Fara í innihald

Vistarbandið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Vistarskylda)
Hey bundið í bagga á Arnarvatni árið 1907.

Vistarbandið var kvöð um að allt jarðnæðislaust fólk skyldi vera í vinnumennsku. Ef karl og kona réðu ekki eigin búi urðu þau að vera vinnuhjú á heimili bónda og eiga þar grið. Venjan var sú að fólk réði sig í ársvist í senn og skyldi skipta um heimili og vinnu á vinnuhjúaskildaga sem lengst af var á krossmessu á vor 3. maí, en fluttist yfir á 14. maí árið 1700 þegar tímatalinu var breytt.

Lágmarksstærð búa var þrjú kúgildi samkvæmt Píningsdómi frá árinu 1490. Ef einstaklingur réð ekki yfir slíkri eign þá varð hann að gerast vinnuhjú. Þessi lög voru enn þá í gildi á 18. öld og giltu í reynd áfram langt fram á 19. öld.

Ef húsbóndi stóð ekki við skyldur sínar við vinnuhjú þá mátti kæra hann fyrir hreppstjóra en vinnuhjú máttu þó ekki yfirgefa bæinn nema með leyfi bónda. Hvorki vinnuhjú né bændur máttu fara frá byggðalagi sínu nema þau fengju skriflegt leyfi prests eða veraldlegra yfirvalda.

Stundum var hægt að losna undan vistarbandi með því að gerast lausamaður. Þá réðu menn atvinnu sinni sjálfir og gátu selt húsbændum vinnu sína. Fram til ársins 1783 þurfti að eiga minnst tíu kúgildi til að vera lausamaður. Lausamennska var bönnuð árin 1783-1863. Þegar lausamennska var leyfð aftur árið 1863 var það með ströngum skilyrðum. Þegar sjósókn jókst var lögum breytt árið 1894 og fór þá lausaganga að vera flestu búlausu fólki aðgengileg.

Algengast var að fólk væri eingöngu vinnuhjú á unga aldri en stofnaði síðan bú ef það fékk leigt jarðnæði og gengi þá í hjónaband. Hins vegar var það hlutskipti margra, sérstaklega kvenna, að vera í vinnumennsku ævilangt. Flestir íslenskir bændur voru leiguliðar en þó var ekki bændaánauð á Íslandi og ekki hægt að skylda bændur til að búa áfram á leigujörð sinni lengur en eitt ár í senn. Sama gilti um vistarbandið, enginn var skyldugur að vera hjá sama bónda lengur en eitt ár í senn.

Ísland er sérstakt vegna þess hve stór hluti þjóðarinnar bjó í ófrjálsu einlífi vinnumennskunnar eða að jafnaði um 25% landsmanna alla 19. öldina sem var hæsta hlutfall í Evrópu.

Vistarband í Danmörku og á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Vistarbandið var tekið upp í Danmörku árið 1733 undir nafninu stavnsbånd, vegna áhrifa frá landeigendum og her til að tryggja bændum ódýrt vinnuafl. Það var lagt niður árið 1788.

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.