Þorgeir Þorgeirson gegn íslenska ríkinu
Þorgeir Þorgeirson, rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður, höfðaði mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu árið 1988. Þorgeir kærði ríkið fyrir brot á 6. og 10. greinum Mannréttindasáttmála Evrópu, þegar hann var dæmdur, árin 1986 og 1987, fyrir greinar sem hann skrifaði um lögregluofbeldi í Morgunblaðið árið 1983. Þetta var fyrsta mál Íslendings fyrir dómstólnum og fyrsta mál sem ólöglærður maður flutti þar sjálfur. Dómstóllinn dæmdi Þorgeiri í vil, árið 1992 og taldi sýnt að meiðyrðalöggjöf Íslands fæli í sér brot á tjáningarfrelsinu og 10. grein mannréttindasáttmálans. Málaferlin og dómurinn höfðu viðamiklar afleiðingar.
Forsaga
[breyta | breyta frumkóða]Í fyrri blaðagreininni af þeim tveimur sem kært var fyrir, reifaði Þorgeir tilvik lögregluofbeldis. Þetta var í kjölfar þess að alls tíu tilfelli lögregluofbeldis höfðu verið kærð, á árunum 1979 til 1983. Einn kærenda var Skafti Jónsson, blaðamaður. Í máli hans, svokölluðu Skaftamáli, var einn af þremur ákærðum lögregluþjónum að endingu sakfelldur. Var það mál meðal tilefna fyrir greinaskrifum Þorgeirs.
Greinarnar sjálfar og ákæra
[breyta | breyta frumkóða]Greinarnar tvær sem Þorgeir var að endingu kærður og dæmur fyrir birtust í Morgunblaðinu í desember 1983. Sú fyrri birtist þann 7. desember og hét „Hugum nú að: opið bréf til Jóns Helgasonar dómsmálaráðherra“.[1] Síðari greinin birtist 20. desember undir fyrirsögninni: „Neyttu á meðan á nefinu stendur“.[2] Í greinunum kom fram að lögreglan beitti oftsinnis ofbeldi í starfi sínu og hafi menn hlotið líkamstjón af, jafnvel örkuml. Fyrir atburðunum sem Þorgeir greindi frá í blaðagreinunum hafði hann heimildir fórnarlamba, vitna og heilbrigðisstarfsfólks.
Þann 27. desember 1983 lagði Lögreglufélagið fram beiðni til ríkissaksóknara um að rannsaka málið.Þann 13. ágúst 1985, eða um einu og hálfu ári síðar, stefndi ríkissáksóknari, þá Þórður Björnsson, Þorgeiri fyrir Sakadóm Reykjavíkur fyrir „ærumeiðandi aðdróttanir“.[3] Viðurög voru allt að þriggja ára fangelsi. Tilefnið var eftirfarandi orðalag úr fyrri greininni:
- „Einkennisklædd villidýr“, tvisvar sinnum
- „Stofufélagar þessa unga manns sögðu mér að bæklun hans væri af völdum útkastara og lögreglu. Þessu vildi ég þá ekki trúa svona fyrirvaralaust og spurði bæði lækna og sjúkralið að þessu. Jú, rétt var það: þarna var komið eitt af fórnardýrum löggæslunnar í næturlífi Reykjavíkur.“
- „Þá brá svo við að hvarvetna hitti ég fólk sem kunni sögur af mönnum sem lent höfðu jafn illa eða ver í þessum einkennisbúnu óargadýrum. Sumir höfðu jafnvel verið sendir aftur á vitsmunastig bernsku sinnar með kyrkingatökum sem lögreglumenn og útkastarar kunna en fara ekki með af skynsamlegu viti heldur fautaskap og hugsunarleysi. Sögur þessar eru svo gjörsamlega samhljóða og margar að það verður æ örðugra að vísa þeim frá sér eins og hverjum öðrum uppspuna.“
- „fórnardýr lögregluhrottanna.“
- „… að lofa hrottum og illmennum að þægja sínu brenglaða tilfinningalífi …“
– ásamt þessari málsgrein úr síðari greininni:
- „Aðfarirnar lýstu svo mætavel þeirri mynd sem almenningur hlýtur óðum að vera að gera sér af lögreglu í sjálfsvörn: bolabrögð, falsanir, lögbrot, hindurvitni, flaustur og ráðleysi.“[4]
Þorgeir var kærður á grundvelli 108. gr. hegningarlaga nr. 19 frá 1940. Í lagagreininni sagði þá orðrétt:
Hver, sem hefur í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum við opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu, eða við hann eða um hann út af því, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 3 árum. Aðdróttun, þótt sönnuð sé, varðar sektum, ef hún er borin fram á ótilhlýðilegan hátt.“
— .
