Vogmær
Vogmær | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Trachipterus arcticus |
Vogmærin (fræðiheiti: Trachipterus arcticus) er ein af níu tegundum sem tilheyra vogmeyjarætt og er hún sú eina sem finnst iðulega nálægt Íslandsströndum.
Nafn
[breyta | breyta frumkóða]Vogmærin er stundum nefnd vogmeri en nafn hennar er dregið af því hversu litrík og mjúk hún er og því kennd við mey. Í Grímsey var sú trú að ef Vogmærin ræki á land skyldi annað hvort flytja hana á haf út eða brenna með þeim hætti að reykinn legði á haf út. Ef til hvorugra þessara ráða yrði gripið mátti búast við skipskaða.
Útlit
[breyta | breyta frumkóða]Útlit Vogmeyjarinnar er afar sérkennilegt og frábrugðið öðrum fiskum við strendur Íslands. Fiskar af vogmeyjarætt eru þekktir fyrir hversu langir og þunnvaxnir þeir eru. Vogmærin er yfirleitt 1,5- 3.5 m á lengd en hefur þó fundist allt að 6 metra löng. Augun eru stór og munnurinn sérstakur þar sem hann lengist fram í trjónu þegar hann er opnaður. Stirtlan og sporðurinn eru skærrauð ásamt löngum bakugganum sem gengur eftir endilöngu bakinu. Aðrir uggar eru annað hvort afar litlir eða ekki til staðar. Sporðurinn er líka rauður og vísar upp á við. Í kringum augun er hún svört og einnig ofan á höfði og hnakka. Fyrir ofan raufina og hryggjarliði má sjá stóran, kringlóttan, svartan blett en að öðru leyti er hún silfurgljáandi.
Útbreiðsla
[breyta | breyta frumkóða]Fiskurinn lifir í Atlantshafinu, þá aðallega í Norður-Atlantshafinu, undan ströndum Noregs, umhverfis Bretlandseyjar og allt suður til Madeira.
Talið er að vogmærin sem finna má í Norður og Vestur-Atlantshafi séu erfðafræðilega mismunandi og því eigi að skipta henni í tvær aðskildar tegundir. Einnig finnst hún meðfram ströndum Bandaríkjanna sem gæti hugsanlega líka talist vera aðskilin tegund. Vogmærin hefur fundist allt í kringum Ísland, nema undan ströndum Norðausturlands og Austurlands. Þær reka stundum á land en oftast eru það stakir fiskar. Fyrir kemur þó að þær reki á land í torfum. Árið 2007 eru nokkur dæmi um að vogmeyjar ráku á land eða komu sem meðafli í veiðifæri skipa. Þrjátíu og fimm vogmeyjar fundust í Héðinsvík milli Reyðarár og Bakkahöfða, flestar illa farnar, hausinn oft dottinn af og hreistur farið. Sama ár fundust níu vogmeyjar reknar á fjöru á Skagaströnd og um haustið kom óvenju mikið af vogmeyjum á Dormbanka af skipum sem voru þar á kolmunnaveiðum. Talið er að þær hafi borist með hlýjum straumum norður fyrir land og drepist þegar í kaldari sjó var komið.
Lífshættir
[breyta | breyta frumkóða]Vogmær finnst oftast langt út á sjó, langt frá landi í allt að 300-100 metra dýpi. Mjög sjaldgæft er að sjá fiskinn en hann heldur sig að mestu við sjávarbotninn. Sárafáar rannsóknir hafa verið gerðar á lífsháttum vogmeyjarinnar. Talið er að vogmeyjar eyði mestum líftíma sínum stakar en mynda þó torfur á ákveðnu tímabili. Ekki er vitað hvort þær myndi þessar torfur til að auðvelda söfnun fæðu, fyrir hrygningu eða hvort tilgangurinn sé óskyldur því. Fæða vogmeyjarinnar er einkum rækja, smokkfiskar og ýmsar tegundir smáfiska. Ekki er vitað hvenær hún gýtur en nýgotnar hrygnur hafa rekið á land í lok maí.
Nytsemi
[breyta | breyta frumkóða]Nytsemi henna er lítil þrátt fyrir að hún sé æt. Stafar þetta einkum af því hve lítið veiðist af henni og af þeirri ástæðu að hún þykir ekki mikið lostæti. Ekki hefur verið áhugi fyrir veiðum á henni og ef hún kemur sem meðafli í netin er henni venjulega kastað út aftur. Þorskígildisstuðlar til útreiknings veiðigjalda fyrir fiskveiðiárið 1. september 2013 til 31. ágúst 2014 var 0,07 fyrir vogmærina.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var að hluta til „Trachipterus arcticus“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 6. október 2014.
- Eggert Ólafsson, Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752-1757 (þýð. Steindór Steindórsson), 4. útg., Örn og Örlygur, Reykjavík, 1981.
- Gunnar Jónsson, Íslenskir fiskar, Fjölvi, Reykjavík, 1983. Snæfellsbær
- Sesselja Guðrún Sigurðardóttir (2007). Vogmær. Skoðað annan október 2014 á vef Náttúrustofu Norðausturlands: http://nna.is/2007/01/05/vogmaer/[óvirkur tengill]