Ólafur Einarsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ólafur Einarsson um 15731651 var skáld og prestur í Kirkjubæ í Hróarstungu. Sennilega fæddur í Nesi í Aðaldal. Foreldrar hans voru Einar Sigurðusson prestur og skáld í Eydölum (Heydölum) og seinni kona hans, Ólöf Þórarinsdóttir.

Ólafur lærði fyrst í Hólaskóla (frá 1589) en frá 1589 í Skálholtsskóla. Fór utan 1594, var skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kaupmannahöfn 26. október sama ár. Þar var hann í 4 ár, var heyrari í Skálholti 1598-1600, en rektor þar 1600-1608, fékk þá Kirkubæ í Hróarstungu og tók þá við prestþjónustu þar, en var afhentur staðurinn árið 1609 og hélt til æviloka. Ólafur var prófastur í Múlaþingi frá 1609 til æviloka, en hann er enn á lífi 22. ágúst 1651. Hann var blindur síðustu æviár sín. Ólafur er eitt hinna austfirsku skálda.

Ólafur Einarsson var talinn með lærðustu mönnum sinnar tíðar, hann var og höfuðskáld á sinni tíð og er prentuð eftir hann kvæðin Árgali í Litlu vísnabók 1757 og 1839, fáeinir sálmar í Vísnabók 1612 og 1748, Litlu vísnabók 1757 og 1839, í sálmabókum 1619 og síðar og í Höfuðgreinabók 1772, en flest er varðveitt eftir hann í handritum. (Páll Eggert Ólason 1951: 37.)

Ólafur Einarsson "var í röð fremstu skálda á sinni tíð, orti trúarljóð og sálma af meiri formfágun en tíðkazt hafði eftir siðaskipti, einnig kröftugar heimsádeilur. Kveðskapur hans er að mestu óútgefinn, nokkuð er þó prentað í Vísnabók Guðbrands biskups 1612, og Lítilli sálma og vísnabók Hálfdanar Einarssonar 1757, einnig í sálmasöngsbókum síðar (2 sálmar frumkveðnir eru í sálmabókinni 1972). Sjá og t.d. Íslands þúsund ár, 1947." (Hannes Pétursson og Helgi Sæmundsson 1976: 18.)

Mynd af honum, konu hans og börnum er í Þjóðminjasafni.

Kona Ólafs (gift 1608) var Kristín, dóttir Stefáns Gíslasonar prests í Odda. Hún lifði mann sinn.

Börn þeirra voru:

 • Eiríkur, prestur í Kirkjubæ.
 • Stefán, prestur, prófastur og skáld í Vallanesi.
 • Jón.
 • Margrét, átti Jón Gissurarson prest að Múla.
 • Þorgerður.
 • Kristín, átti Guðmund Bjarnason prest á Grenjaðarstöðum.
 • Guðný.
 • Guðrún, átti Eyjólf Bjarnason prest á Kolfreyjustað og síðar Kolbein Einarsson í Tungu í Fáskrúðsfirði.
 • Helga.
 • Margrét yngri.
 • Þórdís (að sumir telja).

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

 • Hannes Pétursson og Helgi Sæmundsson (1976): Íslenzkt skáldatal m-ö. (Alfræði Menningarsjóðs.) Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins. Reykjavík.
 • Páll Eggert Ólason (1951): Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. (IV. bindi.) Hið íslenzka bókmenntafélag. Reykjavík.
 • Þórarinn Friðjónsson (1983): Af þraut réð þjóð sér barma. Um ádeilukvæði eftir séra Ólaf Einarsson í Kirkjubæ. Óútgefin BA ritgerð í íslensku, varðveitt á Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni. Háskóli Íslands. Reykjavík.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.