Darwin (Ástralía)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Darwin er höfuðborg Norður-svæðisins í Ástralíu. Þar búa 147 þúsund manns (2019), tæpur helmingur þeirra sem búa á svæðinu. Borgin er á norðurströnd Ástralíu við Tímorhaf. Skipverjar á könnunarskipinu H.M.S. Beagle voru fyrstir Evrópumanna til þess, árið 1839, að sjá hafnarstæðið sem borgin reis síðar við, og nefndu þeir höfnina Darwin eftir breska vísindamanninum Charles Darwin en hann hafði áður siglt með skipinu og gert miklar rannsóknir, þar á meðal hinn fræga samanburð á lífríki Galapagoseyja. Það var árið 1869 sem 135 manns stofnuðu þar byggð á vegum suður-ástralskra yfirvalda, en Norður-svæðið tilheyrði Suður-Ástralíu á þeim tíma. Sú byggð var nefnd Palmerston og það var ekki fyrr en 1911, þegar svæðið hlaut sjálfstæði frá Suður-Ástralíu, að borgin fékk opinberlega nafnið Darwin. Í seinni heimsstyrjöldinni, árið 1942, gerðu Japanir loftárás á borgina og létust 243 af 2000 íbúum borgarinnar á þeim tíma. Árið 1974 eyddist svo meiripartur borgarinnar í fellibylnum Tracy og 50 manns létust. Borgin byggðist þó upp á enn á ný og er nú fjölmennari en nokkru sinni fyrr. Stærstu atvinnuvegir borgarinnar eru þjónusta við ferðamenn og námagröftur. Þar er líka stór herstöð sem hefur stækkað mjög á undanförnum árum vegna þátttöku Ástralíuhers í friðargæslu á Austur-Tímor. Þrátt fyrir smæð er Darwin afar fjölmenningarleg borg. Í henni býr fólk af 75 mismunandi þjóðernum og um fjórðungur íbúanna eru frumbyggjar eða Torressundseyjaskeggjar. Þar er eini háskóli Norður-svæðisins, Charles Darwin háskóli.