Þórður J. Thoroddsen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Þórður Jónas Thoroddsen)

Þórður Jónas Thoroddsen (f. í Haga á Barðaströnd 14. nóvember 1856 - d. 19. október 1939) var íslenskur læknir og alþingismaður.

Þórður var sonur Jóns Thoroddsen sýslumanns og skálds og konu hans Kristínar Ólínu Þorvaldsdóttur Sívertsen, dóttur Þorvaldar Sívertsen umboðsmanns í Hrappsey og alþingismanns, og konu hans Ragnhildar Skúladóttur. Bræður Þórðar; Sigurður, Skúli og Þorvaldur urðu allir þjóðþekktir.

Hann varð stúdent 1877 og cand. med. 28. júní 1881. Hann varð læknir á fæðingarstofu í Kaupmannahöfn 1882-1883, sótti þá jafnframt námskeið í tannlækningum. Læknir á Siglufirði 1896-1897; læknir í Kaupmannahöfn og Ósló 1919-1920. Héraðslæknir 1885-1904, og sat í Keflavík. Læknir í Reykjavík, nema veturinn 1911-1912, er hann varð staðgengill héraðslæknisins á Akureyri. Prófdómari við læknapróf 1887 og 1896-1905. Kennari við Möðruvallaskóla 1881-1882. Féhirðir Íslandsbanka 1904-1909.

Hann sat í hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps og í skólanefnd þar, sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu og amtsráði Suðuramts; alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu fyrir Framfaraflokkinn 1895-1902; kaupfélagsstjóri Kaupfélags Suðurnesja og framkvæmdastjóri Þilskipafélags Suðurnesja um þriggja ára skeið. Í stjórn Rauða kross Íslands frá stofnun hans 1924 til æviloka. Umdæmistemplar á Suðurnesjum 1890-1903; í framkvæmdarnefnd Stórstúku Íslands 1903-1913, stórtemplar 1903-1911.

Þórður gekk fram af einstökum röskleika þá Spænska veikin svokallaða geisaði hérlendis.

Kona Þórðar var Anna Lovísa Pétursdóttir Gudjohnsen (1858-1939). Meðal barna þeirra eru: Pétur læknir, Kristín Katrín, myndlistarkona, Emil Þórður píanóleikari og tónskáld, Þorvaldur Skúli Sigurður verksmiðjustjóri.

Ritstörf[breyta | breyta frumkóða]

Reikningsbók, (Reykjavík, 1880)

Athugasemdir söngkennara við söngfræði Jónasar Helgasonar Reykjavík 1880. (Reykjavík, 1885)

Um sóttnæmi holdsveikinnar. Ágrip af erindi fluttu í Læknafélagi Reykjavíkur 13. apríl 1914. Læknablaðið 1915:2. s. 20-25.

Optochin við lungnabólgu. Læknablaðið 1916:2. s. 33-39

Inflúensan fyrrum og nú. Að mestu eftir erindi fluttu í Læknafélagi Reykjavíkur 12. janúar 1919. Læknablaðið 1919:2. s. 17-23, 1919:3, s. 33-36 og 1919:4, s. 74-79.

Ásgeir Blöndal fyrrum hérðaslæknir. Læknablaðið 1926:1-2. s. 23-24.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]


  Þetta æviágrip sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.