Waysenhússbiblía
Waysenhússbiblía — eða Vajsenhússbiblía — er fjórða heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku, prentuð í Kaupmannahöfn 1747. Biblían er jafnan kennd við prentstað sinn, Hina konunglegu uppeldisstofnun (eða munaðarleysingjahælið, Waysenhúsið), sem árið 1727 hafði fengið einkarétt á útgáfu Biblíunnar í Danaveldi.
Halldór Brynjólfsson, sem varð biskup á Hólum 1746, hafði byrjað að þýða Nýja testamentið úr dönsku, og var ráðgert að gefa það út. Ludvig Harboe, fyrrum biskup á Hólum, var fenginn til ráðuneytis, og lagði hann til við trúarútbreiðsluráðið, að heppilegast væri að Biblían yrði prentuð í heilu líki handa Íslendingum. Var Jón Þorkelsson aðstoðarmaður Harboes, ráðinn til að hafa umsjón með verkinu. Hætt var við að nota þýðingu Halldórs, sem náði aðeins fram í Postulasöguna. Í staðinn var Þorláksbiblía lögð til grundvallar, en einhverjar lagfæringar gerðar á textanum.
Vorið 1746 hófst undirbúningur að útgáfu Nýja testamentisins, og var ákveðið að gefa það út í örlitlu broti, duodecimo eða tólfblaða broti. Útgáfan var ætluð fátæklingum og öðrum, enda slíkt brot við almennings hæfi. Kom bókin út haustið 1746 og kostaði óinnbundin hálfan ríkisdal.
Samhliða var unnið að prentun Nýja testamentisins, sem átti að nota í Biblíuna, og var það í stærra broti, svokölluðu fjórblöðungsbroti, sem er svipað og A4. Síðan var tekið til við Gamla testamentið, og kom Biblían út í október 1747. Bókin var 1.742 blaðsíður og miðaðist frágangur við að þetta væri alþýðuútgáfa.
Upplag Waysenhússbiblíu var 1.000 eintök. Útgáfan var að nokkru niðurgreidd með framlagi sem lagt var á allar kirkjur á Íslandi. Biblían kostaði óinnbundin 1 ríkisdal, en innbundin með spennslum 2½ ríkisdal. Þetta var ekki hátt verð miðað við fyrri Biblíuútgáfur, enda hafði markmiðið verið að gefa alþýðunni kost á að eignast Heilaga ritningu.
Þessar útgáfur bættu úr brýnni þörf, en dugðu þó skammt. Árið 1750 var Nýja testamentið endurprentað í 2.000 eintökum, í sama broti og áður. Til þess að stuðla enn frekar að útbreiðslu ritningarinnar, beitti danskur kaupmaður, Laurenz Stistrup, sér fyrir því að úthlutað var til fátæks fólks um 600 Biblíum og 1.700 Nýja testamentum.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Sigurður Ægisson: Grein í Morgunblaðinu 17. september 2006.