Fara í innihald

Verkamannabústaðirnir við Hringbraut

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Séð inn í garðinn hjá verkamannabústöðunum.

Verkamannabústaðirnir við Hringbraut er húsasamstæða sem reist var í vesturbæ Reykjavíkur í þremur áföngum á árunum 1931-1937 af Byggingarfélagi verkamanna (síðar Byggingarfélag alþýðu). Í fyrsta áfanganum voru reist húsin Ásvallagata 59-65, Bræðraborgarstígur 47, 49, 53 og 55 og Hringbraut 80-90. Guðjón Samúelsson gerði frumteikningar en síðan tók Einar Erlendsson við þeim og breytti þeim í verulegum atriðum eftir óskum félagsmanna og félagsstjórnarinnar og eftir eigin athugun. Í öðrum áfanganum voru reist Ásvallagata 49-57, Hofsvallagata 16-22 og Hringbraut 74-78. Húsin mynda samfellda og óslitna röð meðfram Hringbraut, Bræðraborgarstíg, Ásvallagötu og Hofsvallagötu. Í miðjunni er stórt lokað sameiginlegt svæði, port en einnig er lítill bakgarður við hvert hús og litlir garðar fyrir framan þau hús sem standa við Hringbraut. Húsin eru tvílyft og með kjallara. Fjórar íbúðir eru í hverju húsi. Það var nýjung þegar húsin voru byggð að í þeim var rafmagnseldavél og í hverri íbúð var baðherbergi. Gunnlaugur Halldórsson hannaði þriðja áfanga verkamannabústaðanna og var flutt í þau hús 1937.

Húsin eru í funkisstíl og eru hönnuðir Guðjón Samúelsson, Einar Erlendsson og Gunnlaugur Halldórsson. Verkamannabústaðirnir við Hringbraut þykja merkur áfangi í sögu byggingarlistar og þróun húsnæðis- og skipulagsmála í Reykjavík. Lagt hefur verið til að húsin verði öll friðuð.