Kärnten

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Kärntens Skjaldarmerki Kärntens
Fáni
Fáni
Skjaldarmerki
Upplýsingar
Höfuðborg: Klagenfurt
Flatarmál: 9.535,97 km²
Mannfjöldi: 555.881 (1. janúar 2014)
Þéttleiki byggðar: 58/km²
Vefsíða: www.ktn.gv.at Geymt 19 janúar 2007 í Wayback Machine
Lega

Kärnten er sambandsland í Austurríki, það syðsta í landinu. Það er að mestu leyti í Ölpunum og er þekkt fyrir fjöll sín og vötn. Íbúar eru tæplega 560 þúsund talsins. Höfuðborgin heitir Klagenfurt.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Kärnten er syðst í Austurríki og liggur að landamærum Ítalíu og Slóveníu. Auk þess eru sambandslöndin Tirol í vestri, Salzburg í norðri og Steiermark í norðaustri. Kärnten er að öllu leyti innan Alpafjalla og eru þar nokkur af hæstu fjöllum landsins (s.s. Grossglockner). Rúmlega helmingur sambandslandsins er þakinn skógi. Aðalfljót svæðisins er Drau.

Skjaldarmerki og fáni[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Kärntens er tvískiptur. Til vinstri eru þrjú svört ljón á gulum grunni, en þau voru tákn hertogans Ulrich III af Spanheimer-ættinni. Til hægri er austurríski fáninn í skjaldarlíki. Fáni Kärntens samanstendur af þremur láréttum röndum: Gult, rautt og hvítt. Rauði og hvíti liturinn eru tákn Austurríkis, en guli liturinn er til aðgreiningar frá öðrum sambandslöndum. Kärnten er eina sambandslandið með þrjá liti í fánanum.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Upphaflega hét héraðið Karantanía. Talið er að það sé upprunnið úr keltnesku. Til eru tvær tilgátur um uppruna heitisins. Í fyrsta lagi merkir það vinur og er hugsanlega vísað til ættbálks sem þar bjó fyrrum. Í öðru lagi merkir heitið steinn eða grjót, og má ætla að síðari tilgátan sé líklegri. Úr heitinu Karantaníu eru Karawanken-fjöll í héraðinu nefnd. Heitið Karantanía breyttist með tímanum í Kärnten.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Kärnten er að mestu leyti í Alpafjöllum. Þar er Grossglockner, hæsta fjall Austurríkis

Héraðið Karantanía var fyrrum hluti af keltneska ríkinu Noricum. Ríkið átti vinsamleg sambönd við Rómverja, sem innlimuðu það árið 15 f.Kr. Á tímum Kládíusar keisara varð Kärnten að skattlandi. Við fall Rómaveldis fluttu germanir inn í svæðið, en náðu lítið að festa rætur. Íbúar blönduðust hins vegar talsvert slövum. Í kringum árið 600 var slavaríkið Karantanía stofnað, sem takmarkaðist í vestri við Bæjaraland og í suðri við Langbarðaland. Á 8. öld komust Bæjarar til áhrifa í Karantaníu og í kjölfarið var farið að kristna héraðið. Eftir uppreisn heiðinna manna réðist Tassilo III hertogi Bæjara inn í landið. Karlamagnús innlimaði stóran hluta Karantaníu í frankaríki sitt fyrir aldamótin 800. Þannig komst allt héraðið Kärnten undir yfirráð franka. Á 10. öld varð Kärnten eigið hertogadæmi. Ýmsar ættir ríktu þar á næstu öldum, s.s. Spanheimer-ættin. Habsborgarar erfðu Kärnten snemma á 14. öld og varð við það loks hluti Austurríkis. Á tímabilinu 1473-83 réðust Tyrkir (osmanir) fimm sinnum inn í Kärnten, þar sem þeir þeir rændu og myrtu. Þeir voru loks stöðvaðir í orrustunni við Vín. Siðaskiptin gengu í garð í upphafi 16. aldar. Sumar borgir voru mjög sterkt vígi lúterstrúarmanna, s.s. Villach. En við gagnsiðaskipti kaþólsku kirkjunnar í upphafi 17. aldar var nær allt héraðið kaþólskt á ný. Afleiðingin var mannflótti og fátækt. Allt fram á 18. öld voru lúterstrúarmenn ofsóttir í Kärnten. Napoleon réðist inn í Kärnten 1797 og tók héraðið allt nær bardagalaust. Frakkar fóru þó aftur á sama ári eftir friðarsamningana við Campo Formio, en sneru aftur 1805. Héraðið var nánast gjaldþrota og örmagna í kjölfarið. Eftir ósigur Napoleons í Rússlandi veturinn 1812-13 varð svæðið í kringum Villach austurrískt á ný, en meginhluti Kärnten varð að hluta Illyríu með Ljubljana að höfuðborg. Kärnten sameinaðist ekki á ný undir austurrískri stjórn fyrr en 1849. 1861 varð Kärnten að sambandslandi með eigið þing í Klagenfurt. Mikill uppgangur í járn- og námugreftri varð í Kärnten með iðnbyltingunni. Atvinnuvegir þessir runnu þó sitt skeið við aldamótin 1900. Eftir heimstyrjöldina fyrri var klipið af Kärnten. Stórir hlutar fóru til Ítalíu og til Júgóslavíu, sem þá var nýstofnað ríki. Alls missti Kärnten 8% svæðis síns og 6% íbúanna. Þrátt fyrir það bjuggu enn þúsundir Slóvenar syðst í héraðinu og er slóvenska þar viðurkennt tungumál í Austurríki. Frá og með 1930 hófst mikill straumur ferðamanna til Kärnten og svo er enn. 1938 var Austurríki sameinað Þýskalandi. Í Kärnten ráku nasistar þúsundir Slóvena úr landi, meðan aðrir voru handteknir. Í stríðslok 1945 hertóku Bretar og júgóslavneskar hersveitir Kärnten. Miklar skærur voru milli Breta og Júgóslava, en hinir síðarnefndu yfirgáfu héraðið að tilskipan Sovétmanna. Kärnten var breskt hernámssvæði til 1955. Á eftirstríðsárunum fékk slóvenski minnihlutahópurinn aukin réttindi. 1977 var talið að hluti þeirra væri 25% í héraðinu, en alls óvíst er í dag um fjölda þeirra.

Borgir[breyta | breyta frumkóða]

Stærstu borgir Kärntens:

Röð Borg Íbúar Ath.
1 Klagenfurt 94 þús Höfuðborg sambandslandsins
2 Villach 59 þús
3 Wolfsberg 25 þús

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]