Ódalíska
Ódalíska var óspjölluð ambátt í tyrknesku kvennabúri sem með tíð og tíma gat orðið hjákona eða eiginkona hins tyrkneska soldáns.
Orðið er komið úr frönsku, en á uppruna sinn að rekja til tyrkneska orðsins odalık, sem þýðir herbergisþerna eða salmeyja, en oda þýðir herbergi eða salur.
Ódalískur voru neðstar í virðingastiga kvennabúrsins, og þjónustuðu ekki soldáninn sjálfan, heldur hjá- og/eða eiginkonur hans og voru sérlegar þjónustumeyjar þeirra. Ódalískur voru venjulega ambáttir sem soldáninn fékk gefins og stundum voru það foreldrar stúlkunar sem gáfu soldáninum dóttur sína og vonuðust til að hún yrði hjákona hans eða eiginkona og kæmist þannig til áhrifa.
Ef ódalískurnar voru óvenju fallegar eða höfðu einstaka dans- eða sönghæfileika þá gekkst hún undir þjálfun til að verða hugsanleg hjákona soldánsins. Ef hún síðan varð valin til að sofa hjá soldáninum varð hún sjálfkrafa hjákona hans. Flestar hjákonur soldánsins hittu hann þó aðeins einu sinni, nema þær væru sérstaklega vel að sér í dansi, söng eða rekkjubrögðum og næðu þannig athygli hans. Ef hjákona fæddi soldáninum son varð hún sjálfkrafa eiginkona hans.