Það var síðasta setningin, forsenda ákæru og síðar dóms, að ekki mætti segja satt um opinbera starfsmenn væri það gert „ótilhlýðilega“ sem myndi að endingu verða viðfangsefni Mannréttindadómstólsins.
Þorgeir sagði um kæruna að hún væri „vitaskuld byggð á misskilningi og takmarkaðri lestrargetu kæruaðilanna.“ Eftir að kæra barst gaf Þorgeir raunar út ljóðabókina Kvunndagsljóð og kyndugar vísur sem mátti skilja að væri að nokkru sprottin af þessum átökum.[5]
Fyrir undirrétti
[breyta | breyta frumkóða]Dómsmálið á hendur Þorgeiri hófst 17. september 1985 og stóð yfir í Sakadómi Reykjavíkur, sem þá hét, allan þann vetur, til 28. apríl 1986. Dómari í málinu var Pétur Guðgeirsson.
Í fyrstu yfirheyrslu réttarhaldanna var Þorgeir spurður hvort hann gæti staðið við tilvitnanirnar sem hann var kærður fyrir. Hann sagðist ekki telja sig þurfa að gera það, enda væru þær, slitnar úr samhengi, ekki lengur hans höfundarverk.[6]
Í næsta dómshaldi, 24. september 1985, kröfðust Þorgeir og verjandi hans þess að dómari viki úr sæti, þar sem hann hefði komið fram fyrir hönd ákæruvaldsins að fulltrúa þess fjarstöddum. Kröfunni var hafnað.
Í lok vetrar, eftir að rétturinn hafði komið tólf sinnum saman,[6] fór dómstóllinn fram á skriflega málsvörn frá Þorgeiri og verjanda hans. Í málsvörninni sagðist Þorgeir líta svo á að með skrifum sínum hefði hann verið að sinna þeirri skyldu sinni sem rithöfundur, í kjölfar Skaftamálsins að grennslast fyrir um þjóðarandann og greina frá niðurstöðum sínum án þess að skorast undan að segja sannleikann. Þetta megi vera ljóst hverjum sem lesi greinarnar með þá fyrirætlun að skilja hvað þar er skrifað. Megintilgangur skrifanna hafi þó verið að fara þess á leit við ráðherra að skipa rannsókn á því hvort almannarómur hefði rétt eða rangt fyrir sér í þessum málum.[6]
Undir lok réttarhaldsins gerði Þorgeir kröfu um að dómari og saksóknari gengjust undir lestrarpróf:
Mig langar til þess að biðja um það, herrar mínir – og það er mín seinasta ósk hér í þessu réttarhaldi – að þið báðir tveir: dómari og saksóknari, leggið fram vottorð um lestrarkunnáttu ykkar. Þá á ég við tæknilega lestrarkunnáttu. Þetta gæti t.d. verið fullnaðarpróf í lestri eða lestrarpróf sem þið tækjuð nú í vor eftir stöðlum Barnaskóla Reykjavíkur. Forsendur þessarar beiðni – sem með nokkrum hætti er mín hinsta ósk í þessu máli – get ég rökstutt nánar ef krafist verður.[4] “
— .
Verjandi Þorgeirs í málinu, Tómas Gunnarsson, gerði kröfu um að beiðnin yrði færð til bókar. Það gerðist ekki. Verjandi skrifaði sakadómara bréf og ítrekaði beiðnina seinna sama dag, þar sem sagði m.a.:
Ákærði bað um að lögð yrðu fram vottorð um lestrarkunnáttu dómarans og ríkissaksóknarans í málinu … Dómarinn og ríkissaksóknarinn hlustuðu á ákærða lesa upp beiðnina, en síðan lét dómarinn sem hann hefði ekki heyrt hana né heldur ósk mína sem verjanda um að beiðnin yrði bókuð. Var beiðnin því ekki færð til bókar.[4]“
— .
