Wikipedia:Grein mánaðarins/09, 2016
Deng Xiaoping (eða Teng Hsiao-p'ing) var kínverskur leiðtogi og stjórnmálamaður, kenningasmiður og stjórnarerindreki. Sem leiðtogi Kommúnistaflokksins í Alþýðulýðveldinu Kína var Deng siðbótarmaður sem leiddi Kína í átt að markaðshagkerfi. Þrátt fyrir að hafa aldrei gegnt formlegu embætti sem þjóðhöfðingi eða leiðtogi ríkisstjórnar Kína þá var hann engu að síður talinn meginleiðtogi „annarrar valdakynslóðar“ Alþýðulýðveldisins Kína frá 1978 til 1990.
Deng var höfundur nýrra áherslna í kínverskum sósíalisma, þar sem efnahagslegar umbætur byggðu á kennismíð um „sósíalískan markaðsbúskap“. Hann opnaði Kína fyrir erlendum fjárfestingum, ruddi braut landsins fyrir þátttöku á heimsmarkaði og heimilaði starfsemi einkafyrirtækja á samkeppnismarkaði. Hann er yfirleitt talinn hafa lagt grunn að gríðarlegri efnahagsframþróun Kína síðast liðin þrjátíu ár. Þessi mikli hagvöxtur hefur breytt lífskjörum hundraða milljóna Kínverja til betri vegar. En þrátt fyrir að hafa losað um ríkishöft og eftirlit krafðist hann þess að flokkurinn hefði tögl og haldir í stjórnsýslu og stjórnmálum landsins. Hann studdi til að mynda notkun hervalds til að stöðva mótmælin á Torgi hins himneska friðar.