Konstanz

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Konstanz Innsiglingin í Konstanz
Upplýsingar
Sambandsland: Baden-Württemberg
Flatarmál: 55,65 km²
Mannfjöldi: 81.141 (31. desember 2013)
Þéttleiki byggðar: 1458/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 405 m
Vefsíða: www.konstanz.de Geymt 7 september 2014 í Wayback Machine

Konstanz er borg í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi. Hún er háskóla- og hafnarborg við Bodenvatn og er með rúmlega 81 þúsund íbúa (31. desember 2013).

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Konstanz liggur við Bodenvatn syðst í Þýskalandi, einmitt á þeim stað þar sem vatnið er mjóst. Borgin skiptir Bodenvatn í tvo aðskilda hluta og rennur Rínarfljót milli hlutanna í gegnum borgina. Suðurmörk borgarinnar eru samtímis landamærin að Sviss.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Borgin var stofnuð af Rómverjum og hét þá Civitas Constantia (Borg Konstantíns), til heiðurs keisaranum Konstantíns Chlorus. Þetta heiti var notað af germönum eftir þetta og fyrst breytt í Constantia, síðan Konstanz.

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki borgarinnar er svartur kross á hvítum grunni. Efst er feit rauð rönd. Rauði liturinn er blóðröndin sem merkir blóðréttinn (líkamlegar refsingar) í þessari fyrrum fríborg. Krossinn er fenginn að léni frá rauða biskupakrossinum en biskupar réðu yfir borginni áður.

Saga Konstanz[breyta | breyta frumkóða]

Rómverskar rústir í miðborginni
Kirkjuþingshúsið í Konstanz. Í þessu húsi fór eina páfakjör sögunnar fram norðan Alpa.
Konstanz 1633. Mynd eftir Matthäus Merian.

Miðaldir[breyta | breyta frumkóða]

Það voru Rómverjar sem stofnuðu borgina um 300 e.Kr. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær þeir hurfu þaðan en árið 525 kemur heitið Constania fyrst fyrir í gotneskri ferðabók. Árið 585 varð Konstanz biskupaborg en þá standa þjóðflutningarnir miklu yfir. Að minnsta kosti tveir biskupanna hafa verið teknir í tölu dýrlinga, þar á meðal Konrad frá Konstanz (um 900-975). Í upphafi 13. aldar náðu borgarbúar að losa sig undan biskupunum að hluta og varð Konstanz þá að halfgerðri fríborg í ríkinu. Konstanz var mikilvægur viðkomustaður ferðamanna og verslunarmanna á leið yfir Alpana. Hún tryggði einnig örugga leið yfir Bodenvatn. Á 14. öld tók Basel við sem viðkomustaður verslunar og því tók Konstanz að hnigna.

Kirkjuþing og siðaskipti[breyta | breyta frumkóða]

1414 kallaði Sigismundur keisari til kirkjuþingsins mikla í Konstanz. Þingið þurfti að glíma við erfið vandamál. Þau helstu voru að binda enda á klofninginn innan kaþólsku kirkjunnar og finna lausn á óróa Hússítana í Bæheimi. Þingið stóð yfir í fjögur ár með hléum. Bæði vandamál tókst að leysa. Á þessum tíma hafði kaþólska kirkjan klofnað undir þremur páfum sem ríktu samtímis. Þetta þýddi einnig spennu í kaþólska heiminum, þar sem furstar og konungar fylgdu ekki alltaf sama páfa. Sigismund kallaði páfana til Konstanz en aðeins Jóhannes XXIII mætti. Hinir sendu fulltrúa. Lausnin fólst í því að setja alla þrjá páfa af og kalla nýjan. Nýr páfi varð Martin V. Þetta reyndist eina páfakjörið norðan Alpa í sögunni. Einn páfanna sætti sig við orðinn hlut, tveir ekki og fóru þeir í útlegð. Síðara vandamálið var ekki síður alvarlegt. Fylgismenn Jan Hus í Bæheimi höfðu kastað kaþólskri trú og þar með einnig hafnað keisaranum óbeint. Þetta leiddi til Hússítastríðana. Sigismund keisari kallaði Hus á þingið í Konstanz og veitti honum friðhelgi meðan fundað væri. En fundurinn varð honum óhagstæður. Keisari afturkallaði friðhelgina og var Hus brenndur á báli í miðborg Konstanz. Ösku hans var dreift í Rínarfljót. Seinna á 15. öld sótti Konstanz um inngöngu í svissneska bandalagið en beiðninni var hafnað á grundvelli þess að hinir eiðsvörnu óttuðust offjölgun borga. Konstanz hefði að öllum líkindum orðið höfuðborg kantónunnar Thurgau. Í kjölfarið af höfnuninni gekk borgin í sváfabandalagið. 1527 urðu siðaskiptin í borginni. Biskuparnir fluttu þá til Meersburg við Bodenvatn. 1548 barðist borgin í trúarstríðinu milli mótmælenda og kaþólikka (Schmalkaldischer Krieg). Mótmælendur biðu lægri hlut og borgin var því neydd til kaþólskrar trúar á ný. Borgin missti auk þess fríborgastatus sinn. Biskuparnir sneru hins vegar ekki aftur.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Í 30 ára stríðinu sátu Svíar um borgina 1633 en fengu ekki unnið hana. Eftir stríð hnignaði borgin nokkuð og kemur lítið við sögu eftir það. Árið 1806 var Konstanz innlimað í stórhertogadæminu Baden. Árið 1809 sátu Austurríkismenn um borgina í Napoleonstríðunum, en fengu heldur ekki unnið hana. Árið 1863 fékk borgin járnbrautartengingu og við það dafnaði atvinnulífið á nýjan leik. Það ár voru borgarmúrarnir rifnir niður til að skapa meira byggingasvæði. Borgin kom ekkert við sögu í heimstyrjöldunum báðum á 20. öld. Frakkar hertóku borgina 26. apríl 1945 bardagalaust og var hún á hernámssvæði þeirra. Franskur her dvaldi í Konstanz allt til 1979.

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

  • Dómkirkjan í Konstanz er elsta bygging borgarinnar sem enn er í notkun. Elstu hlutar hennar eru frá árinu 1000. Kirkjan var notuð sem aðalsalur kirkjuþingsins mikla 1414-1418.
  • Kirkjuþingshúsið (Konzilgebäude) er þekktast fyrir páfakjörið í kirkjuþinginu mikla 1414-1418, en það er eina páfakjör sögunnar norðan Alpa. Húsið er frá síðari hluta 14. aldar.
  • Imperia heitir styttan mikla í innsiglingu hafnarinnar í Konstanz.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]