Krafan var hunsuð af bæði saksóknara og dómara og kemur ekki fyrir í réttarskjölum. Þorgeir sagðist ekki ætla að hlíta dómi um ritstörf sín af hendi manna sem ekki treystu sér í lestrarpróf. Hann sagði ennfremur:
Tilgangurinn með því að biðja þá um að fara í lestrarpróf var í sjálfu sér hávísindalegur. Ég vildi komast að því hvaða tegund ólæsi þeir væru haldnir. Ólæsi getur verið tvenns konar – tæknilegt ólæsi, þ.e. að menn kunna ekki að kveða að. Og svo huglægt ólæsi. Séu þeir haldnir huglægu ólæsi, þá lesa þeir kannski upp á 10, en ólæsi þeirra er þá geðrænt og getur stafað af pólitík eða öðrum huglægum hömlum.[4]“
— .
Um „konunglegt ólæsi eða lestrarlag hinna skriftlærðu“ skrifaði Þorgeir frekar, meðal annars í greininni „Analfabetismus regalis“ sem birtist í Morgunblaðinu.[7]
Dómur fellur í undirrétti
[breyta | breyta frumkóða]Dómur féll ákæruvaldinu í vil þann 16. júní 1986. Dómari var Pétur Guðgeirsson. Var Þorgeir dæmdur sekur í nokkrum liðum[4] og gert að greiða sekt að upphæð 10 þúsund krónur auk sakarkostnaðar. Verjandinn var „víttur harðlega“ fyrir tilefnislausar málsýfingar.[8]
Áfrýjun til Hæstaréttar
[breyta | breyta frumkóða]Daginn eftir úrskurðinn, 17. júní 1986, birtist fyrirsögnin „Aðför að ritfrelsinu“ á baksíðu Þjóðviljans, í tilefni dómsins. Var þar haft eftir Þorgeiri: „Ef þessi dómur fær að standa, þá er ekkert ritfrelsi í landinu.“ Þorgeir hafði þá þegar áfrýjað dómnum til Hæstaréttar en sagðist ekki búast við annarri niðurstöðu: „Þar sitja sömu fasistarnir og í undirrétti“ sagði hann og bætti við: „Hér hefur verið gerð aðför að starfandi rithöfundi eftir nákvæmlega sömu formúlu og í Hitlers-Þýskalandi eða í Sovétríkjunum í dag. Hér hefur rithöfundur verið dreginn fyrir sakadóm og dæmdur fyrir ritstörf sín og aðferðin sem beitt var við það er mikið alvörumál.“ Þá þegar lýsti Þorgeir því yfir að hann væri tilbúinn að kæra dóminn til Mannréttindadómstólsins í Strassbourg.[9]
Rökstuðningur fyrir áfrýjun til Hæstaréttar hvíldi meðal annars á því að sama persónan gæti ekki tekið að sér hlutverk dómara og ákæruvalds fyrir rétti.[6]
Eftir áfrýjun til Hæstaréttar skipaði Hæstiréttur Þorgeiri verjanda, Sigurmar K. Albertsson, 10. apríl 1987. Þorgeir sagðist hafa frétt af skipun verjandans tæpum mánuði síðar, í byrjun maí. Sigurmar hafði verið verjandi ritstjóra Spegilsins í máli sem var höfðað gegn honum fyrir „myndbirtingu og skrif sem þóttu meiðandi“ skömmu áður. Sigurmar tapaði því máli fyrir hönd skjólstæðings síns. Þorgeir óskaði eftir opinberri rannsókn á skipan verjandans og tilteknum atriðum í meðferð málsins, við ríkissaksóknara.[10] Þorgeir afhenti dómara kröfu sína um opinbera rannsókn við upphaf málflutnings en yfirgaf síðan réttarhaldið „því að ég vildi ekki hafa nein afskipti af því að farið væri að flytja málið í mína óþökk.“[11]
20. október 1987 féll dómur Hæstaréttar sem staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms gegn Þorgeiri. 23. október birtist yfirlýsing frá Þorgeiri í Morgunblaðinu þar sem hann segist hafa „þegar þurft að lesa þau ummæli í bandarísku tímariti að „Þorgeir Þorgeirsson (svo) njóti nú þeirra fríðinda að hafa verið dæmdur fyrir að segja sannleikann“. Það sé hins vegar ekki alls kostar rétt, þar sem dómurinn hafi byggst á þeim „útúrsnúningi“ að Þorgeir hafi í greininni átt við alla lögreglumenn í Reykjavík, þegar augljóst hafi mátt vera af samhengi setninganna sem dæmt var fyrir að það hefði hann aldrei meint „enda held ég“ sagði hann, „að slíkt sé varla álit nokkurs manns utan Sakadóms og Hæstaréttar“. Vitnar Þorgeir í sjálfan sig úr upphaflegu blaðagreinunum, þar sem segir: „Margt gott hefi ég séð til lögreglunnar hér í bæ og margan fyrirmyndarmanninn hefi ég þar hitt.“[12]
Einn dómari í dómnum, Gaukur Jörundsson, skilaði því séráliti að Þorgeir væri saklaus í málinu á grundvelli stjórnarskrárákvæðisins um tjáningarfrelsi. Sagði Þorgeir að það sé eins og honum einum hafi komið það ráð til hugar að lesa greinina „enda reynir hann að bjarga því sem bjargað verður og bendir á að það sé ekki nema grundvalarréttur minn og annarra að segja kost og löst á heilli stétt manna í blaðagrein.
