Wittenberg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Wittenbergs Innsigli Wittenbergs
Upplýsingar
Sambandsland: Saxland-Anhalt
Flatarmál: 240,32 km²
Mannfjöldi: 46.729 (31. des 2013)
Þéttleiki byggðar: 194/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 75 m
Vefsíða: www.wittenberg.de

Wittenberg er borg í þýska sambandslandinu Saxland-Anhalt og er með 46 þús íbúa (31. des 2013) Wittenberg er vagga siðaskiptanna, en þar hóf Marteinn Lúther siðbótina. Nokkrar byggingar þar sem tengjast siðaskiptunum beint eru á heimsminjaskrá UNESCO.

Miðborgin í Wittenberg

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Wittenberg stendur við ána Saxelfi mjög austarlega í sambandslandinu. Næstu borgir eru Magdeburg til norðvesturs (50 km), Leipzig til suðurs (40 km) og Berlín til norðausturs (60 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Wittenbergs sýnir rautt virki í blárri á. Silfurlitaður fiskur syndir í ánni. Á virkinu eru tveir skildir. Virkið er Wittenberg. Áin er Saxelfur. Skildirnir voru tákn hins gamla Saxlands. Fiskurinn á að vera lax sem mikið var veiddur áður fyrr í fljótinu.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Wittenberg merkir hvítasteinn. Witten er dregið af orðinu weiss (hvid á dönsku, white á ensku), sem merkir hvítur. Berg merkir hér steinn eða klettur. Síðan 1922 heitir borgin opinberlega Lutherstadt Wittenberg. [1]

Saga Wittenbergs[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Leyfisbréfið sem Albrecht II gaf út, en með því veitti hann Wittenberg borgarréttindin 1293

1174 kemur heitið Wittenberg fyrst við skjöl. Skömmu seinna varð Albrecht I hertogi af Saxlandi og í kjölfarið stækkar byggðin þar. Það var svo Albrecht II greifi sem veitti Wittenberg borgarréttindi 1293. Leyfisbréfið er enn til á safni og er dagsett 27. júní 1293. 1345 var Rúdolf I greifi gerður að kjörfursta í þýska ríkinu. Aðsetur hans var í Wittenberg, sem við það varð að miðstöð stjórnmála. Fyrir utan ýmsar merkar byggingar sem hann lét reisa, stóð hann einnig fyrir varnarvirkjum og borgarmúrum í kringum borgina. Kjörfurstatignin hvarf aftur úr héraðinu við andlát Albrechts III 1422. Nokkrum árum síðar gerðu Hússítar uppreisn í Bæheimi. Þeir réðust inn í Saxland 1429 og gerðu atlögu að Wittenberg. Borgin stóðst hins vegar áhlaup þeirra og slapp í þetta sinn. 1486 varð Wittenberg aftur að kjörborg er greifinn Friðrik hinn vitri varð að kjörfursta. Miklar byggingarframkvæmdir fylgdu í kjölfarið, t.d. brú yfir Saxelfi, kastali og kirkja. Friðrik stofnaði einnig háskóla í Wittenberg 1502. Þar með varð Wittenberg að mikilsverðri borg í ríkinu.

Siðaskiptin[breyta | breyta frumkóða]

Wittenberg 1536, vagga siðaskiptanna. Borgarkirkjan er til hægri. Þar var nýja trúin fyrst predikuð. Kastalakirkjan er til vinstri. Þar hengdi Lúther upp mótmælagreinar sínar og þar liggur hann grafinn.

