Fara í innihald

Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðargildi laga nr. 1/2010

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðargildi laga nr. 1/2010 oft nefnd Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave er þjóðaratkvæðagreiðsla sem fór fram 6. mars 2010[1] um það hvort að lög nr. 1/2010 ættu að halda gildi sínu eða falla úr gildi. Niðurstaðan var að 93% greiddra atkvæða voru á þann veg að lögin ættu að falla úr gildi.

Lög nr. 1/2010 eða Lög um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf voru samþykkt af Alþingi 30. desember 2009 en synjað af Ólafi Ragnari Grímssyni Forseta Íslands þann 5. janúar 2010 og var því kosið um lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og kveður á um í 26. grein Stjórnarskrár Íslands[2][3].

Þjóðaratkvæðagreiðslan var sú fyrsta sem fram fór á Íslandi eftir stofnun lýðveldisins 1944 og jafnframt sú fyrsta þar sem lög samþykkt af Alþingi voru felld úr gildi eftir að hafa verið borin undir þjóðaratkvæði í samræmi við ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar.

Icesave málið

[breyta | breyta frumkóða]

Landsbanki Íslands hóf á árinu 2006 að bjóða upp á innlánsreikninga í Bretlandi sem reknir voru undir vörumerkinu Icesave. Árið 2008 var einnig farið að bjóða upp á reikningana í Hollandi. Í báðum löndum voru reikningarnir reknir af útibúum Landsbankans, en ekki sjálfstæðum dótturfélögum, og voru því á vegum móðurfélagsins á Íslandi. Vegna þessa, voru innistæðurnar tryggðar af hinum íslenska Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta upp að því marki sem greindi frá í íslenskum lögum (20.887 evrur á hvern reikning).

Landsbankinn, ásamt öðrum stórum íslenskum bönkum, féll í október 2008. Þá kom í ljós að íslenski tryggingasjóðurinn var fjarri því að geta staðið við skuldbindingar sínar gagnvart eigendum Icesave innistæðanna. Stjórnvöld Í Bretlandi og Hollandi ákváðu fljótlega að bæta sjálf Icesave innistæðueigendunum það tjón sem íslenski tryggingasjóðurinn gat ekki staðið undir og krefja svo sjóðinn og íslensk stjórnvöld um endurgreiðslu þeirra bóta. Upp hófust þá miklar deilur, bæði innanlands á Íslandi og á milli stjórnvalda á Íslandi annarsvegar og í Bretlandi og Hollandi hinsvegar, um það hvort að til staðar væri lagaleg ábyrgð íslenska ríkisins á skuldbindingum tryggingasjóðsins og það hvernig haga ætti greiðslum til Bretlands og Hollands ef fallist væri á greiðsluskylduna.

Samningar náðust á milli íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda um að íslenska ríkið myndi ábyrgjast endurgreiðslu á lánum sem bresk og hollensk stjórnvöld myndu veita íslenska tryggingasjóðnum. Frumvarp til staðfestingar því samkomulagi var lagt fyrir Alþingi í júní 2009. Í meðförum þingsins var hinsvegar bætt við ýmsum fyrirvörum um ábyrgð íslenska ríkisins og endurgreiðslur lánanna. Frumvarpið ásamt með fyrirvörunum var samþykkt af Alþingi þann 28. ágúst 2009 og varð að lögum nr. 96/2009 um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, skrifaði undir lögin þann 2. september 2009 en gaf þá jafnframt út yfirlýsingu þar sem fram kom að fyrirvarar Alþingis við ríkisábyrgðina væru forsenda staðfestingarinnar.

Bresk og hollensk stjórnvöld féllust ekki á alla umrædda fyrirvara. Í kjölfarið var lagt fram nýtt frumvarp fyrir Alþingi um breytingu á lögum nr. 96/2009 þar sem flestir fyrirvarar Alþingis við fyrra frumvarpið voru felldir út (en að einhverju leyti teknir upp í lánasamningunum í staðinn). Eftir harðar deilur var frumvarpið naumlega samþykkt 30. desember 2009 sem lög nr. 1/2010 um breytingu á lögum nr. 96/2009.

Á vegum InDefence hópsins fór þá af stað undirskriftasöfnun þar sem skorað var á forseta Íslands að synja lögunum staðfestingar og vísa þeim þannig til þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar. Söfnuðust alls 56 þúsund undirskriftir sem lagðar voru fyrir forseta. Þann 5. janúar 2010 tilkynnti forsetinn um þá ákvörðun sína að hann myndi ekki staðfesta lögin með undirskrift sinni.

Framkvæmd og niðurstöður atkvæðagreiðslunnar

[breyta | breyta frumkóða]

Ekki eru til almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna á Íslandi en eftir að forseti Íslands synjaði lögum nr. 1/2010 staðfestingar voru sett sérstök lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðargildi laga nr. 1/2010. Lögin tóku gildi 11. janúar 2010 og eru nr. 4/2010. Samkvæmt lögunum fór framkvæmd atkvæðagreiðslunnar að mestu eftir því sem gildir um alþingiskosningar, t.d. varðandi kosningarétt, kjörskrár, kjörstjórnir og kjördæmi. Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða skyldi ráða niðurstöðunni og engin krafa var gerð um lágmarks kjörsókn.

„Lög nr. 1/2010 kveða á um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Alþingi samþykkti lög nr. 1/2010 en forseti synjaði þeim staðfestingar. Eiga lög nr. 1/2010 að halda gildi?“
Kjördæmi % nei % auðir % ógildir % samtals kjörsókn (%)
Reykjavík norður 561 2,1 23.548 91,3 1.546 6,0 126 0,5 25.781 58,6
Reykjavík suður 607 2,2 25.123 92,0 1.456 5,3 115 0,4 27.301 62,0
Suðvesturkjördæmi 507 1,3 36.873 94,6 1.504 3,9 110 0,3 38.994 65,7
Norðvesturkjördæmi 295 2,2 12.573 91,7 660 4,9 33 0,2 13.561 63,6
Norðausturkjördæmi 329 1,9 15.667 92,4 899 5,3 52 0,3 16.947 59,3
Suðurkjördæmi 300 1,4 20.613 95,2 679 3,1 55 0,3 21.647 66,2
Samtals 2.599 1,8 134.397 93,2 6.744 4,7 491 0,3 144.231 62,7

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram 6. mars 2010“. Sótt 19. janúar 2010.
  2. „Yfirlýsing forseta Íslands“ (PDF). Sótt 19. janúar 2010.
  3. „Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands“. Sótt 19. janúar 2010.