Ákæra til Mannréttindadómstólsins
[breyta | breyta frumkóða]Sumarið 1988 kærði Þorgeir dóm Hæstaréttar til mannréttindanefndar Evrópuráðsins. Sú nefnd velur hvaða mál fara fyrir Mannréttindadómstólinn.
Um kæruna sagði Þorgeir: „Ég kæri ekki til mannréttindanefndarinnar út af neinum smáatriðum, heldur er ég í raun að kæra allt íslenska réttarkerfið sem ég álít meingallað og vart sæmandi nokkru lýðræðisríki.“[13] Var þá á fimmta ár liðið frá birtingu greinanna sem Þorgeir var dæmdur fyrir. „Mér skilst,“ sagði hann í því samhengi, „að mál gangi nokkuð hratt fyrir sig þarna úti í Strazburg. Í það minnsta hraðar en í íslenzka réttakerfinu sem er það hroðalegasta sem ég hef horft framan í um ævina.“[13] Tæpum fjórum árum síðar, áður en Mannréttindadómstóllinn hafði kveðið upp úrskurð sinn, sagði Þorgeir um mikilvægi málsins í sínum huga:
Það er alveg ótrulega lítið ritfrelsi hér. Á meðan 108. grein hegningarlaga er óbreytt og í gildi lít ég svo á að hér sé ekki ritfrelsi. Það er af þeirri einföldu ástæðu að í lok [hennar] segir: „Aðdróttun, þó sönnuð sé, varðar sektum“. Þarna er sjálfur sannleikurinn gerður refsiverður ef ákveðin stétt manna á í hlut, það er að segja opinberir starfsmenn. Sannleikurinn er refsiverður ef hann er ekki sagður svo kurteisislega að hann skilst ekki.[14]“
— .
Tómas Gunnarsson var meðflutningsmaður Þorgeirs í málinu. Þeir gerðu kröfur í nokkrum liðum. Meðal annars lögðu þeir fram kröfu um 2 milljón króna bætur vegna tekjumissis sem Þorgeir hefði mátt þola af breyttri stöðu sinni sem rithöfundar gagnvart útgefendum og íslenskum bókamarkaði. Um kröfuna sagði Þorgeir: „Mín staða sem nokkurs konar uppreisnarmanns gegn kerfinu gerði það að verkum að mínar bækur urðu lélegri söluvara sem endaði með því að ég stóð uppi án útgefanda.“[15]
Mannréttindanefnd Evrópuráðsins skipaði tveimur kæruliðum Þorgeirs til Mannréttindadómstólsins:
- Þeirri að dómari hefði ítrekað tekið sér stöðu ákæruvalds þegar saksóknari var fjarri, sem tíðkaðist þá á Íslandi. Hann væri því ekki hlutlaus, sagði Þorgeir í málsgögnum, sem dómari. Það teldist varða við 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu;
- Að með dómnum hafi verið brotið á tjáningarfrelsi Þorgeirs, sem myndi varða 10. grein sáttmálans. Aðrir kæruliðir töldust ekki dómtækir.[6]
Málið var dómtekið sem „Þorgeir Þorgeirson gegn Íslandi“, mál 13778/88.
Dómar Mannréttindadómstólsins
[breyta | breyta frumkóða]Mannréttindadómstóllinn kvað upp úrskurð sinn 25. janúar 1992.
