Leðurskjaldbaka
Leðurskjaldbaka | ||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Ástand stofns | ||||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||||
| ||||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||||
Dermochelys coriacea (Vandelli, 1761) |
Leðurskjaldbaka (fræðiheiti: Dermochelys coriacea) er stærst allra sæskjaldbaka og um leið stærsta skjaldbakan í veröldinni. Leðurskjaldbakan lifir eins og aðrar sæskjaldbökur í heitum og heittempruðum höfum. Hún á sér heimkynni í höfunum kringum miðbaug, Indlandshafi, Kyrrahafi og Atlantshafi, en er einnig algeng við Suður-Kyrrahafseyjar. Leðurskjaldbakan er lagardýr og fer aldrei á land nema til að verpa eggjum. Leðurskjaldbakan er af einni frumstæðustu tegunda skjaldbaka.
Leðurskjaldbaka í Steingrímsfirði
[breyta | breyta frumkóða]Leðurskjaldbökur hafa átt það til að rekast norður með austurströnd Ameríku með Golfstrauminum allt norður um New York. Árið 1963, þann 1. október [1] , veiddist leðurskjaldbaka í Steingrímsfirði á Ströndum. Einar Hansen formaður á 7 tonna báti, sem gerði út frá Hólmavík og sonur hans Sigurður höfðu hana með sér í land. Þeir feðgar voru að koma úr róðri og höfðu lokið við að draga línuna kl. 11:30. Veður var eindæma gott, sléttur sjór og sólskin. Að öðrum kosti hefðu þeir ekki séð skjaldbökuna, því aðeins lítið af afturhluta skjaldarins stóð upp úr sjó. Þeir vissu ekki hvað þetta væri, og fóru því varlega að gripnum, héldu jafnvel að dýrið mókti í sjávarskorpunni. Fljótt komust þeir þó að raun um að hún var dauð eftir að hafa borið í hana ífæru. Síðan settu þeir feðgar hákarlakrók í kjaft skepnunnar og drógu hana á síðu bátsins á hægri ferð til Hólmavíkur. Skjaldbakan reyndist alveg óskemmd og var ekki einu sinni lykt af henni. Hún var þegar sett í frysti.
Náttúrugripasafn Íslands keypti leðurskjaldbökuna af Einari Hansen með það fyrir augum að varðveita hana. Það tókst ekki, en afsteypa af henni er á safninu, einnig skjöldurinn og hauskúpan.