Áveita

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Áveitur í Sahara

Áveita kallast sú aðferð í landbúnaði að veita vatni, úr úrkomu, ám eða stöðuvötnum á þurrt ræktunarland. Áveitur hafa skipt miklu máli í landbúnaði í yfir 5000 ár og haft áhrif á ýmis konar menningu. Aðferðin var fyrst notuð í Mesópótamíu 600 árum fyrir Krist. Áveitur geta haft ólík form eins og:

  • Pallarækt þar sem vatni er hleypt niður fjallshlíðar og margnýtt
  • Áveitur sem byggjast á tjörnum og vötnum. Grafnir eru skurðir milli og vatni hleypt á þá
  • Vatnsleiðslur eru lagðar um þurrsvæði og látið dropa úr götum á þeim
  • Þar sem neðanjarðarhellar flytja vatn milli svæða eru dýr nýtt til að dæla upp grunnvatni til jarðræktar

Áveitur á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Áveitur eru svæði þar sem vatni er veitt í skurðakerfi frá upptökustað yfir engi annað hvort með flóðgörðum (flóðveita) eða með láréttum rennum sem ristar eru í jarðveginn (seytluveita). Í seytluveitum eru vatn leitt eftir skurðum á yfirborði annað hvort úr vatni eða vatnsfalli. Oft er svæðum skipt í hólf með flóðgörðum svo hægt sé að stjórna vatninu. Flóðáveitur eru ódýrari og þær eru gjarnan í mýrlendi á hallalitlum svæðum þar sem láta má vatn flæða um með aðstoð flóðgarða.

Sjálflæði eru náttúruleg flæðiengi.

Uppistöðuáveitur eru áveitur þar sem vatni er safnað í langan tíma í áveituhólf. Það geta verið haustáveita, vetraráveita og voráveita eftir því hvenær vatni er veitt úr áveituhólfi. Ef vatn rennur hægt á milli áveituhólfa er talað um uppistöðuseytlur. Þar sem vatni er úðað með dælum yfir ræktað land kallast rótarvökvun og regnáveita. Slíkar áveitur eru algengar í garðrækt.

Reistar voru miklar áveitur á Íslandi á Flóa og Skeiðum. Flóaáveitan og Skeiðaáveitan voru uppistöðuseytlur og vatnið í þeim á stöðugri hreyfingu milli hólfa. Vatninu var hleyðt á áveiturnar í maí og látið standa fram í lok júní. Hvert áveituhólf var yfirleitt hvílt þriðja eða fjórða ár.

Skurðir á áveitusvæðum voru annað hvort aðfærsluskurðir (áveituskurðir) sem leiða vatn frá upptökustað að því svæði sem veitt er á og affallskurðir (þurrkskurðir) sem tæma áveituengi. Til að halda vatni á áveitum þarf stíflur og flóðlokur í skurði. Þær voru úr timbri, steypu eða torfi. Sumar stíflur voru einnig notaðar sem brýr.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Ragnheiður Gló Gylfadóttir, Stærsta framkvæmd Íslandssögunnar: Kortlagning á áveitum frá 20. öld í Flóa og á Skeiðum, Fornleifastofnun Íslands, 2020“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 23. október 2022. Sótt 5. mars 2023.