Dómur Mannréttindadómstólsins um brot á 6. grein
[breyta | breyta frumkóða]Um annan ákæruliðinn, tvöfalt hlutverk dómara sem einnig gegndi hlutverki ákæruvalds, sem hefði varða brot á 1. málsgrein 6. greinar Mannréttindasáttmála Evrópu um réttinn á sanngjarnri málsmeðferð fyrir dómstólum, sagði Mannréttindadómstóllinn í úrskurðinum, að þegar hafi margvísleg gagnrýni komið fram á þá skipan og lagafrumvarp verið lagt fram á Alþingi Íslendinga, til breytinga á henni, það er að réttarhaldi skyldi frestað ef fulltrúi ákæruvaldsins væri ekki viðstaddur réttinn. Lögunum væri ætlað að taka gildi 1. júlí 1992.
Aukinheldur hefðu þau sex skipti sem fulltrúi ákæruvaldsins var fjarstaddur réttarhöldin yfir Þorgeiri, með einni undantekningu, sem var sýning á sjónvarpsþætti af myndbandi, ekki falið í sér vitnaleiðslur eða að lögð væru fram sönnunargögn. Með öðrum orðum hafi hlutverkaskiptin í þessu máli verið afleiðingalaus.[6]
Mannréttindadómstóllinn dæmdi Þorgeiri fé úr ríkissjóði, alls 530 þúsund krónur, vegna kostnaðar við rekstur málsins. Þorgeir sagði það vera um sjöunda part af þeim kostnaði sem hann hefði borið vegna málsins „En ég læt mér það alveg nægja,“ sagði hann. „Mér finnst þetta líka góð útkoma og raunverulega gleðiefni að þetta skuli ekki vera peningamál.“ Hafnað var kröfu um bætur vegna tekjumissis.[15]
Þorgeir sagði meðal annars, í kjölfar dómsins, að hann vonaðist til að niðurstaðan yrði til þess að 108. grein hegningarlaga yrði breytt eða hún felld niður: „En jafnvel þótt svo verði ekki gert, þá sýnist mér að Hæstiréttur muni þurfa í framtíðinni að fara varlegar en hingað til í að túlka hana.“ Þorgeir þakkaði meðflutningsmanni sínum, sem var áður verjandi hans fyrir sakarrétti Reykjavíkur, Tómasi Gunnarssyni, fyrir að vinna „feykilega vel í þessu máli frá upphafi,“ og sagði niðurstöðuna honum að þakka, ef einhverjum.[15]
Dómur Mannréttindadómstólsins um brot á 10. grein
[breyta | breyta frumkóða]Mannréttindadómstóllinn dæmdi Þorgeiri í hag í þeim lið ákærunnar sem snerist um tjáningarfrelsi. Dómstóllinn komst einróma að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið, gegn Þorgeiri, á 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi.
Þá komst dómstóllinn aukinheldur að þeirri niðurstöðu að dómurinn hefði þó ekki falið í sér brot á íslenskum lögum heldur verið í samræmi við 108. gr. laga og dómahefð á landinu.[6] Með öðrum orðum fólu, samkvæmt dómstólnum, lögin sjálf í sér mannréttindabrot, en ekki dómurinn gegn Þorgeiri einn og sér.
Ennfremur minnti dómstóllinn, í 63. grein dómsins, berum orðum á að tjáningarfrelsi væri ein af lykilundirstöðum lýðræðislegs samfélags, gildi ekki aðeins um upplýsingar eða skoðanir sem hljóti jákvæðar móttökur, móðgi engan eða séu veigalitlar, heldur einnig um þær sem móðga, „sjokkera“ eða valda fólki ónæði. Allar undanþágur frá tjáningarfelsinu þurfi að túlka þröngum skilningi og stjórnvöld að sýna fram á nauðsyn þeirra með sannfærandi hætti.[6]
Þá var því hafnað í 64. grein dómsins, sem haldið var fram í vörn íslenska ríkisins, að greina mætti milli pólitískrar umræðu og annarrar umræðu sem varðaði almenning. Þeirri vörn ríkisins að Þorgeir hefði þurft að sýna fram á sanngildi þeirra staðhæfinga sem hann hafði eftir viðmælendum var einnig hafnað, í 65. grein dómsins. Í 66. grein hafnaði dómurinn þeirri fullyrðingu íslenska ríkisins að ásetningur höfundar hefði fyrst og fremst verið að rægja lögreglulið Reykjavíkur. Höfundur hafi tekið skýrt fram að hann teldi tiltölulega fáa einstaklinga bera ábyrgð á ofbeldinu sem um var rætt. Réttinum þótti sýnt að hann hefði ætlað að hvetja Dómsmálaráðuneytið til að höfða rannsókn á málunum. Í 67. grein dómsins segir dómstóllinn að umfjöllunarefni greina Þorgeirs hafi varðað almenning alvarlega. Tungumálið sem beitt hafi verið geti ekki talist óþarflega harkalegt. Í 68. grein dómsins segist dómstóllinn hafa komist að þeirri niðurstöðu að ákæran og dómurinn á hendur Þorgeiri hafi verið til þess fallin að draga úr opinni umræðu um mál sem varða almenning.
