Fara í innihald

Álagablettur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Álfasteinn í Kópavogi.

Álagablettur er samkvæmt þjóðtrú tiltekið svæði sem á hvílir einhverskonar bannhelgi, þannig að ef helgin er rofin þá gerist eitthvað slæmt. Margir álagablettir tengjast huldufólki, álfum og álfabyggðum, en líka meintum haugum eða dysjum, gömlum helgistöðum (til dæmis grafreitum) eða stöðum þar sem slys eða glæpir hafa átt sér stað. Álögin felast oftast í banni við að raska staðnum, nytja hann (slá þar gras eða tína ber), benda á hann eða henda í hann steinum.

Oft tengjast álagablettum þjóðsögur sem skýra bannhelgina og uppruna álaganna, en það eru líka til dæmi um álagabletti þar sem engin saga er til, eða hefur hugsanlega týnst úr minni fólks. Dæmi eru um að álagablettir hafi tengst sögnum eftirá, og að þeir hafi tengst ólíkum sögum á ólíkum tímum. Eins eru dæmi um að álagablettir hafi flust til eða staðsetning þeirra gleymst.

Dæmi um álagabletti

[breyta | breyta frumkóða]
  • Álagablettur við Laugarvatn: Margrét frá Öxnarfelli var skyggn kona. Hún sagðist hafa séð álfa sem byggju í sefi sem væri við hluta af bökkum Laugarvatns en sef þetta var álagablettur. Einu sinni gerðist það þó að bóndi nokkur frá Gíslabæ sló sefið og hafði af þessu allnokkuð hey. En veturinn eftir missti bóndinn bestu kúna sína og eftir það hefur enginn þorað að snerta sefið. (Munnleg heimild úr viðtali).[1]
  • Álagablettur í Eyjafirði: Fyrir utan Laufás í Eyjafirði er bær, sem heitir Borgargerði. Þar er hvammur sem ekki má slá, því að þá drepur huldufólkið, sem hefur ráð yfir hvamminum, kú fyrir bónda. Uppi í fjallinu eru nokkrar birkihríslur, leifar af gömlum skógi, sem ekki má hrófla við, því að þá er óblessun vís frá hálfu huldufólksins sem á hríslurnar. (Sögn Þórhalls Bjarnarsonar biskups).

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „af vef Fjölbrautaskóla Vesturlands“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. janúar 2005. Sótt 28. desember 2007.
  Þessi menningargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.