Ártún
Ártún var býli austan við Elliðaár í Reykjavík. Hverfið Ártúnsholt dregur nafn sitt af bæjarheitinu. Nafnið hefur jöfnum höndum verið notað í eintölu og fleirtölu. Bæjarstæði Ártúns er á háum hól vestan undir Ártúnsbrekkunni.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Fyrst er getið um Ártún í máldaga frá 1379 og var býlið þá í kirkjueign. Í máldagabók frá lokum 14. aldar kemur fyrir heitið Árland neðra og má ætla af samhengi að það eigi við Ártún. Bærin komst í konungseign við siðaskipti. Jörðin var seld árið 1838 og hélst í einkaeign til ársins 1906 þegar Reykjavíkurbær eignaðist hana. Kaup bæjarins tengdust áformum um gerð vatnsveitu og síðar var Elliðaárstöð reist í landi Ártúns. Árið 1929 voru jarðirnar Ártún og Árbær lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
Þjóðleiðin frá Reykjavík lá um Ártún og var þar löngum rekin greiðasala, en bærinn komst úr alfaraleið þegar Elliðaárnar voru brúaðar árið 1883. Kunnastur ábúenda í Ártúni var Eiríkur á Brúnum, einn fyrsti íslenski mormóninn.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Páll Líndal (1991). Reykjavík: Sögustaður við Sund A-G. Örn og Örlygur.
- Byggðakönnun, Borgarhluti 7, Árbær Geymt 8 júlí 2019 í Wayback Machine