Sérálit Garðars Gíslasonar
[breyta | breyta frumkóða]Í fjölskipuðum dómi Mannréttindadómstólsins var einn íslenskur dómari, Garðar Gíslason. Hann skilaði séráliti þar sem hann áleit íslenska ríkið saklaust af broti á 10. grein Mannréttindasáttmálans, og að ekki hefði verið brotið á tjáningarfrelsi Þorgeirs.
Áhrif og afleiðingar dómsins
[breyta | breyta frumkóða]Málaferlin höfðu veruleg áhrif á íslenskt réttarfar.[16] Beinar afleiðingar á meiðyrðalöggjöf eru tíundaðar hér að neðan. Auk þeirra er almennt talið að þær breytingar sem voru þegar yfirstandandi er Mannréttindadómstóllinn kvað upp úrskurð sinn, sem dómstóllinn vísaði til í rökstuðningi sínum fyrir sýknudómi yfir íslenska ríkinu fyrir meint brot á 6. grein Mannréttindasáttmálans, um réttinn á sanngjarnri málsmeðferð, hafi að miklu leyti stafað af þeim þrýstingi sem málaferlin sköpuðu.
Mannréttindasáttmáli Evrópu lögfestur
[breyta | breyta frumkóða]Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur í kjölfar dómsúrskurðarins. Lagafrumvarp þess efnis var samþykkt af Alþingi árið 1994 sem lög nr. 62/199).[17] Síðan þá gilda því ákvæði sáttmálans sem lög á Íslandi. Enn sér ekki fyrir endann á þýðingu þess, þar sem staða ákvæða hans gagnvart „ósamþýðanlegum“ eldri lögum skýrist ekki síst gegnum meðferð dómstóla.[18]
Beinar afleiðingar á meiðyrðalöggjöf
[breyta | breyta frumkóða]Á 116. löggjafarþingi Alþingis 1992, mæltu Kristinn H. Gunnarsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrir frumvarpi til laga um að fella 108. gr. hegningarlaganna burt með öllu og var þar vísað til úrskurðar Mannréttindadómstólsins í máli Þorgeirs.[19] Frumvarpið varð ekki að lögum. Nefnd lagði til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar.[20]
8. júlí 1992 skipaði þáverandi Dómsmálaráðherra, Þorsteinn Pálsson, nefnd sem falið var að gera tillögur til ráðuneytisins um viðbrögð við dóminum. Nefndin ritaði ráðherranum bréf 9. október 1992, þar sem fram kom það álit hennar að með því að inna af hendi greiðslur til Þorgeirs Þorgeirsonar, eins og krafist var í dóminum, og kynna dóminn á Íslandi, væri fullnægt þeim kröfum sem þyrfti til að bregðast við dóminum. Í framhaldi af því vann nefndin að lagafrumvarpi um lögfestingu mannréttindasáttmálans og skilaði slíku frumvarpi til Dómsmálaráðherra vorið 1993.
10. apríl 1994 skilaði nefndin greinargerð til ráðherra þar sem fram kom að ekki hefði náðst samstaða um afstöðu nefndarinnar til 108. greinarinnar. Í greinargerðinni voru þess í stað kynntir þrír kostir auk sérálits Ragnars Aðalsteinssonar. Ragnar lagði til að 108. greinin yrði afnumin með öllu með þeim rökum að:
- hún sé til þess fallin að takmarka frelsi borgaranna til að tjá sig um málefni sem geta varðað almenning mjög miklu,
- hún samræmist ekki þeirri grundvallarreglu, að allir skuli jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á sömu lagavernd,
- þrátt fyrir afnám greinarinnar sé löggæslumönnum og öðrum opinberum starfsmönnum við frmakvæmd starfa sinna veitt næg lagavernd.
