenskur læknir og alþingismaður.

Þórður var sonur Jóns Thoroddsen sýslumanns og skálds og konu hans Kristínar Ólínu Þorvaldsdóttur Sívertsen, dóttur Þorvaldar Sívertsen umboðsmanns í Hrappsey og alþingismanns, og konu hans Ragnhildar Skúladóttur. Bræður Þórðar; Sigurður, Skúli og Þorvaldur urðu allir þjóðþekktir.

Hann varð stúdent 1877 og cand. med. 28. júní 1881. Hann varð læknir á fæðingarstofu í Kaupmannahöfn 1882-1883, sótti þá jafnframt námskeið í tannlækningum. Læknir á Siglufirði 1896-1897; læknir í Kaupmannahöfn og Ósló 1919-1920. Héraðslæknir 1885-1904, og sat í Keflavík. Læknir í Reykjavík, nema veturinn 1911-1912, er hann varð staðgengill héraðslæknisins á Akureyri. Prófdómari við læknapróf 1887 og 1896-1905. Kennari við Möðruvallaskóla 1881-1882. Féhirðir Íslandsbanka 1904-1909.

Hann sat í hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps og í skólanefnd þar, sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu og amtsráði Suðuramts; alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu fyrir Framfaraflokkinn 1895-1902; kaupfélagsstjóri Kaupfélags Suðurnesja og framkvæmdastjóri Þilskipafélags Suðurnesja um þriggja ára skeið. Í stjórn Rauða kross Íslands frá stofnun hans 1924 til æviloka. Umdæmistemplar á Suðurnesjum 1890-1903; í framkvæmdarnefnd Stórstúku Íslands 1903-1913, stórtemplar 1903-1911.

Þórður gekk fram af einstökum röskleika þá Spænska veikin svokallaða geisaði hérlendis.

Kona Þórðar var Anna Lovísa Pétursdóttir Gudjohnsen (1858-1939). Meðal barna þeirra eru: Pétur læknir, Kristín Katrín, myndlistarkona, Emil Þórður píanóleikari og tónskáld, Þorvaldur Skúli Sigurður verksmiðjustjóri.

Reikningsbók, (Reykjavík, 1880)

Athugasemdir söngkennara við söngfræði Jónasar Helgasonar Reykjavík 1880. (Reykjavík, 1885)

Um sóttnæmi holdsveikinnar. Ágrip af erindi fluttu í Læknafélagi Reykjavíkur 13. apríl 1914. Læknablaðið 1915:2. s. 20-25.

Optochin við lungnabólgu. Læknablaðið 1916:2. s. 33-39

Inflúensan fyrrum og nú. Að mestu eftir erindi fluttu í Læknafélagi Reykjavíkur 12. janúar 1919. Læknablaðið 1919:2. s. 17-23, 1919:3, s. 33-36 og 1919:4, s. 74-79.

Ásgeir Blöndal fyrrum hérðaslæknir. Læknablaðið 1926:1-2. s. 23-24.


  Þetta æviágrip sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.