Þorvaldur Sívertsen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorvaldur Sívertsen (f. að Núpi í Haukadal, Dal.  29. mars 1798 – d. í Skarðsþingum 30. apríl 1863) var alþingismaður og umboðsmaður í Hrappsey.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Þorvalds voru Sigurður „yngri“ Sigurðsson (1763-1826) bóndi á Núpi í Haukadal og Fjarðarhorni í Hrútafirði, og kona hans Katrín Þorvaldsdóttir (1765-1819) húsfreyja, fædd á Þingvöllum, Snæ. Bróðir Þorvaldar var Ólafur Sívertsen (1790-1860) prófastur og alþingismaður í Flatey á Breiðafirði.

Þorvaldur stundaði jarðræktarnám í Danmörku 1818-1821, með styrk af alþjóðarfé. Gerðist þá aðstoðarmaður Skúla Magnússonar (1768-1837) sýslumanns að Skarði. Bjó að hluta í Hrappsey 1824-1834, en í Hrappsey allri 1834-1863. Umboðsmaður Skógarstrandarjarða 1824-1863. Var settur sýslumaður í Dalasýslu 1823-1837, 1837-1838, í Snæfellssýslu 1848 og Strandasýslu 1854-1855. Alþingismaður Dalamanna 1845-1851. „Hann var búhöldur ágætur, góðgerðasamur og naut mikils trausts manna.“  Hann var félagi í Framfarafélagi Flateyjar og stuðningsmaður ársritsins Gests Vestfirðings. Ýmislegt liggur eftir hann í handritum og útgefið. Þorvaldur var listfengur, teiknaði í frístundum. Teiknibók, frá því um 1820, með myndum frá Kaupmannahafnarárum hans, liggur eftir hann á Þjóðminjasafni.   

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Kona Þorvaldar, 6. júní 1823, var Ragnhildur (1800-1852), húsfreyja, dóttir Skúla Magnússonar (1768-1837) kammerráðs, sýslumanns að Skarði og konu hans Kristínar Bogadóttur (1767-1851) húsfreyju. Ragnhildur var afburða hannyrðakona, prjónaði m.a. úr hundshári. Hjónin eignuðust fimm börn; þau eru, Katrín (1825-1828); Katrín (1829-1895) húsfreyja, giftist fyrst Lárusi M. Johnsen (1819-1859) presti í Skarðsþingum, síðar Jóni Árnasyni (1819-1888) landsbókaverði og þjóðsagnaritara. Katrín og Jón uppfóstruðu Þorvald Thoroddsen (1855-1921), systurson Katrínar, síðar prófessor og náttúrufræðing, en þau misstu eigin son sem einnig hét Þorvaldur (1868-1883); Skúli (1830-1830); Kristín Ólína (1833-1879), húsfreyja, giftist Jóni Thoroddsen (1819-1868) sýslumanni og skáldi; Skúli Sigurður (1835-1912) bóndi í Hrappsey (tók saman Skarðstrendingasögu, í handriti).

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár, 1948-1976