Fara í innihald

Yfirvaldið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Yfirvaldið, kápa
Kápumynd skáldsögunnar Yfirvaldið, fengin úr blaðaauglýsingu frá 1973.

Yfirvaldið: skáldsaga eftir bestu heimildum og skilríkjum eftir Þorgeir Þorgeirson kom fyrst út hjá Iðunni 1973 og var endurútgefin í skólaútgáfu árið 1980. Bókina nefndi Þorgeir heimildaskáldsögu. Hún byggði á gögnum um síðustu aftökuna á Íslandi og aðdraganda hennar: „þjófnaði í Húnaþingi á öndverðri 19. öld, morðið á Nathan Ketilssyni síðustu aftöku hérlendis sem fram fór í Vatnsdalshólum árið 1830 er þau Friðrik (Sigurðsson) og Agnes (Magnúsdóttir) voru höggvin“.[1]

Atburðirnir sem bókin byggir á voru í minnum hafðir. Til fyrri verka um sömu atburði teljast Saga Natans Ketilssonar og Skáld-Rósu eftir Brynjólf frá Minna-Núpi, sem var víðlesin, „síðasta meiri háttar ritverk hins mikla sagnameistara“ sagði Guðmundur G. Hagalín; og leikrit eftir Danann Eline Hoffman, Dauði Natans Ketilssonar, sem þýtt var á íslensku og sviðsett á Akureyri 1928, tæpri öld eftir aftökuna.[2] Þá var það sex árum eftir sviðsetningu leikritsins, 1934, að Friðrik og Agnes voru sögð hafa birst á miðilsfundi og beðið þess, gegnum ósjálfráða skrift húnverskrar konu, að bein þeirra yrðu grafin upp og jarðsett í vígðri mold.[2][3] Eftir að grein um málið birtist í Lesbók Morgunblaðsins, var orðið við þeirri bón. Friðrik og Agnes voru grafin upp og jörðuð í Tjarnarkirkjugarði 17. júní 1934.[2] Þegar Þorgeir Þorgeirson uppgötvaði að morðingjarnir hefðu verið greftraðir með legsteini en fórnarlömbin lægju þar nálægt í ómerktum reit, reyndi hann að koma því í kring að þeim yrði búinn sómasamlegur legstaður líka, en það kom fyrir ekki.[4] Um svipað leyti og endurgreftrunin fór fram skrifaði Tómas Guðmundsson skáld ritgerð um atburðina.[3] Þá hlaut framhalds-útvarpsleikrit Þorgeirs um málið, Börn dauðans, góðar viðtökur. Í Vísi skrifaði Ólafur Jónsson að þeir væru „eitthvert hið besta útvarpsefni af þessu tagi, sem hér hefur verið gert.“[5]

Samning ritsins

[breyta | breyta frumkóða]

Í frásögn sinni af atburðunum tengir Þorgeir morðin 1828 og aftökuna 1830 við peningarán í Múla 1824.[5] Sagan hefst á aftökunni en er síðan rakin frá árinu 1824 upp að þeim endapunkti atburðarásarinnar.

Meðal heimilda Þorgeirs voru dómabækurnar, sem varðveist höfðu í Þjóðskjalasafni, með efnis frá yfirheyrslum og fleiru, önnur „firn af skrifi um þetta tímabil“, uppskriftir dánarbúa – „áreiðanlegustu heimildir í veröldinni, því sjálf ágirndin hefur litið eftir með skrifaranum“ og fleira. Einnig síðari tíma skrif um efni „sem reynist haldgott til heimildar um munnmælasagnirnar, sem engan veginn eru ómerkasti hluti þess efnis sem staðið getur að svona verki.“ Þá ferðaðist Þorgeir um vettvang atburðanna og ræddi við afkomendur sögupersóna. Þorgeir hóf störf að bókinni árið 1964. Hann sagðist ekki hafa starfað stöðugt við hana frá þeim tíma, en árunum 1967 og 68 hafi hann að verulegu leyti varið í rannsóknir efnisins. Þeirri vinnulotu lauk með útvarpsleikriti sem Þorgeir samdi um sama efni.[4]

Með fyrirvara um að það hvaða viðfangsefni leiti á höfund geti átt sér margar orsakir, sagði Þorgeir um tildrög bókarinnar:

