Fara í innihald

Vallaannáll

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vellir í Svarfaðardal þar sem Vallaannáll var ritaður.

Vallaannáll er ritaður af sr. Eyjólfi Jónssyni á Völlum í Svarfaðardal og er kenndur við þann stað. Vallaannáll nær yfir árin 1659 til 1737 en nokkuð er glatað innan úr honum og aftan af honum.[1] Annállinn er stórmerkileg samtímaheimild og þykir bæði nákvæmur og fjölskrúðugur einkum á áratugunum 1680-1720. Lýsing hans á stórubólu 1707-1708, einni mestu drepsótt sem gengið hefur yfir landið, er mikilsverð heimild en einnig sorglegur vitnisburður um ráðaleysi manna gegn farsóttum. Hann segir frá Jóni Hreggviðssyni og viðureign hans við yfirvöld landsins, grimmúðlegum aftökum á Þingvöllum í anda stóradóms, tíðarfari, aflabrögðum, náttúruhamförum og ótal mörgu öðru.

Eyjólfur Jónsson hinn lærði (1670-1745), höfundur Vallaannáls, var einn helsti fræðimaður sinnar samtíðar á Íslandi. Hann var fæddur og upp alinn í Fljótum en varð prestur á Völlum 1705 og gegndi því embætti til dauðadags eða í 40 ár. Mikið orð fór af lærdómi Eyjólfs, ekki síst tungumálakunnáttu. Hann var sagður kunna 14 mál vel en getað fleytt sér í 18. Einnig var hann afar vel að sér í sögu og fornum fræðum. Eyjólfur skrifaði allmikið bæði á íslensku og latínu en margt af því hefur glatast. Þekktasta rit hans er Vallaannál. Eyjólfur var ókvæntur alla tíð en bjó með ráðskonum.

  1. Hannes Þorsteinsson 1922. Annáll Eyjólfs prests Jónssonar á Völlum í Svarfaðardal eða Vallaannáll 1659-1737. Annálar 1400-1800 I. Hið íslenska bókmenntafélag.