Wittenberg er vagga siðaskiptanna. Marteinn Lúther flutti þangað 1508 til að stunda framhaldsnám í háskólanum. Þaðan útskrifaðist hann 1512 sem Biblíufræðingur (baccalarius biblicus). Eftir það hóf hann að kenna í sama háskóla. En með honum bærðust efasemdir um ýmsar kaþólskar kenningar um guðfræði. Þær ágerðust næstu árin, en hin eiginlega ástæða þess að hann hóf að mótmæla var aflátssalan. Hann hóf sjálfur að predika opinberlega gegn henni þegar árið 1516. Aðeins ári síðar ritaði Lúther 95 greinar um almenna guðfræði og aflátssölu. Þessar greinar festi hann á stóru dyrnar á kastalakirkjunni 4. september 1517 til aðgengis fyrir allan almenning. Atburður þessi leysti holskeflu viðbragða úr læðingi, aðallega hjá kennimönnum til að byrja með. Lúther var yfirheyrður af kirkjunnar mönnum sem hefðu átt að framselja hann. En kjörfustinn Friðrik hinn vitri studdi hann og hélt hlífðarhendi yfir honum. Reyndar þurfti Lúther að yfirgefa borgina og fara oftar en ekki huldu höfði. En þá höfðu aðrir tekið við að predika hina nýju trú þar. 1522 ákvað borgarráðið að meðtaka hina nýju trú Lúthers og varð Wittenberg því fyrsta borgin þar sem siðaskiptin fóru formlega fram. Lúther lést 1546 í fæðingarbæ sínum Eisleben. Lík hans var flutt til Wittenbergs og hvílir hann í kastalakirkjunni.

Stríð[breyta | breyta frumkóða]

Prússar ráðast á Wittenberg í febrúar 1814

Snemma í 30 ára stríðinu var hafist handa við að efla borgarmúrana. Jafnframt voru menn þjálfaðir til hernaðar og áttu þeir að gæta að borginni. Allt þetta umstang borgaði sig 1637 er Svíar, undir forystu Johans Banér, réðust á borgina. Borgarbúar vörðust svo vel að Banér ákvað að hverfa frá, en brenndi þó brúna yfir Saxelfi. Í 7 ára stríðinu var borgin ekki eins lánsöm. 1759 hertóku prússar borgina er þeir Friðrik mikli réðist inn í Saxland. Ári síðar var keisaraherinn kominn á vettvang. Prússar neituðu að gefast upp og hóf keisaraherinn þá skothríð á borgina. Í heilan dag var skotið, þar til stór hluti borgarinnar var eyðilagður. Þá fyrst gáfust prússar upp og opnuðu dyrnar fyrir keisaraherinn. Borgin var byggð upp á ný, en blómatími hennar var liðinn. Ljómi háskólans hafði dvínað mikið. 1795 voru aðeins 366 stúdentar þar við nám. 1806 varð Saxland að konungsríki að áeggjan Frakka. Napoleon sótti Wittenberg heim á því ári. Hann lét víggirða borgina á ný og loka háskólanum, þ.e. hann var færður annað. 60 þús franskir hermenn voru að staðaldri í borginni næstu árin (stundum fleiri) og þurftu borgarbúar að brauðfæra þá. Um vorið 1813 var Napoleon kominn til baka frá misheppnaðri herferð sinni til Rússlands. Prússar eltu Frakka og komu til Wittenberg 25. september 1813. Frakkar neituðu að hörfa og því hófu prússar umsátur, sem varaði allt til næsta árs. Neyðin var þá orðin gríðarleg meðal Frakka og borgarbúa. Þegar Frakkar neituðu enn að gefast upp 12. febrúar 1814, hófu prússar mikla skothríð á borgina og réðust svo til atlögu. Frakkar voru orðnir svo fámennir og veikir að viðnám þeirra var lítið. Prússar hertóku borgina, sem varð fyrir mikilli eyðileggingu. Á Vínarfundinum var svo úrskurðað að þessi hluti Saxlands skyldi tilheyra Prússlandi. Wittenberg varð því að prússneskri borg. Gamla kastalanum var þá breytt í herstöð og háskólinn þar sem Lúther hafði numið og kennt var rifinn.

Minning Lúthers[breyta | breyta frumkóða]

