Fara í innihald

Krossfiskar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Krossfiskur)
Krossfiskar eða sæstjörnur
„Asteroidea“ úr Kunstformen der Natur eftir Ernst Haeckel frá 1904
„Asteroidea“ úr Kunstformen der Natur eftir Ernst Haeckel frá 1904
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Skrápdýr (Echinodermata)
Undirfylking: Asterozoa
Flokkur: Krossfiskar (Asteroidea)
Ættir[1]

Krossfiskar eða sæstjörnur (fræðiheiti Asteroidea) eru stjörnulaga dýr sem tilheyra fylkingu skrápdýra en innan þeirrar fylkingar eru meðal annars ígulker, sæstjörnur og sæbjúgu. Flestir krossfiskar eru rándýr sem nærast yfirleitt á botnföstum hryggleysingjum. Margar tegundir eru litaðar björtum litum í mismunandi tónum rauðs eða appelsínuguls. Þeir geta bæði fjölgað sér með kynæxlun og kynlausri æxlun

Þekktar eru um 2.000 tegundir krossfiska sem finnast á botni allra hafa heimsins. Þeir finnast á grunnsævi og allt niður að 6.000 metrum neðan sjávarmáls.

Þverskurðarmynd af stórkrossa (Asterias rubens). 1. Útskot innri stoðgrindar og húðklær, 2. Sáldflaga, 3. Steingangur, 4. Pyloric caecae, 5. Endaþarmskirtlar, 6. Kynkirtlar
Astropecten lorioli - A tegundir Júra.

Krossfiskar eru sjávarhryggleysingjar. Í þeim er yfirleitt miðdiskur og þeir hafa yfirleitt fimm arma, þó einhverjar tegundir hafi fleiri.

Líkami krossfiska (geislóttur á fimm vegu) skiptist í munnhlið (undirhliðin) og efra byrði. Margbreytilegir hlutir eru á húð þeirra: 1) Endar úr innri stoðgrind stingast í gegnum húðina. 2) Klólík útskot sem kallast húðklær sem halda yfirborði húðarinnar hreinu. 3) Húðtálkn, lítil fingurlík útskot húðarinnar sem notuð eru til loftskipta. Á munnhliðinni eru lítlar fellingar sem á eru sogfætur.

Í hverjum armi er líkamshol sem inniheldur hluta meltingarkirtlanna og kynkirtla (annað hvort karlkyns eða kvenkyns), sem opnast á í litlum opum á efra byrði. Taugakerfið samanstendur af miðtaugahring sem greinist í hvern arm. Ljósnæmur augnblettur er á enda hvers arms. Krossfiskar eru færir um hæg viðbrögð og líkamshreyfingu.

Meltingarkerfi krossfiska samanstendur af hjartamaga, portmaga og stuttri görn sem opnast í endaþarmsopi á efra byrði. Þeir geta fellt út hjartamagan þar sem fæða er hálfmelt áður en hún er tekin inn í portmagann þar sem meltingarensím sem meltingarkirtlarnir seyta vinna á fæðunni. Síðan klárast næringarupptökuferlið í stuttu görninni.

Fæðuöflun

[breyta | breyta frumkóða]

Krossfiskar fæðast á skeldýrum. Krossfiskurinn kemur sér í stöðu við tvískelja lindýr (skeldýr) og festir sogfætur sína við hvorn hluta skeljarinnar. Með samhæfðum hreyfingum sogfótanna opnar hann skelina. Mjög lítil rifa er nóg til þess að hann geti ranghvelft út hjartamaganum (cardiac stomach) inn í skeldýrið. Maginn seytir meltingarensímum og meltingin hefst, jafnvel á meðan skeldýrið reynir að loka skelinni. Síðar er hálfmelt fæðan tekinn inn í portmagann þar sem meltingarferlið klárast. Meltingarkirtlar finnast í hverjum armi krossfisksins.1

Sjóæðakerfi

[breyta | breyta frumkóða]

Krossfiskar hafa sjóæðakerfi sem þau nota til hreyfingar. Vatn flæðir inn í þetta kerfi í gegnum líkamshluta á efra borði krossfisksins sem heitir sáldflaga. Þaðan fer það í gegnum steingang að hringgangi sem umlykur munninn. Geislagangar sem greinast út frá hringganginum eru í hverjum armi. Þaðan flæðir vatnið í vöðvaríka belgi á sogfótunum. Samdráttur þessara belgja færir vatnið inn í sogfæturna og fær þá til að virka sem einhvers konar sogskálar. Krossfiskurinn hreyfir sig síðan með samdrætti og útvíkkun sogskálanna á víxl.1

Krossfiskur getur fjölgað sér bæði með kynæxlun og kynlausri æxlun. Hver armur inniheldur tvo kynkirtla sem framleiða kynfrumur og leysa þær síðan út um kynrásir. Frjóvgunin á sér oftast stað utan líkamans en einnig innan líkamans hjá sumum tegundum. Hjá sumum tegundum er kynfrumunum einfaldlega sleppt út í sjóinn þar sem sáðfruma og eggfruma mætast og mynda okfrumu, sem síðar verður að tvíhliða lirfu. Lirfan myndbreytist síðar og verður að geislasamhverfum krossfiski.1

Sumar tegundir krossfiska fjölga sér með skiptingu, oftast þannig að hluti af armi dettur af og þroskast í annan krossfisk. Armur krossfisks getur ekki þroskast í annan einstakling nema hluti af miðhring krossfisksins fylgi með.

Þverskurður af armi krossfisks

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Asterozoa: Fossil groups“. Sótt 12. mars 2008.
  • Mader, Sylvia S. og Michael Windelspecht. 2012. Inquiry Into Life. 14. útg. McGraw-Hill.