5. janúar 1995 var Eiríki Tómassyni lagaprófessor falið að endurskoða 108. greinina á grundvelli nefndarstarfsins og semja lagafrumvarp. Eiríkur gerði tillögu sem varð að frumvarpi og loks lögum, vorið 1995. Með þeim var 108. greinin felld úr gildi, en verndun opinberra starfsmanna fyrir ærumeiðingum skilgreind í 242. gr. laganna, án þess að tiltekin séu „ótilhlýðilega“ framborin sannindi.[21]
Síðari skírskotanir í tengslum við meiðyrðalöggjöf
[breyta | breyta frumkóða]Eiríkur Jónsson vísaði enn til máls Þorgeirs í rökstuðningi fyrir tillögu að þingsályktun um að afnema lagaákvæði um refsingar við ærumeiðingum, á 133. löggjafarþingi 2006–2007. Þingsályktunartillagan var samþykkt.[22]
Umfjöllun og viðbrögð fjölmiðla
[breyta | breyta frumkóða]26. júní birtist forsíðuviðtal við Þorgeir í dagblaðinu Tíminn undir fyrirsögninni „Réttlætið sigraði“. „Þetta er ákaflega gaman þegar réttlætið nær fram að ganga, svo sjaldan sem það nú gerist,“ sagði Þorgeir og bætti við: „Ég lít reyndar ekki á þetta sem mitt mál, réttlætið hefur sigrað.“ Þorgeir sagði meiðyrðalögin sem hann var dæmdur fyrir brot á vera „gamall nýlenduarfur, raunverulega sett í upphafi til að vernda mannorð konungsböðulsins.“[23] Fjöldi blaðamanna og talsmanna þeirra lýstu og yfir fögnuði vegna niðurstöðu málsins.
Sigurður Már Jónsson skrifaði grein í Pressuna 2. júlí 1992, undir fyrirsögninni „Það má móðga, hneykla og raska“.[24] Segir höfundur greinarinnar „einföldun að halda því fram að niðurstaðan lúti aðeins að 108. grein almennra hegningarlaga,“ heldur megi í henni „finna mun mikilvægari skilaboð um frelsi manna til að tjá sig í ræðu og riti.“ Setur höfundur málið í samhengi við fyrri meiðyrðamál á Íslandi, málið gegn Speglinum, málið gegn Þórbergi Þórðarsyni, þegar hann var dæmdur fyrir að „meiða æru Hitlers“, málið gegn skopmyndateiknaranum Sigmund, og fleiri mál.
Í Alþýðublaðinu birtist leiðari undir fyrirsögninni „Sigur Þorgeirs“ þar sem sagði meðal annars:
Úrskurður Mannréttindadómstólsins er vendipunktur fyrir íslenskt dómskerfi. Þetta er fyrsti dómurinn sem gengur gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstólnum. Dómstóllinn hefur í raun komist að þeirri niðurstöðu að 108. grein almennra hegningarlaga er fáránleg tímaskekkja; leifar frá liðinni stjórntíð.“ Ennfremur: „Þeim sem ekki er sama um tjáningarfrelsi á Íslandi, yfirgang opinbers yfirvalds og geðþóttaákvarðanir stjórnsýslunnar standa í djúpri þakkarskuld við Þorgeir Þorgeirson rithöfund. Hann neitaði að láta úrelt ólög sem vernda stjórnkerfið kúga sig og var reiðubúinn að fórna tíma, peningum, starfsstöðu og jafnvel æru til að hnekkja miðaldardómi íslenskra dómstóla fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Flestir hefðu beygt sig fyrr. Þorgeir Þorgeirson hefur sýnt sjaldgæft félagslegt hugrekki í þessu máli ….[25]“
— .