Minnisvarðinn um Martein Lúther var afhjúpaður 1821

Prússar heiðruðu minningu Lúthers í Wittenberg. Strax 1821 var minnisvarði um Lúther afhjúpaður. 1830 var Lúthereikin plöntuð á ný, en hún hafði brunnið í síðustu bardögum. Samkvæmt sögunni átti Lúther að hafa brennt bænnfæringarskjal sitt frá páfa hjá eikinni. 1858 voru nýjar bronsdyr (Thesentür) settar á kastalakirkjuna til minningar um Lúther. 1865 var minnisvarði um Philipp Melanchton afhjúpaður, en hann var einn fremsti aðstoðarmaður Lúthers. 1892 var kastalakirkjan endurvígð, en þar hvíla báðir Lúther og Melanchton. 1922 var heiti borgarinnar opinberlega breytt í Lutherstadt Wittenberg.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Við aldamótin 1900 var iðnaður enn skammt á veg kominn í Wittenberg. Hinn mikli iðnaður sem einkenndi borgina fram að heimstyrjöldinni síðari hélt innreið sína rétt eftir aldamótin. 1935 átti sér stað stórslys er púðurverksmiðja sprakk í loft upp, en við það biðu fjölda manns bana. Arado flugvélaverksmiðjurnar voru stofnaðar 1936 og áttu að þjóna hervæðingunni. Til að viðhalda verksmiðjunum var útibú frá útrýmingarbúðunum Sachsenhausen reist við borgarmörkin og fangar látnir vinna þar. Wittenberg varð fyrir nokkrum loftárásum bandamanna, en skemmdir voru frekar litlar. 26. apríl 1945 stóðu Sovétmenn við borgardyrnar. Nasistar sprengdu þá brýrnar yfir Saxelfi og flúðu burt. Wittenberg var á sovéska hernámssvæðinu og þar af leiðandi í Austur-Þýskalandi eftir stríð. Sameining Þýskalands 1990 olli miklu atvinnuleysi í borginni, er mörg iðnfyrirtæki lokuðu. Í dag er mikil ferðamennska í kringum siðaskiptamennina Lúther og Melanchton áberandi.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

  • Brúðkaup Lúthers er heiti á sögutengdri hátíð sem minnir á brúðkaup Marteins Lúthers og Katarínu frá Boras 1525. Hátíðin er haldin aðra helgi í júní og er hápunkturinn skrúðganga í gegnum borgina þar sem þátttakendur eru í miðaldafötum.
  • Siðaskiptahátíðin er haldin árlega 31. október með hátíðarguðsþjónustu, tónleikum, trúarkappræðum og sögutengdum sýningum í miðborginni.
  • Luther Cup er heiti á knattspyrnumóti í borginni. Leikið er á litlum velli og þátttakendur eru um 100 karla- og kvennalið hvaðanæfa að frá Þýskalandi.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Wittenberg viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Kastalakirkjan. Þar hengdi Lúther upp mótmælagreinar sínar.
Borgarkirkjan. Þar var nýja trúin fyrst predikuð.
  • Kastalavirkið í Wittenberg er með eigin kirkju. Kastalinn var reistur 1340 af Rúdolf I kjörfursta í Saxlandi og er hann með 88 metra háan turn. Nokkrum árum seinna var tekið að reisa kirkju innan kastalavirkisins. Hún var rifin og ný reist 1508, um sama leyti og Marteinn Lúther flutti til borgarinnar. 1502 var kastalanum breytt í háskóla og þar lærði t.d. Philipp Melanchthon, helsti aðstoðarmaður Lúthers. 1517 negldi Luther 95 mótmælagreinar á kirkjuhurðina og þar með hófust siðaskiptin og umbrotin tengd þeim. Í kirkjunni voru Lúther og Melanchthon lagðir til grafar. 1760 skemmdist bæði kastalinn og kirkjan svo mikið í 7 ára stríðinu, að bara ytri múrarnir urðu eftir. Báðar byggingar skemmdust aftur 1814 þegar Prússar hröktu hermenn Napoleons úr borginni. 1858 lét Friðrik Vilhjálmur IV Prússakonungur smíða nýja bronshurð í kirkjuna og vígði hana með viðhöfn til minningar um mótmælagreinar Luthers. Kastalinn sjálfur er safn og farfuglaheimili í dag. Báðar byggingar voru settar á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996.
  • Borgarkirkjan (Stadtpfarrkirche) er sú kirkja þar sem siðaskiptin voru fyrst predikuð. Kirkjan sjálf kom fyrst við skjöl 1187, en stækkuð verulega 1280. 1412-1439 var kirkjunni breytt talsvert og turnarnir reistir. Það var í þessari kirkju sem siðaskiptamennirnir Marteinn Lúther og Johannes Bugenhagen predikuðu nýju trúna af kappi. Þetta voru fyrstu predikanirnar á þýskri tungu, en fram að þessu hafði allt kirkjulíf farið fram á latnesku. 1996 var kirkjan sett á heimsminjaskrá UNESCO.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 279.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]