Viðtækjaverslun ríkisins
Viðtækjaverslun ríkisins var heildsala í Reykjavík sem hafði einkasölu á útvörpum á Íslandi. Viðtækjaverslunin var stofnsett árið 1930, samhliða tilkomu Ríkisútvarpsins. Viðtækjaverslunin var aðeins með útibú í Reykjavík, en samdi við menn eða félög út á landi um að hafa á hendi smásölu á tækjunum. Verslunin hafði fyrst tvær tegundir útvarpa á boðstólnum: Philips og Telefunken. Hún var lögð niður árið 1967.
Árið 1925 stofnuðu þrír menn félagið Hjalti Björnsson & Co í Reykjavík. Það voru þeir Hjalti Björnsson kaupmaður og konsúll, Sighvatur Blondahl heildsali og Gísli Finsen kaupmaður. Þessir menn fluttu fyrstir inn útvarpstæki á Íslandi árið 1924 og nokkru síðar útvarpsgrammafóna. Þetta voru Telefunkentæki, sem náðu erlendum stöðvum. Næsti innflytjandi útvarpstækja var Snorri B.P. Arnar, hann flutti inn Philipstæki. En þegar Viðtækjaverslun ríkisins komst á laggirnar misstu tækjasalarnir umboð sitt. Gísli Finsen hafði kynnt sér viðgerðir á Telefunkentækjum í Þýskalandi svo hann var skipaður fulltrúi og sölumaður hjá Viðtækjaversluninni og starfaði þar þangað til að einkasalan var lögð niður og hafði hún þá starfað í 37 ár. Aðrir, sem störfuðu þarna allan tímann, voru Filippus Gunnlaugsson verslunarmaður, Jóhann Ólafsson bókari og Kristján Kristjánsson söngvari.
Viðtækjaverslunin hafði einnig með að gera bifreiða-og hjólbarðaeinkasölu. Innflutningur á bifreiðum hjá bifreiðaeinkasölunni var ekki mikill. Eitthvað var flutt inn af Fiat bílum frá Ítalíu, smávegis af notuðum eða nýjum bílum frá Bretlandi og frá Bandaríkjunum. Þeir sem bílana fengu voru læknar, atvinnubílstjórar, sérstakir gæðingar, eða pólitíkusar. [1]
Ráðunautur einkasölunnar var Gunnlaugur Briem verkfræðingur. Framkvæmdastjóri hennar var Sveinn Ingvarsson, lögfræðingur, sonur Ingvars Pálmasonar alþingismanns.
Viðtækjaverslun ríkisins var til húsa að Lækjargötu 10B.