Örlygur gamli Hrappsson
Örlygur gamli Hrappsson var landnámsmaður á Kjalarnesi og bjó á Esjubergi.
Örlygur var sonur Hrapps, sonar Bjarnar bunu Grímssonar, og því bróðursonur Ketils flatnefs. Hann ólst upp í Suðureyjum og var í fóstri hjá Patreki biskupi þar. Þegar hann langaði að fara til Íslands lét biskup hann hafa, að því er segir í Landnámabók, kirkjuvið og járnklukku og fleira, og átti hann að helga kirkjuna hinum heilaga Kolumba. Sagði biskup honum eftir hverju hann skyldi fara þegar hann veldi sér bústað.
Samkvæmt frásögn Landnámu lentu Örlygur og félagar hans í hrakningum og hafvillum á leiðinni og hét Örlygur þá á Patrek biskup. Skömmu síðar sáu þeir land og lentu þar sem síðan heitir Örlygshöfn, en Örlygur kallaði fjörðinn Patreksfjörð eftir fóstra sínum. Þeir voru þar um veturinn en þetta var ekki sá staður sem Patrekur hafði vísað Örlygi á svo að um vorið sigldi hann suður með landinu en félagar hans sumir urðu eftir og námu land þar vestra. Voru það þeir Þórólfur spör og bræðurnir Þorbjörn tálkni og Þorbjörn skúmi.
Þegar Örlygur kom að Kjalarnesi þóttist hann þekkja þann stað sem fóstri hans hafði vísað honum á. Frændi hans, Helgi bjóla, hafði þá numið land á nesinu og lét hann Örlyg fá land frá Mógilsá til Ósvífurslækjar. Hann reisti sér bú á Esjubergi og byggði þar kirkju sína. Hann og afkomendur hans trúðu á Kolumba.