Vesturfrísnesku eyjarnar
Vesturfrísnesku eyjarnar (hollenska: Waddeneilanden) eru eyjaklasi í Vaðhafinu undan norðurströnd Hollands og tilheyra Hollandi. Aðaleyjarnar eru fimm og eru þær allar í byggð. Eyjarnar mynda beina línu við Austurfrísnesku eyjarnar, sem tilheyra Þýskalandi. Auk þeirra eru einnig til Norðurfrísnesku eyjarnar sem tilheyra Þýskalandi og Danmörku.
Jarðfræði
[breyta | breyta frumkóða]Eyjarnar mynduðust við hreyfingar sjávar, þannig að sandrif hlóðust upp í Vaðhafinu. Þessi rif stækkuðu með tímanum og náði gróður að skjóta þar rótum. Því liggja eyjarnar í beinni línu, nema Texel sem liggur frá norðaustri til suðvesturs. Sökum hafstrauma hreyfast eyjarnar smátt og smátt í austurátt, þ.e. það brotnar af þeim að vestan og hleðst á austurendann. Slíkar hreyfingar taka hins vegar langan tíma. Norðurströnd eyjanna er að mestu úr sandi, en suðurströndin úr leir. Þegar fjarar út koma víðáttumiklar leirur í ljós, þannig að hægt er að ganga marga kílómetra til suðurs, jafnvel allt til meginlandsins. Þar er boðið upp á gönguferð til eyjarinnar Schiermonnikoog með vönum leiðsögumanni. Á milli eyjanna eru sterkir straumar þar sem sjór þrýstist ýmist til norðurs þegar fjarar út, eða til suðurs þegar flæðir að.
Eyjarnar
[breyta | breyta frumkóða]Megineyjarnar eru fimm að tölu og eru allar í byggð. Auk þeirra eru smærri eyjar og rif sem flestar eru friðaðar vegna náttúrunnar. Þar verpa fuglar í stórum stíl og í mörgum þeirra kæpa selir. Eyjarnar tilheyra flestar héraðinu Fríslandi, nema Texel sem tilheyrir Norður-Hollandi. Listi yfir Vesturfrísnesku eyjarnar eftir stærð:
Röð | Eyja | Stærð í km2 | Íbúafjöldi | Höfuðstaður |
---|---|---|---|---|
1 | Texel | 169 | 13.700 | Den Burg |
2 | Terschelling | 88 | 4.700 | West-Terschelling |
3 | Ameland | 60 | 3.500 | Nes |
4 | Vlieland | 40 | 1.100 | Oost-Vlieland |
5 | Schiermonnikoog | 39 | 990 | Schiermonnikoog |
Óbyggðar eyjar. Tölusetningin er af myndinni að ofan:
Tölusetning | Eyja/rif | Stærð |
---|---|---|
1 | Noorderhaaks | 4,5 |
2 | Richel | 1,5 |
3 | Griend | 0,82 |
4 | Rif | - |
5 | Engelsmanplaat | 6 |
6 | Simonszand | 0,5 |
7 | Rottumerplaat | 7,82 |
8 | Rottumeroog | 2,5 |
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Westfriesische Inseln“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júní 2011.