Útikennsla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Útikennsla er kennsluaðferð sem fer fram utandyra og reynir að fara skapandi leiðir við kennslu á bóklegum fögum sem venjulega eru kennd innandyra, til dæmis stærðfræði. Útikennsla er aðallega hugsuð fyrir börn á grunnskólaaldri.

Útikennsla fer fram utan skólastofunnar og getur falið í sér margt í senn. Í henni er fjallað um viðfangsefnin á faglegan hátt, en jafnframt lögð áhersla á persónulega upplifun nemendanna og að þeim gefist tækifæri til að nota öll skilningarvitin við námið. Útikennslan höfðar til margra greindarþátta, til dæmis umhverfis og náttúrugreind, og á því að henta lang flestum nemendum.

Útikennsla á sér marga öfluga málsvara og styðst við hugmyndir margra fræðimanna um mikilvæga þætti sem skipta máli við nám. Má til dæmis nefna að samkvæmt kenningum Aristótelesar, Jean-Jacques Rousseau, Jean Piaget og Johns Dewey næst meiri árangur í námi ef börn fá tækifæri til að nota fleiri en eitt skynfæri og beita öllum líkamanum við námið. Lev Vygotsky leggur mikla áherslu á samvinnunám og þá ekki síst samvinnu á milli kennara og nemenda í leit að þekkingu.

Að mörgu er að hyggja þegar útikennsla er skipulögð, svo sem ákvæðum námsskrár um kennslu, hvar skólinn er staðsettur, hvernig nærumhverfi hans er og ekki síst hvar í námi nemendur eru staddir og þeim námsgreinum sem á að vinna í. Annað sem hefur áhrif á skipulagningu útikennslunar er stærð bekkjarins, aldur nemenda, reynsla þeirra af slíku námi og sérstaklega getu og þarfir þeirra. Þetta er það sem verður að hafa í huga þegar útikennsla er skipulögð og ekki má gleyma öryggisreglunum sem kennari setur upp fyrir nemendur.

Markmið útikennslu[breyta | breyta frumkóða]

Markmið útikennslu eru margvísleg. Í útinámi kynnast nemendur náttúrunni og þeirri menningu og samfélagi sem þeir búa í. Einnig er aukin hreyfing barna mikilvæg, meira þol og betri hreyfifærni. Nemendur öðlast betri félagslega færni, þeir eru í miðju atburðanna, læra um lýðræðisleg vinnubrögð, að eiga samskipti hver við annan og taka ábyrgð. Annar kostur er sá að skilningur nemenda á náttúrunni, vísindum og umhverfi eykst. Tekist er á við fjölbreytileg verkefni við raunverulegar aðstæður. Aukin einbeiting og ró eftir hressandi útiveru í fersku lofti og betri tengsl nemenda við viðfangsefni kennslunnar vegna fjölbreyttari kennslu og námsaðferða eru einnig góðir kostir.

Aðalnámskrá grunnskóla á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Í Aðalnámskrá grunnskóla á Íslandi er rökstuðningur fyrir útikennslu:

 • Í öllum námsgreinum þarf fjölbreytt og hvetjandi umhverfi
 • Úti er sá raunveruleiki og umhverfi sem börnin eru að læra um og þurfa að þekkja og skilja
 • Vettvangsnám er sérstaklega nauðsynlegt í náttúrufræðinámi
 • Vart er hægt að hugsa sér betri vettvang fyrir náttúrfræðikennslu en náttúruna sjálfa
 • Útikennsla auðgar og styrkir allt nám
 • Útivera er holl bæði líkama og sál og útivera eykur félagslegan þroska
 • Útivera styrkir vellíðan nemenda og stuðlar að heilbrigðum og hollum lífsviðhorfum

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Ingvar Sigurgeirsson. (2011). Litróf kennsluaðferðanna. Reykjavík: Iðnú.
 • Ingvar Sigurgeirsson. (2011). Að mörgu er að hyggja. Reykjavík: Iðnú.
 • Lýðheilsustöð (án árs). Almennar kennslustundir – Útikennsla.
 • Pleasants, Kathleen. (2007). Interdisciplinary teaching through outdoor education. Skoðað 12. apríl 2012 á http://search.proquest.com/docview/232847070/13620661D577084E538/1?accountid=27513

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi skólagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.