Westminster-sáttmálinn (1654)
Útlit
Westminster-sáttmálinn (1654) var friðarsamningur milli Enska samveldisins og stéttaþings Hollands sem batt enda á Fyrsta stríð Englands og Hollands. Hann var undirritaður 15. apríl (nýi stíll) 1654. Samningurinn innihélt leynilegan viðauka sem kvað á um að Hollendingar settu lög sem útilokuðu Vilhjálm af Óraníu frá ríkisstjóraembætti. Einangrunarlögin höfðu mikil áhrif á stjórnmál í Hollandi næstu ár. Samningurinn fól í sér þá nýjung að alþjóðlegur gerðadómur skipaður Hollendingum að hálfu og Englendingum að hálfu úrskurðaði um deiluefni vegna samningsins. Mótmælendakantónur Sviss áttu að eiga bindandi síðasta úrskurðarvald ef gerðadómnum tækist ekki að ná niðurstöðu.