Eyjólfur Jónsson (annálaritari)
Eyjólfur Jónsson hinn lærði (1670-1745), höfundur Vallaannáls, var einn helsti fræðimaður sinnar samtíðar á Íslandi.
Nám og störf
[breyta | breyta frumkóða]Hann fæddist að Hraunum í Fljótum þar sem foreldrar hans bjuggu. Jón Eyjólfsson, faðir hans var síðan skipaður sýslumaður í Gullbringusýslu og flutti suður skömmu fyrir 1680 ásamt konu sinni en Eyjólfur varð eftir nyrðra og ólst upp hjá afa sínum, séra Sveini Jónssyni á Barði í Fljótum. Var síðar búsettur í nokkur ár hjá foreldrum sínum er þá bjuggu í Nesi á Seltjarnarnesi. Útskrifaðist úr Skálholtsskóla 1687. Var svo tvo vetur í Kaupmannahöfn fyrst 1687-8 og aftur 1692-3 og útskrifaðist þá með guðfræðipróf frá háskólanum. Kennari við Hólaskóla, prestur að Þingeyrakaustri. Gerði sér vonir um Þingvallaprestakall er þær vonir brugðust. Þá sótti hann um Velli í Svarfaðardal og flutti þangað í ársbyrjun 1705 og var þar til dauðadags, heil 40 ár.
Lærdómur
[breyta | breyta frumkóða]Mikið orð fór af lærdómi Eyjólfs, ekki síst tungumálakunnáttu. Hann var sagður kunna 14 mál vel en getað fleytt sér í 18. Einnig var hann afar vel að sér í sögu og fornum fræðum. Eyjólfur skrifaði allmikið bæði á íslensku og latínu en margt af því hefur glatast. Þekktasta rit hans er Vallaannáll.
Lýsing
[breyta | breyta frumkóða]Séra Eyjólfi var svo lýst að hann hafi verið lítill vexti en knár og snar, fimur maður og léttur á fæti og þóttust mestu göngugarpar í Svarfaðardal fá sig fullreynda við hann á göngu í ófærð. Hann var meira hneigður fyrir bækur en búsýslu, frásneyddur öllu veraldarvafstri, viðhöfn og tildri, söngmaður mikill en þótti nokkuð einrænn og undarlegur í háttum og ekki við alþýðuskap en þó vinsæll, ekki síst af sóknarbörnum sínum og heimilisfólki. Til marks um það segir sagan að bústýra prests, er Guðrún hét, hafi lagst hættulega veik. Grannkona hennar kom til að sitja yfir henni og hughreysta og sagði margt um hve gleðilegt yrði að komast í eilífa sælu. En Guðrún sagði er hin þagnaði: „Ja, það má þá vera gott ef mér líður betur þar en hér á Völlum“.
Eyjólfur var ókvæntur alla tíð en bjó með ráðskonum. [1]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Hannes Þorsteinsson 1922. Annáll Eyjólfs prests Jónssonar á Völlum í Svarfaðardal eða Vallaannáll 1659-1737. Annálar 1400-1800 I. Hið íslenska bókmenntafélag.