Þorgeir þakkaði aftur á móti Tómasi Gunnarssyni, hæstaréttarlögmanni og meðflutningsmanni Þorgeirs, sem hefði skilið „lögfræðilega naívistann“ í Þorgeiri,
enda bæði háskólamenntaður og gegnumheiðarlegur fræðimaður. Við urðum „tímið“ sem lögðum fasistaákvæði 108. greinarinnar að velli. Og komum til leiðar þó nokkrum endurbótum á réttarkerfinu. En hann stóð alla tíð á bak við mig og leiðrétti barnalegar hugmyndir mínar um réttvísina, án þess að drepa niður kraft naívistans í mér. Þolinmæði hans og hæverska í bland við ákafa minn leiddu okkur til sigurs, því ég held að það hafi skipt máli að mér var lofað að tala sjálfum líka. Það eins og hreinsaði andrúmsloftið. En það var Tómas sem einlægt sá um að ég yrði okkur ekki til minnkunar.[26]“
— .
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Þorgeir Þorgeirson, „Hugum nú að: opið bréf til Jóns Helgasonar dómsmálaráðherra“, í Morgunblaðinu 7. desember 1983, bls. 38 (II)
- ↑ Þorgeir Þorgeirson, „Neyttu á meðan á nefinu stendur“, í Morgunblaðinu 20. desember 1983, bls. 42–43
- ↑ Móðgun og skammaryrði; grein í Alþýðublaðinu 1986
- ↑ 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 „Fer saksóknari ríkisins í lestrarpróf?“ frétt í DV 10. maí 1985, bls. 64
- ↑ „Ríkissjóður inni á manni eins og ómegð“ viðtal í Helgarpóstinum 27. febrúar 1986, bls. 18
- ↑ 6,0 6,1 6,2 6,3 6,4 6,5 6,6 6,7 Úrskurður Mannréttindadómstólsins í máli Þorgeirs Þorgeirsonar gegn Íslandi, nr. 13778/88
- ↑ Þorgeir Þorgeirson, „Analfabetismus regalis“, í Morgunblaðinu, 21. mars 1987, bls. 22
- ↑ „Þorgeir dæmdur fyrir ærumeiðandi ummæli“, frétt í Morgunblaðinu, 17. júní 1986
- ↑ „Aðför að ritfrelsinu“, Þjóðviljinn, 17. júní 1986, bls. 20.
- ↑ „Óskar eftir opinberri rannsókn á málsmeðferð“ í Morgunblaðið 23. september 1987, bls. 4
- ↑ „Biður um opinbera rannsókn“, frétt í Tímanum, 29. september 1987, bls. 6
- ↑ Þorgeir Þorgeirson, „Að fengnum dómi“, í Morgunblaðinu 23. október 1987, bls.36
- ↑ 13,0 13,1 „Þorgeir kærir mannréttindabrot“, frétt í Þjóðviljanum, 11. júní 1988, bls. 3
- ↑ „Sannleikurinn er refsiverður“ viðtal í Pressunni, 6. febrúar 1992, bls. 4
- ↑ 15,0 15,1 15,2 „Sýnist Hæstiréttur þurfa að fara varlegar í framtíðinni“, frétt í Morgunblaðinu, 26. júní 1992
- ↑ Þorgeir Þorgeirson; grein í Morgunblaðinu 2003
- ↑ Lög um mannréttindasáttmála Evrópu 1994 nr. 62
- ↑ Rúnar Ingi Einarsson, Þáttur Mannréttindasáttmála Evrópu í lögskýringaraðferðum umboðsmanns Alþingis, BA ritgerð í lögfræði við Háskóla Íslands, júní 2009
- ↑ [1]
- ↑ [2]
- ↑ [3]
- ↑ [4]
- ↑ „Réttlætið sigraði“ forsíðufrétt í Tímanum, 26. júní 1992
- ↑ Sigurður Már Jónsson, „Það má móðga, hneyksla og raska“, í Pressunni, 2. júlí 1992, bls. 26
- ↑ „Sigur Þorgeirs“ í Alþýðublaðinu, 1. júlí 1992, bls. 2
- ↑ Gerard Lemarquis, „Þorgeir“; viðtal í tímaritinu Eintak, 1. desember 1993, bls. 90
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Úrskurður Mannréttindadómstólsins í máli Þorgeirs Þorgeirsonar gegn Íslandi, nr. 13778/88 – á ensku. Ekki fæst séð að dómurinn hafi verið gefinn út í íslenskri þýðingu.
- Umfjöllun um mál Þorgeirs gegn Íslandi á vefnum article19.org
- Umfjöllun og samantekt á vef IBA Media Law Committee and IBA Human Rights Institute Geymt 6 mars 2016 í Wayback Machine