Fara í innihald

Viðlíking

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Viðlíking (líking eða samlíking) er stílbragð sem felst í að ljósi er varpað á fyrirbæri með því að bera það saman við annað fyrirbæri sem á eitthvað sameiginlegt með því. Viðlíking er náskyld myndhverfingu en munurinn felst í að í viðlíkingu er samanburðurinn bókstaflegur en í myndhverfingu er hann gefinn í skyn. Viðlíkingar eru algengar í ljóðlist en koma einnig víða fyrir í öðrum textum og töluðu máli. Í kviðum Hómers eru viðlíkingar algengar og oft býsna ítarlegar. Eftirfarandi dæmi er úr Ilíonskviðu og lýsir herliði Grikkja.

Nú þusti fólkið að. Svo sem flokkar þéttra býflugna þjóta fram úr bergholu, og koma æ fram nýjar og nýjar, fljúga í riðlum uppi yfir vorblómunum, sem vínber á kló, og flögra hnapparnir ýmist hér, ýmist þar: svo gengu margar sveitir hermanna frá skipunum og búðunum flokkum saman á þingið eftir endilangri sjávarströndinni.[1]

Viðlíkingar eru einnig algengar í Eddukvæðum, sem dæmi má nefna orð Sigrúnar Högnadóttur um Helga Hundingsbana í Helgakviðu Hundingsbana II.

Svo bar Helgi
af hildingum
sem íturskapaður
askur af þyrni
eða sá dýrkálfur
döggu slunginn
er öfri fer
öllum dýrum
og horn glóa
við himin sjálfan.[2]

Mörg dæmi um viðlíkingar má finna í daglegu máli, til dæmis má segja að einhver sé frjáls eins og fuglinn eða vinni eins og skepna.

Hjálparorð

[breyta | breyta frumkóða]

Viðlíkingar þekkjast á hjálparorðunum:

  • eins og
  • líkt og
  • sem

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Ilíonskviða 1949, bls. 28.
  2. Eddukvæði 1998, bls. 202.
  • Eddukvæði (Gísli Sigurðsson gaf út) (1998) Mál og menning.
  • Hómer (Sveinbjörn Egilsson þýddi) (1949). Ilíonskviða. Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
  • Jakob Benediktsson (1983). Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.
  • Óskar Halldórsson (1977). Bragur og ljóðstíll. Hið íslenska bókmenntafélag.

Fyrirmynd greinarinnar var „Simile“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 19. desember 2006.