Fara í innihald

Miðborg Reykjavíkur

Hnit: 64°08′51″N 21°56′11″V / 64.14750°N 21.93639°V / 64.14750; -21.93639
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

64°08′51″N 21°56′11″V / 64.14750°N 21.93639°V / 64.14750; -21.93639

Austurstræti árið 2022.

Miðborg Reykjavíkur (oft kölluð „miðbærinn“ eða „101“) er hverfi í Reykjavík sem inniheldur elstu hluta borgarinnar. Í miðborginni er miðstöð stjórnsýslu á Íslandi. Þar eru Alþingishúsið, Stjórnarráðshúsið og Hæstiréttur Íslands. Flest ráðuneytin eru með skrifstofur sínar við Arnarhól. Þar eru líka Safnahúsið og Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu. Reykjavíkurhöfn er fyrir norðan Kvosina og þar við standa tónlistarhúsið Harpa og Sjávarútvegshúsið. Í miðborginni eru líka helstu kennileiti borgarinnar eins og Tjörnin, þar sem Ráðhús Reykjavíkur er staðsett, og Hallgrímskirkja efst á Skólavörðuholti. Í Kvosinni eru nokkur torg, þar á meðal Austurvöllur, Ingólfstorg og Lækjartorg. Við Austurvöll standa meðal annars Alþingishúsið, Dómkirkjan og Hótel Borg og við Lækjartorg stendur Héraðsdómur Reykjavíkur

Við Tryggvagötu í Kvosinni standa Tollhúsið, höfuðstöðvar Listasafns Reykjavíkur og Borgarbókasafnsins. Listasafn Íslands stendur við Tjörnina, við hliðina á Fríkirkjunni í Reykjavík. Önnur stórhýsi við Tjörnina eru Miðbæjarskólinn, Fríkirkjuvegur 11, Iðnó, Lækjargata 14a og Tjarnarbíó. Nokkrir almenningsgarðar eru líka við Tjörnina, eins og Hljómskálagarðurinn, Hallargarðurinn og Mæðragarðurinn. Í Kvosinni eru auk þess Fógetagarðurinn og Alþingishúsgarðurinn við Austurvöll. Sundhöll Reykjavíkur stendur við Barónsstíg og Landspítali er þar sunnan við. Einarsgarður er lítill skrúðgarður við enda Barónsstígs.

Austurstræti og Hafnarstræti í Kvosinni voru lengi helstu verslunargötur Reykjavíkur en þegar leið á 20. öld byggðust Bankastræti, Laugavegur og Skólavörðustígur upp sem verslunargötur. Þar er ennþá ein helsta miðstöð verslunar í Reykjavík, en með tilkomu verslunarmiðstöðva á borð við Kringluna á síðustu áratugum 20. aldar dró nokkuð úr aðsókn. Nýtt íbúðar- og verslunarhverfi, Hafnartorg, var reist við Tryggvagötu 2016-2020 samhliða framkvæmdum á austurbakka Reykjavíkurhafnar sem tengja það svæði við Hörpu.

Í hverfinu eru tveir grunnskólar; Tjarnarskóli og Austurbæjarskóli, og þrír framhaldsskólar; Menntaskólinn í Reykjavík, Tækniskólinn og Kvennaskólinn í Reykjavík. Háskóli Íslands í Vatnsmýri taldist áður til miðborgarinnar en síðustu ár hefur verið tilhneiging til að líta á Vatnsmýrina sunnan Miklubrautar sem sérstakan borgarhluta. Tónmenntaskóli Reykjavíkur er í Skuggahverfinu og dansskólinn Kramhúsið er við Bergstaðastræti.

Kvosin um miðja 19. öld.

Hverfinu tilheyrir elsti hluti borgarinnar, Kvosin, þar sem fyrst tók að myndast þorp með Innréttingunum á síðari hluta 18. aldar í núverandi Aðalstræti. Þar er nú eitt hús varðveitt frá þeim tíma, Aðalstræti 10. Veturinn 2001 fór fram fornleifauppgröftur við suðurenda Aðalstrætis þar sem rannsakaðar voru leifar skála frá landnámsöld og menn hafa ímyndað sér að þarna hafi verið skáli Ingólfs Arnarsonar sem fyrstur hóf varanlega búsetu á Íslandi. Hverfið á sér bæði langa og fjölbreytta byggingasögu en þar er að finna byggingar frá öllum tímum frá 18. öld fram á 21. öldina.

Í miðborginni er mjög blönduð byggð, en verslanir og önnur fyrirtæki eru helst staðsett í Kvosinni og við tilteknar götur, eins og Laugaveg og Skólavörðustíg. Töluvert er um atvinnuhúsnæði innan um íbúðir í hverfinu svo jafnvel er ómögulegt að skilgreina hluta þess sem annað hvort atvinnusvæði eða íbúðabyggð. Íbúar í miðborginni voru 11.498 talsins árið 2023.[1]

Formleg afmörkun

[breyta | breyta frumkóða]
Kort sem sýnir formlega afmörkun miðborgarinnar.

Í samþykkt um skiptingu Reykjavíkurborgar í hverfi frá 2002 er miðborgin afmörkuð með þessum hætti: Í suður og vestur markast hverfið af línu sem er dregin um eftirtaldar götur: Suðurbugt (austurendi), Geirsgötu, Norðurstíg, Vesturgötu, Garðastræti, Túngötu, Suðurgötu, Sturlugötu, Oddagötu, Eggertsgötu, Njarðargötu, beinni línu að horni Einarsness/Skeljaness, Skeljanes og þaðan í sjó. Í austur markast hverfið af línu sem er dregin um Snorrabraut, gamla Flugvallarveg og Hlíðarfót.[2] Samkvæmt þeirri skiptingu tilheyrir Grjótaþorpið Miðborginni en ekki Skerjafjörður sem tilheyrir Vesturbænum.

Í aðalskipulagi frá 1929 voru eftirfarandi hverfi skilgreind í miðborginni: Tjarnarbrekka, Víkin, Arnarhóll, Skuggahverfi, Laufás, Spítalahlíð, Þingholt, Ásgarður og Tungan. Þessi heiti festust misvel í sessi. Enn í dag er algengt að tala um Þingholt og Skuggahverfi, en þessi heiti ná yfir stærra svæði en þau gerðu í upphafi. Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 eru skilgreindir þrír hverfahlutar í miðborginni: Kvosin, Skólavörðuholt og Skuggahverfi.

Stærstur hluti Miðborgarinnar er í póstnúmeri 101, utan nokkrar byggingar við Snorrabraut og hluti bygginga Háskóla Íslands sem áður voru skilgreindar sem hluti Miðborgarinnar og eru nú í póstnúmeri 102.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Mannfjöldi eftir hverfum í Reykjavík, kyni og aldri 1. janúar 2011-2023“. Hagstofan. Sótt 17. apríl 2023.
  2. „Samþykkt um skiptingu Reykjavíkurborgar í hverfi“ (PDF).
  Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.