Gæsalappir

Áður hef ég víst einhvers staðar látið þess getið að sú óskamynd bændasamfélagsins á nítjándu öld, sem róttækir menttamenn voru að koma sér upp, hafi farið í taugarnar á mér og rekið mig til að skoða ögn í saumana á þessum tíma. Má vera að það hafi verið upphafið. Svo kemur annað til þegar maður er byrjaður. Sharon Tate morðin í Kaliforníu og Mansonkommúnan ýttu líka undir mig með að halda verkinu áfram á sínum tíma. Mér fannst ég sjá einhverja líkingu þar. Og svo eru þessi tengsl við áhugamál nútímans sem alla tíð hafa verið að vaxa inn í þetta verk. Ég á við að atburði þess gerast á lokaskeiði nýlendutímans hérlendis þegar Danir eru að losa ögn um kverkatakið á þjóðinni – eða með öðrum orðum þegar við vorum enn greinilega hluti af þessum þriðja heimi sem í dag er miðlæg hugmynd í allri pólitík. Þannig er sagan líka í aðra röndina tilraun til að setja sig í spor kúgaðra þjóða nú á dögum.[4]

— .

Um aðalpersónu bókarinnar, Natan, sagði Þorgeir í sama viðtali að hann væri „villuráfandi stjórnleysingi í þessu samfélagi sem enn hefur ekki efni á borgarastétt né millistétt.“ Í honum brjótist uppreisnarhugmyndir, hugsanlega beint frá frönsku borgarabyltingunni, en þær finni sér „hvorki rót né jarðveg“ á Íslandi. Sjálfur „endar hann svo sem fórnarbukkur einhvers konar afskræminga af þessum hugboðum sínum. Hann er brotasilfur og villuráfandi anarkisti, en hæfileikamaður.“[4]

„Svo mikið er víst,“ segir um meðhöndlun viðfangsefnisins, í ritdómi í Vísi, „að sá heimur baðstofunnar sem hér er lýst er heimkynni kúgunar og þrælsótta, hjátrúar og hindurvitna, hungurs og ágirndar, girndarbruna – en aldrei ástar. Upp úr þeim heimi eru þau sprottin Friðrik og Agnes á aftökustaðnum í Þrístöpum í upphafi sögunnar.“[5]

Viðtökur bókarinnar virðast almennt hafa verið góðar. Gagnrýnendur veittu sameiginleg verðlaun þessi ár, sem nefndust silfurhesturinn. Þau hlotnuðust Hannesi Péturssyni fyrir ljóðabók, en Yfirvaldið var í öðru sæti við talningu stiga í því kerfi sem beitt var við valið. Þá var bókin, ásamt tveimur bókum Guðbergs Bergssonar, framlag Íslands til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, árið 1974.

Árni Bergmann sagði, í ritdómi í Þjóðviljanum, „ljóst, að Þorgeir hefur ekki áhuga fyrst og fremst á óhugnanlegu og fáránlegu morði, sem kemst upp fyrr en varir. Hann leggur heldur ekki stund á ýtarlega lýsingu einstakra persóna. … Það liggur hinsvegar beinast við að taka þessari skáldsögu sem lýsingu á aldarfari, að glæpamálum tímans sé þá einkum ætlað að draga fram vissan skilning á þeim tíma …“ Söguefnið sé sett fram út frá stéttaskilningi Þorgeirs þar sem fátæklingar „gjalda með lífi sínu eða húð“ og „sá einn sleppur sem semur við yfirvaldið.“ Þessi „pólitísering“ sé „í stórum dráttum sannfærandi, en þó ekki alltaf.“ Lokaorð umfjöllunarinnar eru svohljóðandi: „Á þessum vetri er góður fengur að slíkri sögu, og alls ekki vegna þess eins að vertíðin er að öðru leyti í rýrara lagi.“[1] Í sama streng tekur Gunnar Stefánsson sem skrifar ritdóm í Tímann, sem líkur á þeim orðum að bókin sé „kærkomin í ördeyðu íslenzkra skáldsagna á þessu ári.“[6]

Í „hugleiðingu“ sem skrifuð er í Tímann næsta febrúar nefnir höfundur að bókin hafi „yfirleitt hlotið góða dóma. Mönnum virðist koma saman um, að sagan sé vel skrifuð og margir telja hana standa framarlega meðal þeirra skáldverka er birtust síðastliðið ár – og jafnvel fremst.“ Höfundur hugleiðingarinnar kallar hins vegar eftir „bjartsýni, lífstrú og baráttugleði“ sem má skilja að honum þyki vanta í bók Þorgeirs.[7] Árni Þórarinsson skrifaði grein um ágalla bókmenntaformsins sjálfs, heimildaskáldsagna, í tímaritið Eimreiðin, sem lýkur á þessum orðum: „Vörumerki Yfirvaldsins er: „skáldsaga eftir beztu hemildum“. En beztu heimildir skáldskapar er því miður sjaldnast að finna í raunsönnuðum staðreyndum.“[8]

