Íþróttafélagið Hörður Hólmverji
Íþróttafélagið Hörður Hólmverji var fyrsta eiginlega íþróttafélagið sem stofnað var á Akranesi. Stofndagur félagsins er talinn 26. desember 1919 en félagið er þó talið hafa byrjað starfsemi eitthvað fyrr. Nafn félagsins vísar í Harðar sögu og Hólmverja sem er útlagasaga með Hvalfjörð sem sögusvið.
Félaginu var ætlað að stunda að hvers kyns íþróttaiðkun og stóð það m.a. fyrir hlaupakeppnum á Akranesi og gerði einhverjar tilraunir með kastíþróttir. Langmest áherslan var þó á glímuiðkun og var t.a.m. efnt til sveitaglímu milli keppenda úr félaginu og liðsmanna í Ármanni árið 1920.
Þótt knattspyrna væri ekki á dagskrá Harðar Hólmverja munu einstakir forystumenn félagsins hafa átt sinn þátt í útbreiðslu íþróttarinnar á Akranesi. Félagið lognaðist út af á árinu 1926 en um þær mundir höfðu nokkur knattspyrnufélög verið stofnuð í bænum.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Skipaskagi - Söguvefur ÍA[óvirkur tengill]
- Björn Þór Björnsson (2022). Knattspyrnubærinn: 100 ára knattspyrnusaga Akraness. Hólar. ISBN 978-9935-490-76-6.