Þórðarhellir
Þórðarhellir er í austanverðri Reykjarneshyrnu í Árneshreppi á Ströndum, rúmlega klukkutíma gang frá bænum Litlu-Ávík, 2-3 km. Þórðarhellir er undir háu hamrabelti og frá honum er brött 20-30 metra grjótskriða niður að sjó. Fjaran veit nokkurn veginn í austur og er fyrir opnu hafi. Skammt fyrir utan Þórðarhelli ganga forvaðar í sjó fram, svonefnt Landskegg, og er sú leið ófær undir Reykjarneshyrnu til bæjarins Reykjarness. Hyrnan er einnig ókleif úr þessari átt. Eina færa leiðin að Þórðarhelli er gönguleiðin sem liggur frá Litlu-Ávík, þræða verður fjárgötur í bröttum skriðum og klöngrast um stórgrýti niðri í víkum.
Þórðarhellir er 10,5 metrar á breidd og 12 metrar á lengd. Mesta hæð hans er 3,10 metrar. Hann er hæstur til suðausturs en lækkar mjög til jaðranna. Mynni Þórðarhellis er mjög lágt og frekar mjótt og verður að skríða grjótskriðu niður á við til að komast inn í hellinn. Leifar af hleðslu, hægra megin þegar komið er inn í hellinn voru sýnilegar í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. Nú sjást engin óræk merki um mannvist í hellinum.
Sagnir herma að Þórðarhellir sé gamalt útilegubæli og tvennum sögum fer af því hvaða Þórð hellirinn er kenndur við. Segja sumar sögur að hann sé kenndur við Þórð galdramann Guðbrandsson, bónda á Munaðarnesi, sem brenndur var fyrir galdra 1654. Þjóðsaga segir að hann hafi sloppið úr brennunni og leitað til bóndans í Litlu-Ávík sem hafi leynt honum í hellinum.
Önnur munnmæli herma að hellirinn dragi nafn af Þórði sakamanni sem leyndist í hellinum um hríð. Ástir tókust með honum og heimasætunni á Litlu-Ávík og flutti hún í hellinn til hans og ól honum barn. Bóndinn í Litlu-Ávík brást ókvæða við þegar hann frétti hvar dóttir hans hélt til og fór með lið manna í hellinn og nam stúlkuna og barnið á brott. Veittust mennirnir að Þórði en hann varðist þeim ofan af klettasyllu í Hyrnunni og kastaði í þá grjóti. Sagt var að bóndinn hefði látist af áverkum af völdum Þórðar.