Guðmundur G. Hagalín sá kost og löst á bókinni í umfjöllun fyrir Morgunblaðið. Hann er ósammála þeim samfélagslega útgangspunkti sem höfundur og gagnrýnendur virðast sammála um að liggi að baki bókinni, og segir, í samhengi við aftökurnar:

Gæsalappir

… hvað var það svo annað en einmitt ábatagirndin í sinni verstu og hömlulausustu mynd, – þar með stjórnlaus og ábyrgðarlaus kynferðileg girnd – sem náði slíkum tökum á furðumörgum í Húnavatnssýslu og seyrði svo almenningsálitið þar, að úr varð hrein og bein vargöld. Og það er svo sannleikur, sem ekki verður haggað, að gegn henni beitti Yfirvaldið sér af miklum hyggindum, þrautseigju og hugrekki, vitandi um sig setið af mönnum, sem einskis svifust, og hann náði því marki, að setja niður þessa hörmulegu vargöld með þeim fastatökum, sem ofbjóða þorgeiri. … Og hvort mun ekki fátæk og lítils megnug alþýða í Húnavatnssýslu hafa mátt fagna því að vargöldin var kveðin niður?“[3] Niðurstaða umfjöllunarinnar er að þrátt fyrir „auðsjáanlega hæfileika sem rithöfundur og skáld“ hafi Þorgeir af þessum sökum „misst þess marks, sem hann miðaði á, þá er hann réðst í að semja þessa heimildasögu.“[3] Ári síðar skrifar Guðmundur aðra grein í Morgunblaðið og ítrekar afstöðu sína: Sýslumaðurinn Björn Blöndal hafi „ekki með góðu geði kveðið upp dómana“ en verið skyldur til að dæma samkvæmt lögum og auk þess „gert sér ljóst … að aftaka hinna dauðadæmdu mundi reynast sú viðvörun til óaldarsegggja í Húnaþingi og víðar, sem þeir mundu láta sér helzt að kenningu verða.“[2]

— .

Árið 1975 kom Yfirvaldið komu út dönsk þýðing Yfirvaldsins. Voru ritdómar um þýðinguna „mjög lofsamlegir“ að sögn Þjóðviljans. Inga Kuntsson hafi í sæsnka blaðinu Arbetet sagt Yfirvaldið vera „fyrsta árangursríka tilraun Íslendings til að skrifa heimildaskáldsögu“.[9]

Tilvitnanir

[breyta | breyta frumkóða]
  • „Tilveran er sóun. Þrotlaus, glaðleg og forsjárlaus sóun.“
  • „Tilveran er gegndarlaus sóun. … Við erum öll verkfæri þessarar sóunar, hvert með sínum hætti. Sóunin er Guði þóknanleg. Það er ábatagirndin, sem er fjandsamleg öllu því, sem lífsanda dregur.“
  • Um frönsku byltinguna 1789: „Þá flaut blóðið þar um strætin og hausarnir skoppuðu af kónginum og sýslumönnunum og prestunum. Og svo söng það um jafnræði og bræðralag.“
  • „Stundum að minnsta kosti er nútíðin forsenda fyrir réttum spurningum við svörum fortíðarinnar.“
  • „Það glamrar í hlekkjunum þegar fanginn sekkur á hnén. Hann felur andlitið í höndum sér og rær fram og aftur. Voldugar herðar hans skjálfa. – Guð minn góður, umlar hann. Hvernig á að borga þetta allt?“
  1. 1,0 1,1 „Spurningar og svör um glæpi“, Árni Bergmann í Þjóðviljanum, 9.12.1973, bls. 9.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Guðmundur G. Hagalín, „Hið mikla geymir minningin en mál er að linni“ í Morgunblaðinu, 6.12.1974, bls. 6.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Guðmundur G. Hagalín, „Gömul harmsaga í fornum og nýjum fötum“, í Morgunblaðinu, 18. janúar 1974.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 „Þetta er svo nauðalíkt Húnvetningum“, í Þjóðviljanum, 21.12.1973, bls. 9.
  5. 5,0 5,1 5,2 Ólafur Jónsson, „Ábati og sóun“, í Vísi, 8.12.1973.
  6. „Á botni heimsins“, í Tímanum, 20.12.1973, bls. 18.
  7. „Hugleiðingar um Yfirvaldið, Tíminn Sunnudagsblað, 11.2.1974, bls. 96–94.
  8. „Bókmenntir eftir beztu heimildum“ í Eimreiðinni, 1. hefti 1974, bls. 65.
  9. „Fyrsta heppnaða íslenska heimildasagan“, frétt í Þjóðviljanum, 30.10.1975, bls. 2.